27.04.1976
Sameinað þing: 80. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3258 í B-deild Alþingistíðinda. (2696)

246. mál, lánamál landbúnaðarins

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég fagna að sjálfsögðu mjög þeim upplýsingum hæstv. landbrh. og hv. 2. þm. Norðurl.v., að þetta þak hefur nú verið sett á lánin. Ég tel að það hefði þurft að koma fyrr, en ég er feginn að það er komið. Það má alltaf deila um það hvar þetta þak eigi að vera, hvort það eigi að vera nákvæmlega á þessa bústærð eða einhverja aðra, e.t.v. ofurlítið stærri. Um það má deila. En það hefur komið í ljós að hagkvæmni búa fer minnkandi þegar komið er upp yfir vissa bústærð, og ég held að það sé eðlilegast að miða þetta við eðlilegt vinnuframlag heimafólks á hverjum stað fremur en treysta um of á aðkeypt vinnuafl og verksmiðjurekstur eða stórrekstur í búskapnum. Ég hygg að það sé nú reynsla manna að þeir séu yfirleitt sælli og glaðari ef þeir slíta sér ekki allt of mikið út á þrældómi sem þeir hafa svo kannske sáralítið fyrir.

Hvað viðkemur lánveitingum til íbúðarhúsa í sveitum frá Stofnlánadeildinni, þá er rétt að vekja athygli á því að þau mættu gjarnan vera ofurlítið hærri að tiltölu heldur en húsnæðismálastjórnarlánin, vegna þess að Stofnlánadeildin gerir allt aðrar kröfur og miklu strangari heldur er Húsnæðismálastofnun um frágang á íbúðum til lokalántöku.

Það var alveg rétt hjá Tómasi Árnasyni, hv. 4. þm. Austurl., að það þarf að huga vel að endurbótum á fjáröflunarkerfi landbúnaðarins. En ég tel að ein af þeim endurbótum ætti að vera miklu meira framlag Byggðasjóðs til þeirra verkefna.