08.04.1976
Neðri deild: 89. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3178 í B-deild Alþingistíðinda. (2644)

231. mál, eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Virðulegi forseti. Þetta frv. er einnig flutt vegna þess samkomulags sem ríkisstj. gerði við aðila vinnumarkaðarins um lausn hinnar almennu kjaradeilu. Fylgir framsöguræðu minni sami formáli og varðandi hin tvö málin sem hér hafa verið til umr. í dag, að ég vitna til grg. heilbr.- og trmrh. við 1. umr. málsins í Ed.:

„Það, sem hér er um að ræða, er að Alþýðusamband Íslands, Vinnuveitendasamband Íslands og Vinnumálasamband samvinnufélaganna hafa komið sér saman um að lífeyrissjóðir á samningssviði þessara samtaka ásamt nokkrum öðrum lífeyrissjóðum taki að sér að veita lífeyrisþegum sínum, sem rétt eiga samkv. l. nr. 63/1971, um eftirlaun til aldraðra í stéttarfélögunum, sérstaka uppbót árin 1976 og 1977, þannig að lífeyrisgreiðslur þeirra verði betur verðtryggðar en hingað til hefur verið. Forsenda þessa samkomulags er sú breyting á lögum um eftirlaun til aldraðra í stéttarfélögum sem hér er lögð fram.

Auk fyrrgreindrar uppbótar, sem lífeyrissjóðunum sjálfum er ætlað að standa straum af samkv. sérstökum reglum, er í samkomulaginu gert ráð fyrir að öldruðum félögum stéttarfélaga, sem verða öryrkjar, verði tryggður lífeyrisréttur að uppfylltum tilteknum skilyrðum svipuðum þeim er gilda um elli- og makalífeyri, en hingað til hafa lögin einungis tekið til þessara tveggja bótategunda.

Útgjöld samkv. núgildandi lögum eru áætluð 208 millj. kr. þetta ár og ber Atvinnuleysistryggingasjóður 3/4 útgjaldanna, en ríkissjóður 1/4. Með samþykkt þessa frv. mundu útgjöld þessara aðila vaxa lítillega vegna hinna nýju ákvæða um örorkulífeyri, og sennilega hafa breytingarnar einnig í för með sér að menn leita réttar síns fyrr en áður og nýjar umsóknir geta borist frá mönnum sem ekki hafa haft fulla vitneskju um rétt sinn, eins og oft vill verða. Áætlað hefur verið að útgjöld til uppbótargreiðslna, sem lífeyrissjóðunum er ætlað að bera samkv. þessu frv., geti numið 250 millj. kr. á þessu ári.“

Um greinar frv. er vitnað til frv. sjálfs og aths. eins og þær eru prentaðar í frv. Í 1. og 2. gr. eru ákvæði um þá réttindabót sem þegar hefur verið minnst á, en í 3. gr. frv. er gerð grein fyrir því á hvern hátt greiðslum skuli skipt á milli lífeyrissjóða, og er þar vitnað til þess samkomulags sem gert var á milli aðila vinnumarkaðarins.

Hér er þannig um að ræða þátt í samkomulagi um lausn kjaradeilunnar í febr., og er lagt til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.