05.04.1976
Efri deild: 84. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2965 í B-deild Alþingistíðinda. (2439)

223. mál, Norræni fjárfestingarbankinn

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í aths. við lagafrv. þetta var samningur Norðurlanda um stofnun Norræna fjárfestingarbankans undirritaður í Kaupmannahöfn hinn 4. des. s.l. Samningurinn hefur nú verið lagður fram á öllum þjóðþingunum til fullgildingar. Norska Stórþingið hefur þegar veitt fullgildingarheimild og á öðrum þingum Norðurlanda er talið að málið hljóti endanlega afgreiðslu einmitt um þessar mundir.

Á aukaþingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í nóv. 1975 var samþykkt með miklum meiri hl. að mæla með stofnun bankans og greiddu allir fulltrúar Íslands því atkvæði. Hér á landi virðist því almenn samstaða um þetta mál, enda bendir flest til þess að starfsemi bankans verði íslendingum sérstaklega til hagsbóta, auk þess gildis sem hann mun hafa til þess að efla efnahags- og stjórnmálasamvinnu norrænna þjóða.

Eins og kunnugt er, er hugmyndin um stofnun norræns fjárfestingarbanka ekki ný af nálinni. Hún hefur verið til umr. annað veifið í meira en tvo áratugi, allt frá því samningar um norrænt tollabandalag hófust. Af Íslands hálfu hefur ætíð verið áhugi á stofnun slíks banka, en það er fyrst nú að hugmyndin er að verða að verur leika. Þetta framfaraspor í norrænni samvinnu á sér ákveðnar forsendur í efnahagslegu og stjórnmálalegu umhverfi Norðurlanda um þessar mundir.

Í fyrsta lagi er nú um öll Norðurlönd þörf fyrir mikið fé til framkvæmda til þess að auka framleiðslu og útflutning, ekki síst vegna ríkjandi aðstæðna í orkumálum. Er því afar mikilvægt að tryggja sem hagkvæmasta fjáröflun til þessara framkvæmda.

Í öðru lagi er um þessar mundir sterkur pólitískur vilji til þess að hrinda hugmyndinni um stofnun samnorræns fjárfestingarbanka í framkvæmd. Á fundi forsrh. Norðurlanda, er ég sótti í Osló fyrir rúmu ári, var tekin stefnuákvörðun í málinu. Ríkisstjórnir Norðurlanda hafa þannig haft frumkvæði að endurupptöku málsins nú.

Í þriðja lagi verður norrænn fjárfestingarbanki mikilvægur hlekkur í norrænu efnahagssamstarfi og hefur gildi sem tákn um öfluga og raunhæfa norræna samstöðu.

Í fjórða lagi mun lánastofnun, sem er sameign Norðurlandanna fimm og með jafnmikið stofufé og hér um ræðir, hafa sérstaklega gott lánstraust á alþjóðalánamarkaði og felur beinlínís í sér hreina viðbót við samanlagða lántökumöguleika landanna fimm og mun án efa gefa kost á hagstæðari lánskjörum en ella. Forsenda lánhæfis á alþjóðamarkaði er vitaskuld að lánastarfsemi bankans verði rekin með eðlilegum vaxtakjörum og lánsféð skili hæfilegri ávöxtun.

Þessar forsendur sýna glöggt rökin fyrir stofnun bankans. Samnorrænt framtak á einmitt að skila ríkulegri árangri en næst þegar hvert land leitar lausnar eitt á bát fyrir sig. Þetta mun ekki síst hafa gildi fyrir íslendinga, einkum þegar þess er gætt að á fundi ráðherranefndar Norðurlanda í Stokkhólmi 19. júní 1975 urðu menn sammála um svo hljóðandi bókun um sérstöðu íslands:

„Ráðherranefndin gerir enn fremur ráð fyrir því, að tillit verði tekið til sérstöðu Íslands vegna einhliða atvinnulífs og fjármagnsskorts.“

