25.03.1976
Sameinað þing: 70. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2787 í B-deild Alþingistíðinda. (2318)

206. mál, ráðstafanir til að koma í veg fyrir atvinnuleysi og búseturöskun í Norður-Þingeyjarsýslu

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Ekki get ég nú að því gert, að ég er ekki alveg viss um að sú mynd, sem dregin var upp hér af byggðaþróunaráætlun fyrir Norður-Þingeyjarsýslu í ræðu síðasta hv. ræðumanns, hafi nú verið alveg réttmæt. En ég ætlaði ekki að blanda mér í deilu um þá hluti. Hins vegar finnst mér ég ekki geta látið hjá líða að segja hér nokkur orð og þá fyrst og fremst til að þakka hv. þm. Kristjáni Ármannssyni fyrir ágætt mál hér og fyrir að vekja hér á hv. Alþ. athygli á vandamáli síns byggðarlags, — vandamál sem er raunar sameiginlegt fyrir fleiri byggðarlög en þetta og hætta er á að geti komið upp miklu viðar heldur en enn er orðið.

Norður-Þingeyjarsýsla er hreint ekki svo lítill hluti af öllu Íslandi. Þetta er stórt landssvæði, það er vel gróið. Það er óviða á landinu sem beitarlönd eru skynsamlegar nýtt heldur en einmitt í Norður-Þingeyjarsýslu, og það ber mjög lítið á að land sé ofnýtt, eins og kallað er. Strandlengja Norður-Þingeyjarsýslu er mjög löng, og úti fyrir ströndum Norður-Þingeyjarsýslu hafa lengi verið einhver fengsælustu fiskimið hér. Það var ekki tilviljun að síldarverksmiðjum var valinn staður á Raufarhöfn, svo sem raun bar vitni. Og það er ekki heldur tilviljun að það byggðist á sínum tíma upp myndarleg útgerðarstöð á Skálum á Langanesi. Og það er ekki tilviljun að bátar úr nærliggjandi landshlutum, bæði á Austurlandi og vestan fyrir Tjörnes, hafa sótt á fiskimiðin við strendur Norður-Þingeyjarsýslu. Þarna var sérstaklega mikill auður í sjó og á landi í Norður-Þingeyjarsýslu hafa komið mikil verðmæti úr sjó á undanförnum áratugum. Hinu er aftur á móti ekki að neita, að þjónusta samfélagsins við þetta byggðarlag hefur verið í lágmarki. Ef við lítum á hvort heldur er skólamál, vegamál, hafnamál eða nærri því að segja öll þau mál, sem við sinnum sameiginlega, þá hefur þetta byggðarlag orðið hart úti um fjármögnun af hálfu samfélagsins.

Vegir eru að vísu nokkuð langir í Norður- Þingeyjarsýslu, en það eru langir kaflar á milli þéttbýlisstaða sem enn eru aðeins troðningar, og á veginum á milli Kópaskers og Raufarhafnar eru enn þá tugir km þar sem vegurinn liggur lægra en umhverfið og ef einhver snjór kemur, en raunar er snjólétt á þessum svæðum, þá er það helst á þjóðveginn. Það vantar mjög mikið á að vegurinn gegnum sýsluna hafi verið gerður þannig úr garði að hann geti heitið sómasamlegur þjóðvegur á okkar mælikvarða sem ekki er þó sérstaklega strangur.

Skólar eru af mjög skornum skammti í héraðinu og íbúar þess hafa þurft að sækja mjög mikinn hluta skólanáms utan héraðs. Það er verið að vísu að byggja upp skóla í Lundi í Axarfirði og þar er starfræktur skóli, en það vantar mikið á að hann fullnægi nútímakröfum og enn þá er ekki aðstaða til þess að allir nemendur njóti skyldunáms á heimaslóðum.

Svona mætti lengi telja, og ég held að sé óhætt að segja að það fer ekki mikið fyrir sameiginlegum framkvæmdum þjóðarinnar einmitt á þessum stað. Það hefur verið réttilega tekið hér fram áður að síldarauðurinn var fluttur í aðalatriðum burt úr sýslunni og raunar skilið eftir fullt af vandamálum, en engir peningar.

En það eru fleiri verðmæti í Norður-Þingeyjarsýslu heldur en góð fiskimið og góðar uppeldisstöðvar fyrir fisk og mikið gróið land. Þarna eru ýmiss konar hlunnindi við sjávarsíðu, reki og fleira, sem um aldir var veruleg undirstaða þeirrar byggðar sem var í Norður-Þingeyjarsýslu. Og ég hygg að það sé rétt, að oft a.m.k. komust íbúar Norður-Þingeyjarsýslu tiltölulega mjög vel af vegna þess hversu fjölbreytileg not voru lands og sjávar á því svæði. Það eru óvirkjuð vatnsföll í Norður-Þingeyjarsýslu. Það er að ég hygg jafnvel sama og engin vatnsorka beisluð á þessu landssvæði, en allir vita að einhverjir stórfelldustu virkjunarmöguleikar eru einmitt í Jökulsá á Fjöllum sem er í Norður-Þingeyjarsýslu. Þar eru afbragðs hafnarskilyrði, ekki einungis á þeim stöðum þar sem nú eru þéttbýlisstaðir, eins og Raufarhöfn og raunar Þórshöfn, að vísu eru þau heldur lakari á Kópaskeri, en það eru afbragðs hafnarskilyrði viðar, þannig að mörg aðstaða og náttúruskilyrði eru þarna með ágætum. En byggðin er langt frá höfuðstöðvunum hér í Reykjavík, og ég er sannfærður um að hún hefur goldið þess hversu fjarlægðir eru miklar frá stjórnstöðvunum hér.

Ég held að það sé mjög nauðsynlegt fyrir hv. Alþ. að það marki ótvíræða stefnu um hvort það vill að landið allt verði byggt og auðæfi þess nytjuð eða vissir hlutar landsins lagðir í eyði. Það er áreiðanlegt, sem hér hefur komið fram, að það má ekki miklu halla í Norður-Þingeyjarsýslu svo að meginhluti byggðarinnar þar sé í hættu.

Það er vafalaust rétt að þetta hefur verið augljóst mörgum mönnum um alllangt skeið og þarna hafa ýmsir örðugleikar og ýmis vandamál blasað við. En þó hygg ég að einmitt nú á allra síðustu missirum hafi þetta orðið enn ljósara en áður. Það er ekki langt síðan fiskafli á Þórshöfn var a.m.k. þriðjungur, ef ekki fast að helmingi meiri en hann var á s.l. ári. Þar hefur fiskurinn, sem gekk í Þistilfjörðinn og var veiddur af bátum á mjög stóru svæði, brugðist að verulegu leyti á undanförnum tveim árum, og virðist augljóst að sá fiskur, sem menn vonuðu að gæti gengið á grunnmið norður-þingeyinga,er veiddur annars staðar. Þess vegna er það orðið nauðsynlegt, sem menn hafa vonað til skamms tíma að þeir þyrftu ekki að gera, en það er nú orðið nauðsynlegt að þetta svæði fái skip sem geta flutt hráefni í frystihús sitt lengra að.

Herra forseti. Ég ætla ekki að halda hér langa ræðu. Ég vil aðeins endurtaka þakklæti mitt til flm. þáltill. fyrir að hafa flutt mál sitt með þeim hætti sem hann hefur gert hér, og ég vil vonast til þess að hv. Alþ. sjái sér fært að samþykkja sem fyrst þessa þáltill.