29.04.1976
Neðri deild: 92. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3369 í B-deild Alþingistíðinda. (2803)

254. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Þetta frv. til l. um Fiskveiðasjóð Íslands er samið af n. sem ég skipaði snemma árs 1975, eða nánar tiltekið 28. febr. 1975, til þess að endurskoða lög um Fiskveiðasjóð sem eru frá árinu 1966. Í þessa n. voru skipaðir: Davíð Ólafsson samkv. tilnefningu Seðlabanka Íslands, og var hann jafnframt formaður n., Eyjólfur Ísfeld Eyjólfsson samkv. tilnefningu Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, Sjávarafurðadeildar SÍS og Sölusambands ísl. fiskframleiðenda, Kristján Ragnarsson samkv. tilnefningu Landssambands ísl. útvegsmanna, Einar B. Ingvarsson aðstoðarmaður sjútvrh. og Jón Skaftason alþm. án tilnefningar.

N. lauk störfum seint á árinu 1975, og með bréfi 5. des. 1975 skilaði hún í frv.-formi till. sínum um breytingar á lögunum frá 1966 ásamt ítarlegri grg. um það breytingafrumvarp. Síðan hefur þetta mál legið í sjútvrn.

Ég taldi rétt, að breytingar þessar, sem n. lagði til að gerðar yrðu á lögunum, væru felldar inn í lögin um Fiskveiðasjóð, og lét útbúa í sjútvrn. heildarfrv. til l. um sjóðinn. Inn í þetta frv. eru teknar allar till. n., sem áður er getið, nema hvað snertir ákvæði fl. gr. frv. um Fiskveiðasjóð. N. gerði till. um að stjórn sjóðsins skyldi vera í höndum 5 manna, eins og er nú. Samkv. núgildandi lögum eiga 5 menn sæti í stjórninni: einn frá Seðlabanka Íslands, tveir frá Landsbanka Íslands og tveir frá Útvegsbanka Íslands, þannig að stjórn Fiskveiðasjóðs er skipuð 5 bankastjórum á hverjum tíma. N., sem hafði þetta mál til athugunar og gerði till. í málinu, lagði til að sú breyting yrði gerð að stjórnin yrði eftir sem áður 5 manna stjórn og það væri einn fulltrúi frá hverjum hinna þriggja áðurnefnda banka, einn fulltrúi tilnefndur af Landssambandi ísl. útvegsmanna og fimmti fulltrúinn tilnefndur sameiginlega af Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Sjávarafurðadeild SÍS og Sambandi ísl. fiskframleiðenda.

Við endurskoðun sjóðakerfisins á s.l. ári, sem náði fram á þetta ár, kom það mjög fram í viðræðum þeirrar n. við mig að hún teldi að hagsmunasamtökin í sjávarútvegi, bæði útvegsmenn, sjómenn og sölusamtökin, ættu að hafa meiri hl. í stjórn Fiskveiðasjóðs. En ég fyrir mitt leyti tel að eitthvað megi nú vera á milli, frá því að hagsmunasamtökin höfðu engan fulltrúa, að þau ættu að fá meiri hl. fulltrúanna, en ríkisvaldið og bankakerfið að vera í minni hl. Ég taldi eftir atvikum og eftir þeim samningum, sem náðust um breytingarnar á sjóðakerfi sjávarútvegsins, eðlilegt að fulltrúar sjómanna fengju aðild að stjórn Fiskveiðasjóðs eins og fulltrúar útvegsins og sölusamtakanna hafa, vegna þess að þeir eru jafnframt aðilar að tekjuöflun fyrir Fiskveiðasjóð. Þess vegna er lagt til að fjölgað verði í stjórninni um tvo og þá verði oddamaðurinn skipaður af sjútvrh., sjöundi maður í stjórn. Jafnframt taldi ég að vel athuguðu máli rétt að stjórnin skipti ekki með sér störfum, þegar þarna væru komin inn í hagsmunasamtökin fulltrúar bankakerfisins. Ef ætti að fara fram atkvgr. í stjórninni um formannskjör, þá gæti farið á þann veg að það skapaðist þegar í upphafi meiri hl. og minni hl. Hins vegar fannst mér óeðlilegt og finnst að sá eini fulltrúi, sem skipaður er af ríkisstj., sé endilega formaður stjórnarinnar, heldur eigi það að vera opið á hverjum tíma, allir hinir 7, sem skipa þessa stjórn, eigi jafnan rétt á því að verða skipaðir formenn. Ég taldi því rétt að taka þetta ákvæði inn, og þetta er sú eina breyting sem rn. hefur gert á frv. frá því að n. skilaði því í okkar hendur í byrjun des. í vetur.

