07.04.1976
Sameinað þing: 77. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3072 í B-deild Alþingistíðinda. (2519)

Skýrsla iðnaðarráðherra um Kröfluvirkjun

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Það hefur nú teygst allmikið úr þessum umr., en ég hafði kvatt mér hljóðs, að ég hélt með þeim fyrri á síðasta fundi, en það hefur nú farið svo að menn hafa talað lengi og ég hef ekki komist að með ræðu mína og kannske óvíst hvenær næst verður rætt um þetta mál.

Ég hef enga möguleika á því á þeim stutta tíma, sem hæstv. forseti leyfir mér nú að tala hér, að fara efnislega út í þessi mál. En ég hef beðið eftir því satt að segja að geta komið hér að dálítilli athugasemd við ummæli sem hv. þm. Bragi Sigurjónsson er sagður hafa viðhaft hér á Alþ. s.l. fimmtudag, fyrir um það bil viku, þar sem hann dróttaði því að mér fjarstöddum að ég hefði haft í hótunum við sig ef hann minntist á Kröfluvirkjun. Þessi aðdróttun er auðvitað algjörlega tilhæfulaus. Hitt er rétt, að ég lét í ljós undrun mína og óánægju við hv. þm. út af því að hann skyldi að tilefnislausu krefjast þess að fá orðið utan dagskrár í þeim augljósa tilgangi að auka enn við æsifréttamennsku alþfl. manna í sambandi við jarðgufuaflstöðina í Hlíðardal. Hv. þm. hafði krafist þess að fá orðið utan dagskrár um þetta mikilvæga orkumál án þess að orkumrh. væri um það kunnugt, og er það út af fyrir sig fáheyrt, hvað þá að aðrir, sem kunna að láta sig þetta varða, fengju að vita um fyrirætlan hans. Þetta þótti mér og þykir enn óþinglegt. Ég tók því svo til orða við hv. þm., að hann mundi ekki hafa betra af slíkri málsmeðferð, og átti að sjálfsögðu við það að hann yxi ekki í áliti hjá neinum með slíkri framkomu. En engin hótun fólst í þessum orðum mínum og er það mistúlkun eða misskilningur hv. þm, ef hann heldur slíku fram. Þannig stóð á fyrir mér þennan dag að ég hafði leyfi forseta til að vera fjarstaddur fund í Sþ. og var að búa mig undir að notfæra mér þetta leyfi þegar mér barst vitneskja um að hv. þm. Bragi Sigurjónsson hefði kvatt sér hljóðs utan dagskrár. Ég hafði ekki möguleika til þess að breyta áætlun minni um fjarvist. Ég var því ekki viðstaddur þegar hv. þm. flutti ræðu sína. Ég nota því þetta tækifæri til þess að mótmæla aðdróttun hans og vona að hann geri sig ekki sekan um að vera að drótta að fjarstöddum mönnum allalvarlegum ásökunum sem hann þykist hafa úr einkasamtali.