Við meðferð málsins á vettvangi Norðurlandaráðs fékk sérstaða Íslands almenna viðurkenningu. Það er því full ástæða til að binda vonir við að starfsemi bankans geti átt mikilvægu hlutverki að gegna í íslensku atvinnulífi og muni stuðla að efnahagsframförum hér á landi. Ég tel fullvíst að norræn lánastofnun, sem einbeiti sér að samnorrænum framkvæmdum og fyrirtækjum, sé til þess fallin að hvetja til samnorræns framtaks. Þegar bankanum hefur verið komið á fót mun hann vekja upp hugmyndir og framtak sem annars hefðu ekki komið til framkvæmda vegna fjármagnsskorts. Með þessum hætti verður norræni fjármagnsmarkaðurinn aukinn og efldur og þar með hagvöxtur á Norðurlöndum.

Ég tel fyrir mitt leyti að stofnun bankans geti boðið möguleika til hagkvæmari fjármögnunar en annars væri kostur til þróunar orkufreks iðnaðar á Íslandi í samvinnu við norræn fyrirtæki. Bankinn gæti einnig átt hlutverki að gegna á öðrum sviðum framkvæmda hér á landi. Íslendingar hljóta því að telja stofnun bankans mjög tímabæra.

Ég mun nú fara nokkrum orðum um stofnfé bankans, stjórn hans og staðsetningu, en vísa að öðru leyti til sjálfs stofnsamningsins og samþykkta bankans, sem eru fylgiskjöl með frv., og aths. sem því fylgja.

Samkvæmt 2. gr. Samþykkta fyrir Norræna fjárfestingarbankann skal stofnfé hans vera 400 miljónir sérstakra dráttarréttinda (SDA) eða rúmlega 80 milljarðar ísl. kr. á núgildandi gengi. Sérstök dráttarréttindi skulu skilgreind í samræmi við þá skráningu sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ákvað frá 1. júlí 1974.

Af stofnfé bankans er hluti danska ríkisins 88 millj., finnska ríkisins 64 millj., íslenska ríkisins 4 millj., norska ríkisins 64 millj. og sænska ríkisins 180 millj. sérstakra dráttarréttinda. Samkvæmt þessu verður hlutur Íslands í stofnfénu um 800 millj. kr. miðað við núverandi gengi, en hver samningsaðila leggur fram 1/4 hluta stofnfjárframlags síns til bankans með þrem jöfnum greiðslum 2. 14 og 26 mánuðum eftir gildistöku samþykktanna. Greiðslur fara fram eftir kröfum bankans og yrði greiðsluhluti íslendinga væntanlega um 70 milljónir kr. á þessu ári og síðan sama fjárhæð hvort ár 1977 og 1978.

Gert er ráð fyrir að bankinn afli sér lánsfjár á Norðurlöndum og utan þeirra. Innborgað framlag verður einnig notað til lánveitinga.

Í stjórn bankans sitja tveir menn frá hverju aðildarríki. Aðildarríkin munu skiptast á um formennsku í stjórninni. Bankastjóri ásamt nauðsynlegu starfsliði mun sjá um daglegan rekstur.

Aðsetur bankans verður í Helsingfors, en þar er engin samnorræn stofnun fyrir.

Nú er að störfum sérstök nefnd sem vinnur að undirbúningi stofnsetningar og upphafs starfsemi bankans. Gert er ráð fyrir að n. þessi skili till. sínum til ráðherranefndar Norðurlanda fyrir 15. maí n.k., en á fundi ráðherranefndarinnar í þeim mánuði er ráðgert að taka endanlegar ákvarðanir um stofnun bankans. Forsenda þessa er að sjálfsögðu að þjóðþingin hafi veitt fullgildingarheimildir.

Herra forseti. Að endingu vil ég mælast til þess að þetta frv. fái skjóta meðferð, enda er ég þess fullviss að það nýtur stuðnings alls þorra þingmanna.

Leyfi ég mér að leggja til að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn. deildarinnar.