30.04.1976
Sameinað þing: 82. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3426 í B-deild Alþingistíðinda. (2826)

247. mál, heimildir Færeyinga til fiskveiða innan fiskveiðilandhelgi Íslands

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Nokkur tíðindi hafa borist af landhelgismálum undanfarna daga og þau helst af miklum aðgerðum Landhelgisgæslunnar á miðunum fyrir austan land með óvenjulega góðum árangri því að fiskveiðar bresku togaranna hafa verið truflaðar í stórum stíl, enda virðist komið los á aðgerðir breska flotans. Vona ég að það sé að koma betur og betur í ljós að við séum búnir að vinna þann þátt þessa þorskastriðs sem fram getur farið á miðunum sjálfum.

Hins vegar eru fregnir af litlum aðgerðum hæstv. ríkisstj., og á ég þá sérstaklega við framkvæmd á samningunum við vestur-þjóðverja. Hæstv. ríkisstj. fann á sínum tíma upp ákvæðið um að fresta mætti framkvæmd þessara samninga 1. maí ef ekki væri búið að fá Efnahagsbandalagið til þess að láta af tollaþvingunum sínum í okkar garð. Nú hefur það ekki tekist, en þegjandi og hljóðalaust lætur ríkisstj. kyrrt liggja þetta ágæta vopn sem hún smíðaði sér á sínum tíma, eins og það hefði aldrei verið til, en hefur uppi tal um að einhverjar aðgerðir séu í gangi suður í Brüssel eða Bonn eða á báðum stöðum, þó að enginn viti nánar um, hvað það er, og ekki bóli á árangri slíkra aðgerða.

Nú liggja hér fyrir tveir samningar við erlend ríki, og felst í öðrum þeirra að íslendingar láti af hendi allmikið fiskmagn. Það virðist vera orðið harla einkennilegt líf sem við lifum í þessu landi, því að við komumst allbærilega af fyrir gjaldeyri sem við eigum ekki, og við gerum samninga við aðrar þjóðir og gefum þeim fisk sem við eigum ekki heldur. Allt þetta gerir stjórn sem manni virðist tímum saman að ekki sé til og stjórni eftir stefnu sem erfitt er að sjá að sé heldur til.

Þar sem liðið er á dag skal ég láta hjá líða frekari umr. um ástand þessara mála þó að sífellt sé tilefni til slíkra umr., en snúa mér að þeim tveim samningum sem fyrir liggja.

Í fyrsta lagi er samningurinn við færeyinga sem gerir ráð fyrir að þeir fái heimild til að veiða 17 þús. tonn af fiski, en höfðu áður heimild til að veiða 20 þús. tonn og veiddu eitthvað nálægt því s.l. ár eftir upplýsingum hæstv. utanrrh.

Nú er það svo, að þrátt fyrir margra mánaða umr, og athuganir hefur ríkisstj, ekki enn markað neina stefnu eða gert neinar till. til Alþ. um það, hve mikið magn af þorski sé rétt að veiða á þessu ári innan þeirra marka sem vísindamenn telja að stofninn þoli. Við kunnum sjálfsagt öll þessar tölur utan að. Helst mundu vísindamenn vilja að ekki væru tekin nema 230 þús. tonn, en einhverjir hafa látið gott heita að hafa þá tölu 280 þús. Miðað við þá samninga, sem gerðir hafa verið við þjóðverja og belga, og miðað við þær veiðar, sem við vitum að breskir togarar hafa stundað hér, og þann afla, sem þeir hafa fengið, virðist vera augljóst að íslendingar verði sjálfir siðar á þessu ári að draga mjög saman þorskveiðar sínar ef heildarveiðin á að vera innan þeirra marka sem vísindamenn telja nauðsynlegt ef okkur á að takast að bjarga þorskstofninum. Engu að síður hefur engin ákvörðun verið um þetta tekin og það bólar ekkert á henni. Ég veit ekki hvenær á að taka þá ákvörðun. En aðalvertíð er lokið þó að hún hafi ekki verið svo góð að umtalsvert sé. Íslendingar biða eftir því að ríkisstj. hafi forustu um þessi mál og þá að fundin verði niðurstaða um það að hverju þjóðin ætlar að stefna. Eigum við að draga það magn, sem öðrum þjóðum er ætlað, frá 280 þús. eða jafnvel 230 þús. tonnum og takmarka eigin veiðar við það sem eftir er? Ef það er ekki ætlun okkar, höfum við þá í hyggju að fara langt upp fyrir þann kvóta sem vísindamenn telja að óhætt sé að taka af stofninum?

Þetta er einhver örlagaríkasta ákvörðun sem íslenska þjóðin og íslensk stjórnvöld hafa staðið andspænis, — ákvörðun sem varla getur orðið skemmtileg eða þægileg fyrir neinn aðila í þessu landi, en hefur slík áhrif á framtíðarafkomu okkar að hjá henni verður ekki komist. Og því fyrr sem hún er tekin, því betra. Í sambandi við þetta mál hafa komið fram hugmyndir frá ýmsum aðilum að óhjákvæmilegt verði fyrir íslendinga að leggja öllum bátaflotanum vikum eða mánuðum saman, og það er von að fólk, sem byggir afkomu sína beint á bátaflotanum og afurðum hans, bíði óttaslegið eftir því að fá að vita hver niðurstaðan verður.

