08.04.1976
Neðri deild: 89. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3166 í B-deild Alþingistíðinda. (2620)

157. mál, aðild Íslands að samningi um aðstoðarsjóð Efnahags- og framfarastofnunarinnar

Frsm. (Lárus Jónsson):

Virðulegi forseti. Fjh.og viðskn. hefur haft til meðferðar frv. til l. um aðild Íslands að samningi um stofnun aðstoðarsjóðs á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, á þskj. 338. Málið er komið frá Ed., en þar var það afgr. shlj. og óbreytt.

Árið 1974 ákvað Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að veita aðildarríkjum sérstök lán vegna gjaldeyriserfiðleika sem stöfuðu af hækkun olíuverðs. Ísland hefur fengið lán úr sjóðnum að upphæð 4 milljarðar 852 millj. kr. með gengi í júlí á s.l. ári.

Eftir till. svokallaðs 10 landa hóps, þ.e.a.s. 10 auðugra iðnríkja, var ákveðið að setja á stofn innan OECD-landanna sérstakan sjóð til fjárhagslegs stuðnings á milli aðildarlandanna vegna verðhækkana á olíu. Uppkast að samningi var samþ. af OECD-ráðinu 7. apríl á fyrra ári og var hann undirritaður af öllum aðildarríkjunum nema Tyrklandi 9. apríl með fyrirvara um fullgildingu.

Rökstuðningur fyrir stofnun þessa sjóðs er að olíuverðshækkunin hafi ekki mjög alvarlegar afleiðingar fyrir öll OECD-löndin sem heild, en hún geti komið harkalega niður á einstökum ríkjum, svo sem Íslandi. Uppbygging sjóðsins, sem er 25 milljarðar dollara, er miðuð við að skipta byrðum eftir getu hvers aðildarríkis. Kvótar eru byggðir á brúttó-þjóðarframleiðslu og utanríkisviðskiptum hvers aðildarríkis. Hluti Íslands í sjóðnum er 0.1% eða nálægt 4.2 milljörðum kr. á núverandi gengi, og er það sú upphæð, sem íslendingar bæru ábyrgð á og gætu fengið að láni úr sjóðnum.

Efni þessa frv. er sem sagt að heimila ríkisstj. að fullgilda þennan samning um stofnun þessa sjóðs. Fjh.- og viðskn. leggur einróma til, að frv. verði samþ., sbr. nál. á þskj. 508. Fjarverandi afgreiðslu málsins var hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason.