07.04.1976
Efri deild: 87. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3117 í B-deild Alþingistíðinda. (2557)

113. mál, álbræðsla við Straumsvík

Axel Jónsson:

Herra forseti. Ég vil strax í upphafi lýsa yfir stuðningi mínum við meginefni þessa máls, en eingöngu gera að umtalsefni það sem síðasti ræðumaður, hv. 11. landsk., vek að í lok sinnar ræðu, þ.e. hina ítarlegu grg. frá bæjarstjórn Hafnarfjarðar varðandi þetta mál. Ég tek undir allt það, sem hann sagði varðandi það mál, og umfram það legg ég til, herra forseti, að þessari 2. umr. verði frestað þar til fyrir liggur, eins og óskað er eftir í bréfi frá bæjarstjórn Hafnarfjarðar, að gengið hafi verið frá samningi við Hafnarfjarðarbæ varðandi þetta efni. Ég tel það algjörlega óhæf vinnubrögð að ekki skuli vera búið að ganga frá jafnþýðingarmiklu atriði og hér um ræðir varðandi samning annars vegar milli ríkisins og hins vegar milli bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, og enginn sveitarstjórnarmaður getur sætt sig við slík vinnubrögð. Þess vegna vænti ég þess, herra forseti, að sú ósk mín verði tekin til greina að 2. umr. ljúki ekki fyrr en við óskum bæjarstjórnar Hafnarfjarðar hefur verið orðið, í þá átt að gengið verði frá nýjum samningi víð Hafnarfjarðarbæ að því er tekur til þeirra þátta sem hv. 11. landsk. vísaði hér til.