31.03.1976
Efri deild: 83. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2893 í B-deild Alþingistíðinda. (2391)

226. mál, leiklistarlög

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir framlagningu þessa frv. Það er ánægjulegt að þetta frv. skuli vera komið hér og einhver hreyfing skuli komast á þetta mál, því að það var árið 1972 sem samþ. var þál. frá okkur Karvel Pálmasyni, hv. þm., um að taka til endurskoðunar lög um fjárhagslegan stuðning við leiklistarstarfsemi áhugamanna. Þetta er svo uppskeran í raun og veru af því starfi sem síðan hefur verið unnið í framhaldi af samþykkt þessarar ályktunar. Ég hygg að það hafi verið markmið okkar, að við ætluðum að reyna að tryggja það að áhugaleikfélögin í landinu fengju öruggari og meiri stuðning við sitt starf en verið hafði þá um skeið. Sannleikurinn er sá um lögin frá 1965 að það eru bundnar upphæðir þar og þær eru löngu orðnar úreltar og upphæðir síðustu ára hafa farið langt upp fyrir lagatakmörk sem betur fer.

Ég vona sem sagt að þetta frv. verði leiklistarstarfseminni í landinu í heild til góðs. Það er rétt, sem hæstv. ráðh. segir, það er ekki talað um ákveðnar fjárhæðir. Það tel ég heldur ekkert aðalatriði. 1965 voru fjárhæðirnar lögbundnar og þá voru þær mjög til hækkunar frá því sem þá hafði verið, en auðvitað voru þær bókstafur einn fyrstu árin. Það var lengi svo, að ekki náði einu sinni helmingi upphæðarinnar, vegna þess hve fjárveitingar voru naumt við nögl skornar. Þá eins og nú réðu vitanlega fjárveitingarnar öllu. Þar af leiðandi teljum við, sem erum í stjórn Bandalags íslenskra leikfélaga, ekki aðalatriðið að fá lögbundin einhver ákveðin framlög, enda eru verkefni leikfélaganna mjög misjöfn og kostnaður geysilega ólíkur og vandaðri verkefnin oft dýrust.

Það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði hér og fagnaði, að gróska í leiklistarstarfsemi landsbyggðarinnar sérstaklega er geysileg og fjárstuðningur við hana er því enn nauðsynlegri en ella, þó ég telji enn mikilvægara ef Þjóðleikhúsið gengi nú til móts við áhugafólkið í fullri alvöru og því gert skylt, svo sem mér sýnist nú með nýju frv. um Þjóðleikhús, að rækja skyldu sína við áhugafólkið, senda því leikara og leikstjóra því að kostnaðarlausu eða kostnaðarlitlu. Ég tel enda að Þjóðleikhúsið ræki ekki sitt verkefni sem skyldi fyrr en það sinnir þessari grundvallarskyldu. Annars er það ekki Þjóðleikhús, annars er það aðeins nafn og ekkert annað.

Aðalástæðan fyrir þessu, sem ég vil geta hér um, er ekki það hvað við í stjórn bandalagsins höfum starfað vel að þessum málum, heldur að framkvæmdastjóri okkar bandalags hefur unnið hér geysimikið starf og alveg sérstaklega gert stórátak í því að virkja krafta ungra leikara hér á höfuðborgarsvæðinu, — leikara, sem hafa verið að bíða eftir verkefnum, eftir stóra hlutverkinu sínu, verið við lítið hér á þessu svæði, en var erfitt að fá áður. Þessir kraftar nýtast áhugaleikfélögunum mjög vel, og ég held að það sé ekki bara áhugaleikfélögum til gagns, heldur kannske miklu fremur þessu unga fólki til gagns að fara út á landsbyggðina og leiðbeina áhugafólkinu þar.

Það er sérstök ástæða til þess að vekja athygli á því að áhugaleikfélögin hafa tekið íslensk leikrit miklu meira til meðferðar en áður var, þau verða sífellt stærri þáttur í starfsemi þeirra. Að þessu hefur verið unnið og okkur hefur orðið í þessu efni vel ágengt og ekki síst vegna áhuga hinna ungu leikara. Ég skal annars ekki ræða þetta starf hér því að það er mér svo mjög skylt, en ég fullyrði þó að víða er hér um að ræða merkasta menningarframlagið í byggðarlögunum víðs vegar um landið, þegar þar er sett upp leikverk.