Ég ætla að fara lítillega yfir þær breytingar sem gerðar eru á Fiskveiðasjóði samkv. þessu frv.

Í 1. gr. er gerð breyting frá gildandi lögum á stöðu Fiskveiðasjóðs gagnvart Útvegsbankanum, en eins og menn rekur sjálfsagt flesta minni til, þá var svo áður en lögin voru sett 1966 að Fiskveiðasjóður var undir stjórn Útvegsbankans og stjórn Fiskveiðasjóðs var þá bankastjórn Útvegsbankans. Það voru mjög náin tengsl å milli þessa sjóðs og Útvegsbankans samkv. þeim lögum. Þau tengsl voru töluvert minnkuð með setningu laganna 1966, en þó voru þau það eftir sem áður í tilteknum atriðum. En síðan hefur margt breyst, og þess vegna er nú lagt til að Fiskveiðasjóður verði enn sjálfstæðari stofnun en áður. Því eru tengsl hans gagnvart Útvegsbankanum nú enn minni en voru í lögunum frá 1966.

Breyting er einnig gerð á 2. gr. laganna, sem felst í því að hlutverk sjóðsins er rýmkað og tekur nú einnig til þess að veita lán út á eldri skip.

Þegar um sölu á eldri skipum er að ræða, þá er það oftast svo að stofnlán, sem á skipunum hvíla, eru orðin lág. Seljendunum er hins vegar mikil nauðsyn að fá greiðslu í reiðufé þar sem fjármögnun nýrra skipa er oftast tengd sölu gamalla skipa, og það er ekki óalgengt að kaupendur eldri skipa séu aðilar sem eru að hefja útgerð, ráða ekki yfir miklu fjármagni til kaupanna og eiga því erfitt með miklar útborganir við kaupin. Hér mundi Fiskveiðasjóður koma inn með lánveitingu til kaupenda slíks skips. Fram hjá því má hins vegar ekki líta, að með slíkum lánveitingum er ekki verið að lána út á raunverulega verðmætisaukningu skipanna, og hætt er við að það leiði til óeðlilegrar hækkunar á verði eldri skipa. Því verður að fara gætilega í sakirnar þegar settar verða reglur um þessar lánveitingar. Á það ber að líta að þetta leiðir óhjákvæmilega til aukinnar fjárþarfar Fiskveiðasjóðs, en geta sjóðsins til að sinna því, sem hingað til hafa verið hans aðalverkefni, er þanin til hins ítrasta.

Á undanförnum tveimur þingum hafa verið flutt frv. um þetta efni, og var frv. því, sem flutt var á síðasta þingi, vísað til ríkisstj., en því var jafnframt lýst yfir að málið skyldi tekið upp í sambandi við endurskoðun laga um Fiskveiðasjóð sem þá var hafin og leitt hefur til samnings þessa frv.

Þá er einnig veitt heimild til stjórnar Fiskveiðasjóðs samkv. þessari grein til að setja upp sérstaka tæknideild við sjóðinn. Þessi sjóðsstjórn er til ráðuneytis um tæknileg atriði í sambandi við lánsumsóknir o.fl. Um allmörg undanfarin ár hefur Fiskveiðasjóður haft samvinnu við Fiskifélag Íslands um slíka þjónustu, og árið 1973 var gerður fastur samningur um það við Fiskifélagið. Sú þjónusta, sem Fiskveiðasjóður hefur þannig fengið, hefur verið mjög gagnleg. Það þykir hins vegar rétt, þegar til framtíðarinnar er litið, að sjóðsstjórnin hafi heimild til þess að skipa þessum málum á annan veg. Þyrfti það þá ekki að útiloka að samvinna geti haldist í vissum tilfellum eins og verið hefur, a.m.k. fyrst um sinn.

4. gr. laganna fjallar um fjáröflun til Fiskveiðasjóðs. Hafa á því orðið nokkrar breytingar frá því að lögin voru sett á árinu 1966. Þær breytingar eru nú felldar eins og aðrar inn í lögin í heild sinni. Liðirnir a og b eru óbreyttir frá því sem er í gildandi lögum, en um e-lið er það að segja, að með l. nr. 55 frá 1973 og l. nr. 99 frá 1975 er gerð sú breyting á 4. gr. laga um Fiskveiðasjóð, að bætt var við stafliðunum e og d og tekjur sjóðsins þar með auknar um 1% af fob.- verði útfluttra sjávarafurða samkv. c-lið og um jafnhátt framlag frá ríkissjóði árlega samkv. d-lið. Með lögum um útflutningsgjald af sjávarafurðum frá 13. febr. á þessu ári var e-liður gr. felldur niður og 1% gjaldið þar með fellt inn í lög um útflutningsgjald. Eftir stendur d-liður um framlag ríkissjóðs. Og þar sem ekki er ætlunin að fella hann niður, þá verður að breyta orðalagi hans, því að eins og áður segir vísar hann til e-liðar um jafnhátt framlag úr ríkissjóði á móti framlagi af útflutningsgjaldi. Samkv. útreikningum Þjóðhagsstofnunarinnar nemur framlag ríkissjóðs í þessu tilfelli 3/4 hlutum tekna Fiskveiðasjóðs samkv. lögum um útflutningsgjald vegna þeirrar kerfisbreytingar sem gerð var við breytinguna á sjóðakerfi sjávarútvegsins.

Hins vegar er aftur lagt til að d- og e-liðir greinarinnar verði teknir óbreyttir úr gildandi lögum. Á sínum tíma, samkv. lögum á árinu 1970, var gerð sú viðbót um fjáröflun til sjóðsins að ríkissjóður skyldi leggja honum til ákveðna upphæð árlega, 35 millj. kr. Það framlaglag hefur ekki breyst neitt síðan vegna þeirra breytinga sem gerðar hafa verið og ég hef nú þegar lýst. En við töldum eðlilegt og rétt að ríkissjóður héldi þessu framlagi áfram þó að það sé ekki ýkjahá upphæð í sambandi við sjóð sem lánar allt upp undir 4000 millj. á ári.

Ákvæðið um stjórn sjóðsins hef ég áður gert að umræðuefni og þar þarf engu við að bæta. En í 7. gr. eru þýðingarmestu ákvæði þeirrar gr. í b- og e-lið um áætlunargerð og útlánaákvarðanir. Reynslan hefur sýnt að það er áriðandi að gera sér sem fastmótaðastar áætlanir um útlán úr sjóðnum. Framkvæmd slíkra áætlana getur að vísu verið ýmsum vandkvæðum háð á verðbólgutímum, en með áætlunargerðinni er áætlað að leggja þær meginlínur sem farið skuli eftir við lánveitingar, svo sem hvaða verkefni skuli sitja fyrir um lánveitingar þegar fjárhagsmöguleikar eru takmarkaðir. Slíkar áætlanir verða að miðast við breytilegar þarfir sjávarútvegsins á hverjum tíma.

Þá er einnig gerð sú breyting á stöðu sjóðsins gagnvart Útvegsbankanum samkv. þessari gr., að í stað þess að nú er kveðið svo á að um laun, kjör og réttarstöðu starfsfólks sjóðsins gildi sömu ákvæði og um starfsmenn Útvegsbankans, þá verði það hlutverk sjóðsstjórnar að taka ákvörðun um það, sbr. d-lið þessarar gr. Þá er einnig veitt heimild til þess að ráða aðstoðarforstjóra sem eðlilegt er miðað við vaxandi starfsemi sjóðsins.

Í sambandi við réttindi starfsfólks Fiskveiðasjóðs vil ég beina þeim tilmælum til þeirrar n., sem fær frv. til athugunar, að hún hugleiði betur en er í frv. um rétt starfsmanna Fiskveiðasjóðs, þannig að hann verði örugglega tryggður, en mér hefur fundist ekki nógu fast að orði kveðið um réttarstöðu starfsmanna Fiskveiðasjóðs svo að það er nauðsynlegt að það verði tekið til rækilegrar athugunar.

Sömuleiðis ef þetta frv. verður að lögum nú á þessu þingi og lögin taka þegar gildi, þá held ég að þurfi einnig í n. að huga að því að þau tengsl, sem nú eru á milli Fiskveiðasjóðs og Útvegsbankans, haldist óbreytt út þetta almanaksár. Því væri nauðsynlegt, ef n. sýndist svo, að bæta við ákvæði til bráðabirgða hvað þetta snertir, því að það er verra að skera á þessi tengsl ýmissa hluta vegna á miðju ári.

8. gr. þessa frv. er nýmæli. Hér er kveðið svo á að forstjóri hafi á hendi alla daglega starfsemi sjóðsins eftir nánari fyrirmælum í reglugerð og samkv. ákvörðun sjóðsstjórnar. Enn fremur verður það hlutverk forstjóra að ráða starfsmenn sjóðsins, og þá þykir eðlilegt að sjóðsstjórnin geti veitt forstjóra tilteknar heimildir til þess að ákveða lánveitingar án þess að hver einstök lánveiting sé samþykkt af stjórninni, t.d. þar sem mjög fastmótaðar reglur gilda um lánveitingar, og ákvæði um þetta yrðu sett í reglugerð og þá jafnframt hverju sinni um upphæð slíkra lána. Þetta á að greiða fyrir framkvæmd, þannig að framkvæmd hinna ýmsu lánaumsókna geti gengið greiðara fyrir sig og þurfi ekki að bera það, sem er eiginlega bundið mjög föstum reglum, undir sjóðsstjórn hverju sinni.

Út af því, sem ég sagði áðan um það nýmæli að lána út á eldri skip. þá er bætt við ákvæði um nánari reglur um slík lán. Hér er kveðið svo á að lán til eldri fiskiskipa megi ekki nema meiru en 1/4 hluta kaupverðs eða matsverðs, þess er lægra reynist, og skulu þá meðtaldar eftirstöðvar af lánum sjóðsins sem fyrir kunna að vera. Þetta ákvæði er í samræmi við það sem var í frv., sem lá fyrir síðasta Alþ. og vísað var til ríkisstj. með tilvísun til þess að lög sjóðsins væru í endurskoðun og ákvæði um þetta efni yrðu væntanlega í þeim breytingum sem lagðar yrðu fyrir þetta þing. Nánari ákvæði um þessi lán, svo sem lánstíma og önnur kjör, verði ákveðin á sama hátt og önnur lánakjör sjóðsins, með ákvörðun sjóðsstjórnar og að höfðu samráði við sjútvrh. og stjórn Seðlabankans.

Í 15. gr. er gerð sú breyting frá núgildandi lögum, að í stað þess að ákveða í lögum hæð lántökugjalds, 1/4%, þá er það sett á vald sjóðsstjórnar að ákveða það eins og önnur lánakjör með þeim takmörkunum sem gilda um aðrar ákvarðanir um lánakjör. Lántökugjaldið er hluti af lánakjörum og því eðlilegt að því sé hægt að breyta á sama hátt og öðrum lánakjörum eftir því sem aðstæður krefjast.

Eins og oft hefur verið bent á, þá þarf Fiskveiðasjóður á sífellt vaxandi lánsfé að halda til þess að fullnægja eftirspurn eftir lánum og verður þá að greiða lántökugjald af þeim lánum eins og almennt tíðkast og því ekki eðlilegt að það eitt sé ákveðið í lögum, en öll önnur lánakjör séu ákvörðuð hverju sinni af stjórn Fiskveiðasjóðs í samráði við sjútvrh.

