27.04.1976
Sameinað þing: 80. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3254 í B-deild Alþingistíðinda. (2690)

246. mál, lánamál landbúnaðarins

Fyrirspyrjandi (Ólafur B. Óskarsson):

Herra forseti. Ég þakka landbrh. svör hans við fsp. mínum. Það kom fram í svari hans við 2. lið fsp., um hvaða flokkar yrðu látnir sitja á hakanum, að það væri notuð sama regla og verið hefði, að þeir gangi fyrir sem eigi lánsumsóknir frá fyrri árum. Þetta er sjálfsagt að ýmsu leyti eðlileg ástæða. En ég vil benda á að það gæti verið eðlilegra að flokka framkvæmdir eitthvað niður með tilliti til skipulags á framleiðslu. Ég álít að það verði á einhvern hátt að reyna að hafa stjórn á framleiðslu, þannig að þar hallist ekki verulega á annan hvorn veginn, t.d. með sauðfjárframleiðslu annars vegar og mjólkurafurða hins vegar, og það verði best gert með lánveitingum. Þróunin hefur stefnt nokkuð, að mér finnst, einhliða í það nú síðustu árin að menn hafa söðlað um frá mjólkurframleiðslu og yfir í sauðfjárbúskap og geti þetta stefnt í óefni áður en langt um líður ef svo heldur fram. Því gæti verið eðlilegra, a.m.k. á vissum svæðum, að beina lánastarfsemi og hvetja til fjósbygginga frekar og hvetja þannig til aukinnar mjólkurframleiðslu þar sem það þykir henta. Mér er kunnugt um dæmi þess úr minni sýslu fyrir tveim árum, má ég segja, að á góðri jörð til búskapar nálægt mjólkursamlagi sóttu ungir menn um lán til bygginga á stórri fjósbyggingu til mjólkurframleiðslu, en fengu ekki, en árið eftir fengu þeir hins vegar leyfi til að byggja fjárhús, væn og stór, á sömu jörðinni, og þótti mönnum þetta ekki sérstaklega góð latína þar.

Aftur á móti kom ráðh. að því, að nú væri líklega búið að taka ákvarðanir um lánveitingar, og spurðist ég fyrir um þetta líka í morgun í Stofnlánadeildinni. Þar er rétt með farið, en þetta lá ekki fyrir fyrir páskana þegar ég lagði þessa fyrirspurn fram. Og þá kom það í ljós að bónda einum hafði verið nú annað árið í röð synjað um lánveitingu til fjósbyggingar, og kemur þar enn að því að þarna sé um dálítið óæskileg vinnubrögð að ræða e.t.v.

Varðandi 3. lið fsp., þá kom það nú fram að ekkert hefði verið nýtt gert í þeim málum, sem kannske er eðlilegt miðað við núverandi ástand í efnahagsmálum. En ég vil aðeins leggja áherslu á þörf landbúnaðarins fyrir langtímalán, vegna þess að þetta er í eðli sínu hægfara atvinnuvegur, en tiltölulega öruggur þegar búið er að koma honum í gang. Þess vegna er þörf hans fyrir lánsfé til nokkuð langs tíma sérstaklega mikil.

Ég held ég orðlengi ekki frekar þessa fyrirspurn. Ég þakka hæstv. landbrh. svör hans og þakka fyrir.