06.04.1976
Sameinað þing: 75. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3005 í B-deild Alþingistíðinda. (2486)

188. mál, byggðaþróunaráætlun Norður-Þingeyjarsýslu

Fyrirspyrjandi (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans og margt í hans máli. Það kemur hér fram að ríkisstj. hefur ályktað á fundi sínum 31. mars s.l. um þessi efni, en mér sýnist á þeirri ályktun, sem hér liggur fyrir, að tæpast sé um að ræða nokkra staðfestingu á Norður-Þingeyjarsýsluáætluninni, Ég held að það sé mikið vafamál að svo sé, og mér þykir það miður að ályktun ríkisstj. skuli ekki vera ákveðnari að orðalagi en þarna kemur fram. Ég vænti þess að hæstv. ríkisstj. endurskoði afstöðu sína til þessa máls mjög fljótlega.

Ég hlýt að geta þess að norður-þingeyingar hafa að undanförnu, undanfarin ár, frá því að fyrst var farið að ræða um þessa áætlun, bundið mjög miklar vonir við það sem út úr þessari áætlun kæmi, og ég get ekki látið hjá líða að lýsa þeirri skoðun minni að þessi ályktun, sem hér hefur verið birt frá ríkisstj. hlýtur að verða til þess að slæva verulega þær vonir sem norður–þingeyingar hafa gert sér í sambandi við þessa áætlun. Ég vona því að hæstv. ríkisstj. endurskoði afstöðu sína til þessa máls og staðfesti áætlunina berum og ákveðnum orðum.

Ég ræddi hér nokkuð almennt áðan um vandamál Norður-Þingeyjarsýslu og benti á að eitt aðalvandamálið er gamalt. Það er sú langvarandi byggðaröskun, sem við höfum kallað, hin mikla fólksfækkun sem þar hefur orðið, bæði beint og að tölu til. En svo kom líka til. sem ég raunar minntist á og hæstv. forsrh. gerði hér nokkuð að umræðuefni áðan, þau sérstöku vandamál í atvinnulífi Þórshafnar og Raufarhafnar sem nú eru uppi og hafa magnast mjög á síðustu mánuðum og missirum. Það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að við þm. höfum átt viðræður við hann og við hæstv. dómsmrh. um þessi mál alveg sérstaklega, og ég þykist vita að þeim viðræðum sé ekki lokið, enda fer því fjarri að nokkur endanleg niðurstaða hafi fengist af þeim, þ.e. á þeim vandamálum, sem við höfum verið að ræða um við ríkisstj. í þessu sambandi, burt séð frá því hvað verður um staðfestingu á Norður-Þingeyjarsýslu-áætluninni.

Inn í þessi mál hlýtur síðan að blandast það mikla tjón sem varð af náttúruhamförum í janúar og febrúar-mánuði s.l. Það tjón er að vísu ekki fullmetið, en hitt er alveg ljóst, að þarna er um ákaflega mikið tjón að ræða sem leggst á fáa íbúa og fámenn sveitarfélög og þess háttar byggðarlög sem ekki eru sérlega öflug efnahagslega. Það er líka víst að við þm. munum taka þetta mál upp sérstaklega við ríkisstj. og eiga við hana viðræður um það hvernig hægt sé að leysa brýnasta vanda þeirra sem hafa orðið fyrir tjóni af náttúruhamförum. Ég nefni þetta þó að það kunni að vera að einhverju leyti utan víð það efni sem hér er sérstaklega til umr. en þetta er þó eigi að síður hluti af þessu stóra máli.

Ég vil enn á ný þakka hæstv. forsrh. fyrir svör hans, en ég vil líka endurtaka og leggja mikla áherslu á það, að ég tel að ekki felist staðfesting á byggðaþróunaráætluninni í þeirri ályktun sem hæstv. ríkisstj. gerði á fundi sínum 31. mars.