30.03.1976
Sameinað þing: 73. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2882 í B-deild Alþingistíðinda. (2376)

124. mál, rannsóknir og hagnýting á sjávargróðri

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Það er nú með hálfum hug að ég bið um orðið. Ég held að það væri sæmst að láta þessi orð hv. 2. þm. Vestf. standa án þess að vera að gera neinar athugasemdir við þau. Hann sagði að það, sem ég sagði í minni fyrstu ræðu, hefði verið, þvæla og það, sem ég sagði í minni annarri ræðu, hefði verið þvæla. Hann verður að hafa sína skoðun á því. Ég ætla ekki að fara að kveða hér upp dóm um það hvers konar ræður ég flyt, ég legg það algjörlega í dóm hv. þm. Hann sagði að ég hefði verið að snúa út úr öllu sem hann hefði sagt, en hann gat ekki fært eitt einasta dæmi fram um það. En það var eitt rétt sem hann sagði og það er skylt að taka það fram. Það var eitt rétt, sem hann sagði. Hann sagði að ég hefði kallað hann formann Rannsóknaráðs, það var rétt, mér varð á mismæli. Ég vissi að hann er framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs.