28.04.1976
Efri deild: 91. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3320 í B-deild Alþingistíðinda. (2748)

244. mál, sala þriggja landareigna í Suður-Þingeyjarsýslu

Flm. (Ingi Tryggvason):

Herra forseti. Frv. það, sem við hv. þm. Norðurl. e., Jón G. Sólnes og Stefán Jónsson ásamt mér, höfum leyft okkur að flytja, er á þá leið að ríkisstj. sé heimilað að selja Hálshreppi í Suður-Þingeyjarsýslu eyðijarðirnar Eyvindará og Heiðarhús á Flateyjardalsheiði og afréttarlandið Bleiksmýrardal vestri sem er suður af Fnjóskadal. Eyðijarðirnar á Flateyjardalsheiði og afréttarlandið á Bleiksmýrardal hefur verið afréttarland fnjóskdæla nú um nokkurt skeið og eyðijarðirnar hafa ekki verið í byggð síðan fyrir aldamót, Áður fyrr áttu sveitir inn við Eyjafjörð ítök í þessum löndum, en nú um nokkurt skeið hafa þau fyrst og fremst verið nytjuð af íbúum Hálsarepps, þótt að vísu hafi líka komið til nokkrar nytjar bæði úr Grýtubakkahreppi og Öngulsstaðahreppi. Ekki er þó hugmyndin með þessari ósk hreppsnefndar Hálshrepps að loka fyrir þau afnot sem íbúar annarra sveitarfélaga hafa haft af þessum afréttarlöndum undanfarið, heldur telja þeir að með því að eignast fullan umráðarétt yfir þessu landi geti þeir haft betri stjórn á því hversu margt fé gengur í þessum löndum á sumrin, en afréttarlönd þarna eru nokkuð fullsetin.

Fnjóskadalur er, eins og öllum er kunnugt, fremur strjábýl sveit sem hefur byggt afkomu sína að mjög miklu leyti á sauðfjárrækt. Veldur þar nokkru að samgöngur til Akureyrar, en þangað flytja fnjóskdælingar mjólk sína, eru erfiðar á vetrum. Nú stendur fyrir dyrum að tankvæða, eins og kallað er, Fnjóskadalinn, og þá er gert ráð fyrir að nokkrir bændur, sem hafa haft tiltölulega fáar kýr að undanförnu, leggi þann búskap niður og snúi sér að sauðfjárræktinni. Aukinni sauðfjárrækt fylgir aukin nauðsyn þess að hafa glöggari gætur á því að afréttarlöndin séu ekki ofnytjuð.

Eins og fyrr segir er þetta frv. flutt að ósk hreppsnefndar Hálshrepps. Hefur verið leitað munnlegrar umsagnar landbrn. um viðhorf þess til slíkrar landsölu sem hér er gert ráð fyrir, og virðist hún vera jákvæð.

Ég ætla ekki að orðlengja frekar um þetta mál, herra forseti, en vil að lokum leyfa mér að vænta þess að frv. verði vísað til hv. landbn. að lokinni þessari umr.