Á þeim 9 árum, sem liðin eru frá því að lög um Fiskveiðasjóð voru samþ. hér á Alþ., hafa orðið miklar breytingar á starfsemi Fiskveiðasjóðs á þann veg að umsvif hans hafa aukist mjög til að mæta þeim auknu kröfum sem til hans hafa verið gerðar um stofnlán til sjávarútvegsins. Útlán sjóðsins hafa aukist mjög mikið, og sem dæmi má nefna að lán til innlendrar skipasmiði voru á árinu 1967 52:5 millj. kr., en er áætlað að muni nema á s.l. ári 1500 millj. kr. Þau hafa því næstum því 30–faldast á þessum tíma. Lán til innlendu skipasmíðinnar hafa stóraukist á milli áranna 1974 og 1975, en á árinu 1974 námu þessi lán 427.6 millj. kr. og árið á undan, sem var hæsta árið fyrir utan 1975, námu þau 614 millj. kr. Lán vegna kaupa á skipum erlendis frá hafa hækkað stórkostlega frá árinu 1972, en þá voru þau 181.7 millj. kr., en 1973 fóru þau upp í 1109 millj., 1974 upp í 1690 millj. og 1975 í 1225 millj. Sama má segja um lán vegna tækjakaupa og viðgerða eldri fiskiskipa, að þessi lán hafa hækkað verulega þó að þau hafi ekki hækkað neitt í samræmi við nýsmíðalánin, en þau voru áætluð á s.l. ári að mundu nema um 400 millj. kr. eða um tvöföldun frá árinu á undan. Lánin til hraðfrystihúsanna hafa einnig hækkað verulega frá árinu 1972, úr 213 millj. í 600 millj. á árinu 1975, en þau voru skorin mjög verulega niður og það var að mörgu leyti raunalegt að þurfa að skera þau niður fyrir 1 milljarð til þess að halda áfram þeirri hraðfrystihúsaáætlun sem ákveðið var að standa að.

Ef við lítum á heildarútlán Fiskveiðasjóðs, þá voru þau aðeins 342 millj. kr. á árinu 1967, en á s.l. ári voru þau aðeins innan við 4000 millj. kr., eða um það bil 3945 millj. Og þá höfðu þau hækkað frá árinu 1974 um hvorki meira né minna en næstum því 50%.

Sú mikla aukning, sem orðið hefur á starfsemi Fiskveiðasjóðs, gerir það að verkum að það er nauðsynlegt og var nauðsynlegt að endurskoða þessi lög. Ég held að sú n., sem tók þetta verk að sér, hafi unnið það mjög vel. Þær breytingar, sem ég hef gert frá störfum n. í sambandi við stjórn sjóðsins, eru að mínum dómi sanngjarnar og eðlilegar. Ég tel mjög þýðingarmikið, að fulltrúar atvinnuveganna og sjómanna eigi aðild að stjórn sjóðsins ásamt fulltrúum bankakerfisins, og ég tel óeðlilegt að hagsmunasamtökin hafi meiri hluta í stjórn sjóðsins. Alveg eins og ég var mjög uggandi um það, þegar breytingin var gerð 1966, að það væri rétt að fela bankakerfinu alla aðild að stjórn þessa sjóðs, þá held ég að það sé nauðsynlegt og eðlilegt að fulltrúi ríkisvaldsins á hverjum tíma eigi þarna aðild og geti þá, ef í odda skerst, ráðið úrslitum mála.

Ég vil vekja sérstaka athygli á því, að þó að tekjuöflun sé mikil í sambandi við útflutningsgjald af sjávarafurðum, þá er framlag ríkissjóðs mjög mikið, 3/4 á móti því, auk 35 millj. kr. Enn fremur er framlag ríkisins í reynd miklu meira, en það tekur auðvitað á sig þær skyldur að standa að fjárútvegun svo að milljörðum skiptir fyrir Fiskveiðasjóð og svo verður áfram um a.m.k. nokkur ár og svo lengi sem við sjáum, ef sjávarútvegurinn heldur áfram að vera, sem Ég vona, aðallyftistöng í atvinnulífi okkar íslendinga.

Þó að þetta frv. sé seint á ferðinni, þá vænti ég þess að hv. þm. reyni að gera sitt besta til þess að kynna sér þær breytingar, sem gerðar eru á núgildandi lögum, og vilji greiða fyrir framgangi málsins hér í hv. þd., og þó sérstaklega er það komið undir þeirri n., sem fær málið til meðferðar, að hún taki jákvætt á því og reyni að skila áliti sínu sem allra fyrst.

Forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. sjútvn.