24.03.1976
Efri deild: 80. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2733 í B-deild Alþingistíðinda. (2272)

212. mál, upptaka ólöglegs sjávarafla

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Frv. þetta hefur að geyma nýmæli sem stjórnun veiða á undanförnum árum þykir sýna að fullkomlega tímabært eða öllu frekar bráðnauðsynlegt sé að setja í lög. Að vísu er að finna ákvæði um upptöku afla í botnvörpulögunum frá 1973. Samkv. þeim er hægt að beita upptöku afla vegna brota á veiðireglum sem settar eru með stoð í þeim lögum. Þetta á þó aðeins við ef um ítrekað brot er að ræða, og það verður að teljast alveg ófullnægjandi í því tilfelli t.d. að bát sé settur ákveðinn hámarksveiðikvóti. Þá getur hæglega komið fyrir að báturinn fari í veiðiferð eigandi eftir aðeins nokkur eða nokkra tugi tonna af sínum aflakvóta. Síðan kemur báturinn inn með fullfermi og fer þar með langt fram úr kvóta sínum. Hér er aðeins um eitt brot að ræða og því ekki hægt að beita upptöku afla um það sem umfram kvótanum nemur. Hagnaðurinn, sem viðkomandi hefur af þessum umframafla, getur hins vegar farið langt fram úr þeirri sektargreiðslu sem hægt yrði að dæma hann í.

Eins og fyrr greinir, á þetta við um veiðireglur sem settar eru samkv. botnvörpulögunum. Brot á veiðireglum eða veiðileyfum, sem eiga sér stoð í öðrum lögum, eins og t.d. landgrunnslögunum frá 1948, geta alls ekki varðað upptöku afla samkv. gildandi lögum. Þetta þykir alveg óviðunandi og vísast um slík brot til þess er segir í aths. frv. um brot síldveiðibátanna á s.l. hausti. En þar segir:

Eins og kunnugt er var hámarksafli sá, sem hver bátur mátti veiða, 215 tonn síldar. Margir síldarbátanna fiskuðu mun meira en þessum kvóta nam, mismunandi mikið, en allt upp í 144 tonn fram yfir kvótann. Brúttóverðmæti umframafla þess báts miðað við að allt hafi farið í 1. flokk mun nema um 5 millj. 760 þús. kr. Ekki er vitað til þess að neinn af skipstjórum þeim, sem kærðir voru fyrir að hafa brotið þessa reglu um hámarkssíldarafla, hafi enn hlotið sektardóm, en samkv. l. nr. 44 5. apríl 1948 er ekki unnt að dæma þá í meir en 1 millj. kr. sekt, þannig að ljóst er að sumir hafa hagnast mjög verulega á þessum brotum. Þetta þykir alls ekki viðunandi og heldur ekki að menn geti greitt sektir að öllu eða nokkru leyti með ólöglega fengnum afla. Þess vegna er lagt til í frv. þessu að „ólöglegur sjávarafli“ skuli gerður upptækur.“

Þær upptökuheimildir, sem felast í þessu frv., eru nýmæli sem þykir nauðsynlegt að setja. Þau nýmæli, sem felast í 2.–4. gr. frv., þykja einnig nauðsynleg og gefa jafnframt tilefni til sérstakra skýringa því að hér er farið inn á alveg nýjar brautir hvað snertir aðferðina við að beita upptöku afla. Samkv. gildandi lögum eru slíkar aðgerðir vegna brota á veiðireglum eingöngu í höndum dómstóla, en hér er lagt til að framkvæmdavaldinu eða nánar tiltekið ráðh. verði fengið slíkt vald í hendur. Þetta er því nýmæli, enda þótt framkvæmdavaldið hafi á sumum öðrum sviðum vald til ákvarðana sem telja má svipaðs eðlis. Það er skýrt tekið fram í aths. með frv., að með því að fela ráðh. vald til upptöku ólöglegs sjávarafla er ekki verið að taka slík mál undan forræði dómstóla, enda gerir frv. ráð fyrir að öllum slíkum ákvörðunum ráðh. megi vísa til meðferðar sakadóms. Það, sem telja verður að vinnist með því að heimila ráðh. upptöku ólöglegs sjávarafla, er fyrst og fremst að þetta ætti að gera slík mál mun þjálli og einfaldari í meðförum og þar með flýta afgreiðslu þeirra, auk þess sem með þessu væri væntanlega létt af dómstólum mörgum málum sem enginn ágreiningur væri um og ætti þess vegna að vera óþarfi að láta ganga þá leið aðeins fordæmisins vegna.

Í þessu sambandi er rétt að geta þess, að gert er ráð fyrir því að ólöglegur sjávarafli verði gerður upptækur óháð því hvort um refsiverðan verknað er að ræða, og mælir það auðvitað frekar með því að ráðh. láti annast framkvæmdina. Til frekari útskýringar á þessu má t.d. nefna að erfitt getur verið að sanna að um sök sé að ræða hjá skipstjóra sem farið hefur aðeins fram úr kvóta sínum eða landar fiski sem er aðeins undir gildandi reglum um lágmarksstærðir. Í slíkum tilfellum er e.t.v. ekki efni til að dæma skipstjóra til refsingar, en á hinn bóginn þykir ekki rétt að láta hann hagnast á því að landa slíkum afla, jafnvel þótt í smáu væri. Um það, hve mikill hluti afla væri þannig ólöglegur, ætti sjaldnast að vera ágreiningur og ætti því að vera óþarfi að láta slík mál fá ítarlega dómstólameðferð, eins og ég sagði áðan. Að öðru leyti vísa ég til aths. með frv.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. vil ég leggja til að þessu frv. verði vísað til sjútvn.