25.03.1976
Sameinað þing: 70. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2766 í B-deild Alþingistíðinda. (2309)

76. mál, afnám tekjuskatts af launatekjum

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki fara mörgum orðum um það efnislega sem sú þáltill., sem hér um ræðir, gerir ráð fyrir, enda er það kannske erfitt eftir slíka sérfræðilega úttekt á skattamálum eins og hv. síðasti ræðumaður gerði hér. En ég vil þó segja að það getur engum dulist að það skattakerfi, þau skattalög, sem verið hafa hér í gildi um árabil, eru mjög ranglát.

Miklar umr. hafa átt sér stað, ekki síst á síðasta ári, vegna þess mikla ranglætis sem gildir í núverandi skattalöggjöf, og það ranglæti snýr fyrst og fremst að launafólki, hinum almenna launamanni. Og ég vænti þess að hv. síðasti ræðumaður, sem hér talaði, sé þó mér og öðrum, sem eru svipaðrar skoðunar, sammála um að það verður vart lengur við unað slíkt óréttlæti gagnvart launafólki í landinu eins og fram hefur komið í þeirri löggjöf um tekjuskatt, sem verið hefur í gildi um langt árabil. Menn getur að sjálfsögðu greint á um ýmsa þætti þessa, en höfuðatriðið er að ranglætið er slíkt að þeir tiltölulega fáu einstaklingar í hópi launafólks, það eru þeir sem fyrst og fremst verða fyrir barðinu á þessu rangláta skattakerfi. Aðrir sleppa. Og það er að mínu viti rangt mat hjá hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni að þeir beri þó hæstu skattana, sem mest launin hafa. Þeir hafa kannske mestu launin sem bera alls enga skatta. Ég held sem sagt að hvað sem líður þeim atriðum sem sett eru fram í þessari þáltill., þá hljóti menn almennt að vera orðnir um það sammála að það kerfi, sem nú er í gildi, getur vart orðið öllu lengur í gildi vegna þess gífurlega ranglætis sem það býður upp á og snýr þá fyrst og fremst að láglaunafólkinu.

Það hlýtur að vekja menn til umhugsunar, slíkt skattakerfi, þegar það er ljóst að tiltölulega mjög fáir einstaklingar í okkar þjóðfélagi bera tekjuskatt og þar er fyrst og fremst um að ræða launafólk, í mörgum tilvikum láglaunafólk, en allur atvinnurekstur í landinu er tiltölulega lítið skattlagður og líklega helmingur alls atvinnurekstrar í landinu ber engan tekjuskatt. Ég held að menn hljóti því að velta því fyrir sér, ef menn standa frammi fyrir þeirri staðreynd, sem mér sýnist að sé, að ekki sé hægt að fá þær breytingar á núverandi löggjöf sem leiðrétti þetta geysilega misræmi, þá fari menn að velta því fyrir sér hvort sé í raun og veru um að ræða annað en að afnám tekjuskatts eigi sér stað.

Nú er öllum ljóst að mikil óánægja hefur verið um árabíl með tekjuskattskerfið eins og það hefur verið uppbyggt, og hefur ekki tekist því miður, þrátt fyrir mikla baráttu margra að fá þær breytingar fram á þessu kerfi sem hefðu í för með sér, að það væru aðrir einstaklingar í þjóðfélaginu en launþegar einir sem bæru tekjuskatt. Ég vil því fyrir mitt leyti segja það, að ég vænti þess að það, sem fram kemur í þessari þáltill., verði skoðað gaumgæfilega af þeim fjölmörgu, held ég, endurskoðunarnefndum af hálfu hæstv. fjmrh. sem eru í gangi og búnar eru að vera í gangi á annað ár, þær skoði það, sem hér er sett fram, og gefi um það umsögn hvað hér er í raun og veru á ferðinni og hvað það þýðir. Erindi mitt í ræðustól nú var fyrst og fremst þetta, að ef ég man rétt, þá eru í rúmlega eitt ár búnar að vera starfandi endurskoðunarnefndir á vegum fjmrn. ég held sjö eða átta, ef ég man rétt, í sambandi við skattamál og tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs. Tiltölulega hljótt hefur verið um þessa starfsemi. A.m.k. hefur mér vitanlega ekki verið mikið í því gert að koma upplýsingum um það, sem gert hefur verið, hafi eitthvað verið gert, til þeirra þingflokka sem fulltrúa eiga í þeirri tenginefnd, sem kölluð hefur verið, milli þingflokkanna og þessara endurskoðunarnefnda.