Ég ætla að snúa mér með örfáum orðum að frv., ég fæ ekki tækifæri til að fjalla um það í n. Það er talsvert frábrugðið því upphaflega, því sem við áttum beinan hlut að í Bandalagi ísl. leikfélaga, en við höfum fjallað um þetta frv. einnig og lýst yfir stuðningi okkar við það í meginatriðum. Ég ætla ekki að fara út í upphaflega frv., ég vil sjá hvað n. gerir í málinu og hvort einhverjar breytingar kunna þar að verða gerðar. Ég hygg þó að það sé ekki ástæða til þess, nema þá í sárafáum tilfellum.

Um einstakar greinar vil ég aðeins segja það, að í 2. gr., þar sem kemur til árleg fjárveiting til leiklistarstarfsemi í landinu almennt, þá skiptir auðvitað mestu hvert viðhorf fjárveitingavaldsins er til þessarar starfsemi. Hingað til hefur verið geysilega mikill munur á atvinnuleikhúsunum og áhugaleikfélögunum, eins og hæstv. ráð. benti á, og vil ég aðeins benda á það, þó þeir akureyringar eigi allt gott skilið, að um leið og þeir voru komnir með sitt atvinnuleikhús, þá fengu þeir miðað við verkefnafjölda um 10-falt meira en nokkurt áhugaleikfélaganna gat fengið. Þetta er að mörgu leyti eðlilegt vegna þess að þarna er farið að fastráða fólk og þeim hefur sannarlega ekki veitt af því, enda höfum við út af fyrir sig í Bandalagi ísl. leikfélaga, þar sem þetta félag er þó enn þá, ekkert haft á móti þessu. En þetta sýnir hins vegar gerólík viðhorf til atvinnuleikhúsanna annars vegar og áhugaleikfélaganna hins vegar sem okkur þykir ansi áberandi oft og tíðum. Ég vona sem sagt að þetta frv., ef að lögum verður, valdi breytingu á þessu, og hlutdeild Bandalags ísl. leikfélaga í leiklistarráðinu ætti einmitt að tryggja það.

Varðandi fjárveitingar sveitarstjórnanna, þá hlýt ég auðvitað að vera samþykkur því að sveitarfélögin veiti fé til leiklistarstarfsemi í sveitarfélögunum eftir því sem ákveðið verður í fjárhagsáætlunum þeirra. Hér er um sjálfsagðan stuðning að ræða. En auðvitað er spurning um hvort það sé ekki fram á of mikið farið að hvert sveitarfélag greiði jafnmikið og ríkissjóður. Ef þetta yrði gert að skilyrði fyrir því sem ríkissjóður greiddi, þá er ég hræddur um að þar yrðu nokkrir árekstrar. Þá á ég sérstaklega við smærri sveitarfélögin, þar sem oft eru viðamikil leikrit flutt, en sveitarfélögin eru of veikburða til þess að styðja það nægilega vel.

Þetta held ég að n. þyrfti að athuga örlítið nánar, því þetta þykir mér fullstíft ákvæði og er með ákveðna till. þar til breytingar sem ég vil koma á framfæri við n. Áður nægði helmingsframlag gagnvart minni verkefnum, en hins vegar jafnmikið framlag varðandi fleiri verkefni, það er rétt. Þar af leiðandi hefur aldrei verið farið eftir þessu, það er aðalatriði málsins reyndar. Ríkissjóður hefur greitt þetta þrátt fyrir það að sveitarfélögin hafi ekki staðið fyllilega við sinn hluta, og er út af fyrir sig vel að svo hefur verið.

Varðandi 3. gr., þar er talað um að menntmrn. úthluti þessu fé til almennrar leiklistarstarfsemi að fengnum till. Bandalags ísl. leikfélaga. Ég fagna þessu ákvæði mjög, en ég vil geta þess að á síðustu árum hefur verið haft mikið og gott samstarf við bandalagið um þetta og hæstv. ráðh. menntamála, bæði Magnús T. Ólafsson og Vilhjálmur Hjálmarsson, hafa sýnt bandalaginu mikið traust í þeim efnum og ekki gert neitt án þess að hafa um það samráð við okkur.

