26.04.1976
Efri deild: 90. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3242 í B-deild Alþingistíðinda. (2666)

198. mál, Búnaðarbanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Þegar umr. um þetta málefni, frv. til laga um Búnaðarbanka Íslands, var frestað fyrir hálfum mánuði, þá þótti mér ég þurfa að gera nokkrar athugasemdir við mál nokkurra hv. þm. sem hér höfðu tekið þátt í umr. Þegar liðin er páskahelgin og páskafríið, þá sýnist mér að þær athugasemdir séu ekki jafnstórvægilegar og mér fannst þurfa að gera þegar umr. fóru fram, en þó eru hér einstök atriði sem mig laugar að koma lítillega að.

Hv. þm. Bragi Sigurjónsson hafði orð á því, að það væri eðlilegt að ríkisbankarnir störfuðu eftir sömu reglum allir, og taldi að því leyti eðlilegt að lög um Búnaðarbanka Íslands væru samræmd lögum hinna bankanna. Þetta er að sjálfsögðu það sem er meginmál. að hér er verið að færa lög um Búnaðarbanka Íslands til samræmis við starfsemi og reglur annarra ríkisbanka. Virðist vera á því full þörf því að eldri lög um Búnaðarbankann eru frá árinu 1941, en um hina ríkisbankana gilda lög frá 1962. Það er því ekki undarlegt þó að hér sé nokkurt misræmi á. Ég hygg að með þessum lögum náist það samræmi sem ætlast er til, og því vildi landbn. hv. d. mæla með því að frv. yrði samþ.

Það er einnig vert að geta þess, sem kom fram í ræðu minni þegar ég mælti fyrir nál. landbn., að það er ekki talin þörf á að setja inn í lögin um Búnaðarbankann ákvæði um gjaldeyrisverslun eða verslun með erlendan gjaldeyri, þar sem þeim ákvæðum í lögum hefur verið breytt á þann veg, að í lögum um Seðlabanka Íslands er gert ráð fyrir ákveðnum leiðum um skipan þeirra mála, og er það gert eftir till. Seðlabankans. En áður en þau ákvæði um gjaldeyrisverslun voru sett í gildi voru sérstök lög um þetta og sérstök ákvæði í lögum hinna ríkisbankanna vegna þess að þau eru eldri en lög um Seðlabanka Íslands.

Sumir þeirra manna sem hér töluðu, m.a. hv. þm. Bragi Sigurjónsson, höfðu orð á því að bankakerfið íslenska væri útblásið og margþætt og þetta mundi leiða til þess að sú þróun héldi áfram. Þetta er að sjálfsögðu matsatriði, hvað menn telja um það að bankakerfið sé útblásið og margþætt. Ég verð að segja það, að mér sýnist að almenningi virðist vera full þörf á allri þeirri bankastarfsemi sem hér er fyrir hendi í landinu, og ég álít að það sé ekki nema eðlilegt að geta dreift bönkum og peningaafgreiðslum sem víðast um landið til þess að létta undir hjá fólki að hagnýta sér þá þjónustu sem bankakerfið veitir. Það er ánægjulegt að vita til þess hins vegar, að bankarnir hafa með sér samvinnu um vissa þætti starfseminnar sem trúlega mun verða til þess að draga úr þeim kostnaði sem þeir hafa. Og ég hef miklu meiri trú á því að ganga lengra í því efni heldur en endilega að leggja niður eða fella saman banka sem fyrir eru, því að fyrir mér hefur ekki verið sannað að það mundi draga úr kostnaði við bankastarfsemina í landinu. Ég er þeirrar skoðunar, að svo lengi sem í landinu er framkvæmdahugur eitthvað í svipuðum mæli og nú er og ég tala nú ekki um ef hann fer vaxandi, þá sé full þörf fyrir þá bankastarfsemi, sem fyrir er í landinu, og að hún muni ekki dragast saman á næstu tímum.