Ég tók það svo, það sem hæstv. fjmrh. sagði hér áðan, að það mundi ekki vera að vænta neinna frv. um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt á þessu þingi. Hann orðaði það svo að hann mundi gera þinginu grein fyrir þeim athugunum sem fram hefðu farið á vegum þessara nefnda. En eins og hv. þm. Halldór Ásgrímsson vitnaði hér til áðan, þá var því lýst yfir af tveim hæstv. ráðh. að frv. yrðu lögð fram á þessu þingi um breytingu á tekju- og eignarskattslögum. Mér sýnist greinilegt að þetta muni ekki verða. En ég vil þó leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh. um það, hvort ekki sé að vænta neins frv. eða frumvarpa nú á þessu þingi, sem eigi að afgreiða, sem hafi í för með sér breytingu á tekjuskattslögum og þá í þá átt sem mest er talað um, þ.e. að leiðrétta það herfilega misrétti, sem löggjöfin nú býður upp á.

Hv. þm. Halldór Ásgrímsson lýsti því yfir áðan að hann hefði vænst þess að stórátak hefði verið gert í þessum efnum af núv. hæstv. ríkisstj., og af hans máli mátti skilja að hann hafi orðið fyrir vonbrigðum með hversu lítið hafi verið gert í þessum efnum. Og ég er honum sammála um það, — menn getur greint á um leiðir í þessum efnum, — en ég er honum sammála um að þetta er eitt af því marga, vil ég segja, sem ég hef orðið fyrir vonbrigðum með hjá hæstv. ríkisstj. Þetta erum við, ég og hv. stjórnarsinni Halldór Ásgrímsson sammála um.

Ég vil sem sagt spyrja hæstv. fjmrh. um það, og ég vænti þess að hann geti svarað því nú þegar svo langt er áliðið þings, hvort ekki sé að vænta frv. af hálfu hæstv. ríkisstj. um breytingu á tekjuskattslögunum.

Ég vil svo aðeins segja það að lokum, að hvað sem mönnum finnst um efnishlið þessarar þáltill., þá verður ekki hjá því komist eða undan því vikist að gera þær breytingar á skattalöggjöfinni sem hafa í för með sér miklu meira réttlæti gagnvart launafólki heldur en sú skattalöggjöf sem við búum við. Það gerðist á s.l. ári að hópar launafólks tóku sig saman, söfnuðu undirskriftum á nokkrum stöðum þar sem mótmælt var þessari ranglátu skattalöggjöf og bent á það, sem rétt er, að það er hægt að telja í hundruðum, ef ekki þúsundum og aftur þúsundum, þá einstaklinga í atvinnurekstri sem vitað er um að hafa stórtekjur, en losna undan því að greiða skatt til samfélagsins. Það er þetta ranglæti sem launafólk og verkalýðshreyfingin getur ekki sætt sig við. Þó að hér sé sagt úr ræðustól að menn eigi ekki að fórna höndum og gefast upp, þá verður vart lengur við það búið að við lýði sé svo stórkostlega gölluð skattalöggjöf sem hér um ræðir, sem fyrst og fremst bitnar á þeim sem síst skyldi. Þeir, sem betur mega sin, og þeir sem best mega sín, sleppa gersamlega. Það er í raun og veru aðalatriðið sem þarf að breyta. Og ég vænti þess, hvað sem hv. þm. Halldór Ásgrímsson segir um efnisinnihald þessarar þáltill., að þá reyni hann eftir sem áður að beita sínum áhrifum innan hæstv. ríkisstj. og innan stjórnarflokka í þá átt að hér verði betur gert í leiðréttingarátt fyrir það fólk, sem verst er sett, heldur en bæði núv. hæstv. ríkisstj. og aðrar á undan henni hafa gert.