4. gr. er sjálfsagt sú sem menn hnjóta aðallega um, þ.e.a.s. spurningin um þetta leiklistarráð, hve viðtækt valdsvið þess á að vera, hve mikið það eigi að gera. Sumir óttast eflaust að hér sé verið að koma á einu bákninu enn. Það held ég að sé algjörlega ástæðulaust. Ég hygg að þetta leiklistarráð geti orðið mjög til góðs varðandi fyrri liðinn, þ.e.a.s. að vera vettvangur skoðanaskipta og umr. um leiklistarmál, og það er einmitt sérstök nauðsyn á því að menn blandi geði hver við annan: áhugaleikarar, atvinnuleikarar og höfundar tals og tóna og svo aðrir þeir aðilar sem hér er lagt til að taki þarna sæti. Þennan vettvang hefur skort og það kom mjög skýrt í ljós á ráðstefnu sveitarfélaganna um menningarmál á s.l. vori, sem þá var haldin, að þessir menn töluðu ekki eins ólík tungumál og menn höfðu áður haldið, rithöfundarnir t.d., tónskáldin og jafnvel áhugaleikararnir. Ég held að þessi vettvangur sé þess vegna mikil nauðsyn, og þeim, sem óttast að þetta verði bákn, vil ég aðeins benda á að það er aðeins gert ráð fyrir því að um einn fund verði að ræða á ári, nema sérstök ástæða verði þá til, og það er ólaunað og eins og hæstv. ráðh. tók fram, þá verður ekki um mikinn kostnað af þessu að ræða. En hinu fagna ég, hve áhrif áhugaleikfélaganna eru mikil í þessu máli, og þau hafa þess vegna möguleika á því að hafa líka áhrif á stjórn þessa ráðs. Miðað við daginn í dag mundi þetta gilda 6–7 fulltrúa frá Bandalagi ísl. leikfélaga í þetta leiklistarráð, vegna þess að í bandalaginu eru milli 60 og 70 félög.

Ég hef heyrt, síðan þetta frv. kom fram í gær, að einhverjir óttist að ráðið blandi sér of mikið í listmótun og liststefnur. Ekki hef ég áhyggjur af því. Ég held að það að stuðla að stefnumótun sé ekki svo afgerandi. Ég held að nýir straumar og nýjar stefnur geti jafnt rutt sér til rúms þrátt fyrir þetta leiklistarráð. Ég held að aðalmeining þess að hafa þetta ráð sé að reyna að hafa jákvæð áhrif á flutning góðra leikverka og um leið nýrra leikverka og ekki að hjakka í því gamla farsafari eingöngu sem viljað hefur við brenna. Þróunin hefur verið í þessa átt að undanförnu hjá áhugafélögunum, og það er áhugi hjá okkur í bandalaginu að brydda upp á nýjungum einnig, taka ný verk einnig til meðferðar. En hins vegar getur nýungagirnin og framúrstefnan einnig farið út í öfgar og það ber og að varast.

Ég held að eitt mikilvægasta hlutverk leiklistarráðsins gæti orðið það, sem um getur undir 3. tölulið, að stuðla að ritun og útgáfu leikrita. Við höfum ekki sýnt þeim fáu höfundum, sem lagt hafa sig eftir leikritun, nægan áhuga og stuðning í verki, þ.e.a.s. ekki af hálfu opinberra aðila. Hins vegar hefur almenningur í landinu fagnað höfundum eins og t.d. Jónasi Árnasyni og Jökli Jakobssyni eða þá Birgi Sigurðssyni, svo yngra dæmi sé tekið, og hefur styrkt þá með mikilli og góðri aðsókn að leiksýningum þeirra.

Ég bendi á til víðbótar þessu, sem ég vil skjóta til hv. menntmn., að hlutverk þessa leiklistarráðs ætti einnig að vera að reyna að koma íslenskum verkum, leikverkum á framfæri erlendis. Það ætti einnig að vera hlutverk þess. Hingað til hafa höfundar orðið að hafa fyrir þessu algjörlega sjálfir. En þar sem þetta hefur tekist, þá hefur það gefið mjög góða raun, svo sem ég nefni t.d. um leikverk Jónasar Árnasonar.

Ég sem sagt legg aðaláherslu á það, að með þessu frv. er stefnt í þá átt að aukið verði samstarf áhuga- og atvinnuleikara og þeirra stofnana og félaga sem að þessum málum vinna. Ég legg alveg sérstaka áherslu á liðsinni Þjóðleikhússins við þessa ágætu starfsemi og veit það, að ef hvatning kemur að ofan og jafnvel bein fyrirmæli, þá verður jákvæð hreyfing hér báðum til góðs. Ég vil sem sagt þakka hæstv. ráðh. fyrir frv. og vona að það eigi greiðan framgang hér í d. og verði helst að lögum nú á þessu þingi.