Þar sem sá samningur, sem þegar hefur verið gerður við Færeyjar og Alþingi á nú að staðfesta, gerir ráð fyrir því að færeyingar fái að taka hér verulegan afla, sem jafnast á við stóra verstöð, finnst okkur Alþfl.- mönnum að það sé með öllu óverjandi að staðfesta slíka aflagjöf á sama tíma sem við getum ekki mannað okkur upp í það að taka ákvarðanir um hvaða örlög ríkisstj. eða Alþ. ætlar okkar eigin þjóð í þessum efnum. Á meðan það er algjörlega óvíst hve mikinn afla er ætlunin að taka, sérstaklega af þorski, og að hvaða leyti þarf að takmarka veiðar íslendinga sjálfra, þá teljum við að ekki sé verjandi að bæta á þær heimildir, sem veittar hafa verið til annarra. Við treystum okkur því ekki til að samþykkja samninginn við færeyinga enda þótt við, eins og væntanlega allir aðrir íslendingar, teljum okkur eiga að sýna færeyingum vináttu og tillitssemi umfram aðrar þjóðir í fiskveiðimálum.

Vandi okkar varðandi aflann í heild er svo mikill að honum verður ekki þokað til hliðar af vináttuástæðum einum. Auk þess má gjarnan minnast þess, að færeyingar eru ekki aðeins háðir fiskveiðum, þeir eru líka háðir dönum sem hafa sniðið þeim svo þröngan stakk í landhelgismálum að við íslendingar getum varla verið hrifnir af.

Þá kem ég að landhelgissamningnum við norðmenn sem ríkisstj. hefur gert og hér er einnig til staðfestingar Alþ. Þessi samningur felur tvímælalaust í sér fulla viðurkenningu á yfirráðum íslendinga yfir 200 mílna fiskveiðilögsögunni. Í gömlu samningunum, sem við gerðum á sínum tíma við norðmenn, var ákvæði, liður nr. 4, sem hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„Samkomulag þetta haggar í engu sjónarmiðum samningsaðila um heimild strandríkis til að ákvarða umtak fiskveiðilögsögu sinnar.“

Ákvæði eins og þetta hafa verið í fleiri samningum, og þetta þýðir að sú þjóð, sem við erum að semja við, er að segja: Við viðurkennum ekki með þessum samningi 200 mílurnar eða 50 mílurnar. Nú hafa norðmenn gengið inn á að fella þetta ákvæði niður, og hvað þýðir það? Þeir fella niður ákvæði sem var í samningum og þýddi að þeir neituðu að viðurkenna útfærslu okkar. Ef þeir fella það niður er ekki hægt að skilja það öðru vísi en svo, að þar með séu öll andmæli af þeirra hálfu og allir fyrirvarar niður fallnir. Að vísu setja þeir annað í staðinn. Þar taka þeir sér eingöngu fyrirvara um línuna milli íslensks lands og norsks lands, þ.e.a.s. milli Íslands og Jan Mayen, en sú lína er, eins og við vitum, enn óráðin og hefur sá fyrirvari því litla þýðingu. Af þessu er augljóst að þessi samningur við norðmenn er formleg staðfesting á viðurkenningu þeirra á 240 mílunum.

Þá felur samningurinn í sér að við íslendingar eigum að ákveða einhliða hversu mikinn fisk norðmenn fái að veiða í lögsögunni. Þetta er nákvæmlega í samræmi við það sem við höfum barist fyrir á Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, að strandríki fái að ákveða sjálft hve mikinn afla það heimilar öðrum þjóðum að veiða í sinni landhelgi. Þetta er atriði sem í sjálfu sér eitt mundi nægja til þess að telja verður samninga þessa viðurkenninga á íslensku útfærslunni.

Af þessu leiðir að íslensk yfirvöld hljóta með ákvörðunarvaldi sínu að tryggja að norðmenn fái aldrei afla sem er meiri en svo að þeir sæti sama samdrætti og íslendingar kunna að þurfa að sæta sjálfir. Þar sem hér er um sáralítið magn að ræða, eins og hæstv. utanrrh. benti á, innan við 1500 tonn á ári og þar af innan við 200 tonn af þorski, þá skiptir aflamagnið engu fyrir okkur, en hins vegar skiptir þessi algera viðurkenning norðmanna okkur miklu máli.

Ég leyfi mér að fullyrða að ef við gætum fengið slíka samninga við breta og þjóðverja mundi það jafngilda fullnaðarsigri íslendinga í landhelgisdeilunum. Þegar þetta er athugað sé ég ekki hvernig nokkur íslendingur getur verið á móti því að staðfesta þennan samning. Þeir, sem ekki vilja staðfesta samninginn, vilja ekki vinna landhelgisdeilurnar. Þeir vilja halda þeim áfram.

Niðurstaða þm. Alþfl. er því sú, að okkur beri málefnislega að samþykkja staðfestingu á samningnum við norðmenn.

Ég gerði hér að umræðuefni ákvæði norska samningsins varðandi viðurkenningu á útfærslu íslendinga, Í gamla færeyska samningnum var ákvæði um að íslenska ríkisstj. mundi því aðeins veita færeyingum umrædd leyfi að lýst verði yfir, að færeysk togskip virði 50 mílna fiskveiðilögsögu íslendinga. Færeyingar munu hafa gert þetta. Meiri viðurkenningu hafa þeir ekki frelsi til að veita landhelgi okkar, hvað sem þeim sjálfum finnst. Það verður að fara í gegnum utanrrn. í hinni háu Kristjánsborg í Kaupmannahöfn. En merkilegt er að þetta ákvæði um að færeyingar veiti okkur þá litlu viðurkenningu, sem þeir geta veitt, er fellt niður. Finnst mér það vera enn ein gild ástæða til þess, að það sé ekki rétt að viðurkenna færeysku samningana.

Ég hef þá gert grein fyrir því hver afstaða Alþfl. verður til þessara tveggja samninga, og þarf ekki að hafa um málið fleiri orð.