07.04.1976
Neðri deild: 88. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3125 í B-deild Alþingistíðinda. (2565)

212. mál, upptaka ólöglegs sjávarafla

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Menn geta auðvitað haft hver sina skoðun á þessu, eins og hv. 2. þm. Austurl., og að vissu leyti er margt í hans málflutningi sem er vert að skoða. Hins vegar hleypur hann yfir það sem ég lagði á allmikla áherslu þegar ég mælti áðan fyrir þessu frv., en það er að brot af þessu tagi þurfa ekki að vera saknæm þannig að það sé nauðsynlegt og í öllum tilfellum áhugavert fyrir nokkurn að kæra þau brot til sakadóms. Til dæmis má taka umframafla, lítilfjörlegan umframafla, en til þess að menn hafi aðhald að fara eftir aflakvótum og settum reglum, þá er nauðsynlegt að umframafli sé alltaf skilyrðislaust gerður upptækur. Og það er það, sem ég á við með þessu, að það verði svo margar kærur, sem koma til dómstólanna, að það verði svo löng bið á öllu slíku, — kærur, sem ella þyrftu ekki til þeirra að koma.

Við skulum nefna sem dæmi til þess að skýra sjónarmið beggja að í sambandi við veiðileyfi til skelfiskveiða eru ströng ákvæði bæði um stærð, aflamörk, hvað mikill vikuskammtur má vera og þess háttar. Þarna eru oft og tíðum bátar sviptir leyfi einn, tvo, þrjá, fjóra, fimm, sex og sjö daga. Þessar leyfissviptingar hafa gengið fyrir sig á mjög friðsamlegan hátt. Það hefur hver og einn viðurkennt sitt brot og leyfi er tekið af þennan tiltekna tíma af trúnaðarmanni, og þessir menn hafa ekkert verið kærðir til dómstóla eða fengið dóm, sem ég tel ekki ástæðu til. Hitt er svo annað mál: Eigum við að halda áfram á þeirri braut að þeir, sem brjóta, fái að halda þeim afla sem þeir taka í óleyfi? Það tel ég óeðlilegt, og þetta frv. gerir ráð fyrir að það sé tekið upp.

Þá komum við aftur að hinu: Eigum við, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, skilyrðislaust að kæra alla þess menn til sakadóms ? Það er mikill fjöldi af þessum brotum, og það er eiginlega skýringin á því að þetta ákvæði er tekið upp. Hitt getur svo aftur, eins og hann gat réttilega um, alltaf valdið deilum, t.d. um hina stærri farma. Þar segir að rn. byggi ákvarðanir sínar skv. þessari grein á upplýsingum sérstakra eftirlitsmanna þess, starfsmanna Framleiðslueftirlits sjávarafurða, og öðrum tiltækum sönnunargögnum. Rn. kemur alltaf til með að verða að fara mjög vandlega í slíkar ákvarðanir, því að sá sem verður fyrir því, að hann er beittur þessum ákvörðunum, á fyllsta rétt á að vísa málinu til dómstóla, og þar verður rn. auðvitað að svara til saka jafnt og sá sem sakfelldur er.

M.ö.o.: hér er um urmul af brotum að ræða, sem að yfirgnæfandi meiri hl. eru þess eðlis að það er engin ástæða til þess að kæra til sakadóms, og þar skilur á milli. Ég bið n., sem fær þetta mál til athugunar, að hugleiða hvor aðferðin er skynsamlegri. Báðar þessar aðferðir eiga rétt á sér. En eigum við að taka upp mjög strangt ákvæði. Ef við erum sammála um að beita skilyrðislaust upptöku ólöglegs afla, eigum við þá að vera það strangir að gera það að kröfu og skilyrði að kæra hvern einasta mann til sakadóms.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. að það er ekkert skemmtilegt, hvorki fyrir eitt né annað rn.. að hafa slíkt í höndum, en í þessum efnum er sjútvrn. með sína eftirlitsmenn og sína deild sem fjallar um þessi mál, og það er það sem vakti fyrir okkur, að það væri eðlilegt að það væri undir þeirri stjórn. Ég held að dómsmrn. hafi það mikið á sinni könnu, meðferðir dómsmála taki það langan tíma, að við eigum ekki með þessu frv. að ýta undir það að stórfjölga dómsmálum. Það er það sem ég tel höfuðkostinn við þetta frv. — Þetta vildi ég að kæmi hér fram.