29.04.1976
Neðri deild: 92. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3379 í B-deild Alþingistíðinda. (2810)

52. mál, búfjárræktarlög

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Þetta frv. var flutt snemma á þessu þingi af varaþm., hv. þm. Sigurði Björgvinssyni. Landbn. sendi frv. til umsagnar til Búnaðarþings sem mælir með því að það verði samþykkt, en gerðar á því breytingar. Landbn. hefur fjallað um málið á fundum og varð n. sammála um að fara eftir till. Búnaðarþings í þessu efni og leggur fram brtt. sem er á sérstöku þskj., nr. 561, og breytingin er þannig, með leyfi forseta:

„Aftan við 18. gr. l. bætist eftirfarandi mgr.: Búnaðarfélagi Íslands ber að sjá um að hreinrækta íslenska forustuféð. Semja ber við einstaklinga, sauðfjárræktarfélög eða ríkisbú að annast þetta verkefni undir umsjón og eftirliti félagsins. Framlag til þessarar stofnræktar skal vera tvöfalt miðað við aðra stofnrækt sauðfjár. Aðeins einn aðili getur notið framlags í hverjum landsfjórðungi auk Vestfjarða eða mest 5 á landinu öllu. Framlag á stofnrækt forustufjár miðist við minnst 8 ær, skýrslufærðar, og mest 15 hjá hverjum stofnræktaraðila.“

Það er kunnugt, a.m.k. í sveitum landsins, að lengi vel eða meðan a.m.k. var rekið til beitar og rekið á fjall, þá var talið að það væri mjög mikilvægt að hafa forustufé. Það kemur fram í áliti Búnaðarþings, að það telur að það mundi vera mikill skaði að því ef það væri ekki hægt að viðhalda þessum stofni, og sú mun vera ástæðan að Búnaðarþing leggur til að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu sem ég hef nú greint frá.

Ég vil geta þess að hv. þm. Benedikt Gröndal var fjarstaddur við afgreiðslu málsins. En ég ræddi þetta við hann, og ég held að mér sé óhætt að segja að n. í heild sé alveg sammála um að mæla með þessu þó að hann væri ekki við þegar við gengum frá því.