04.05.1976
Neðri deild: 96. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3535 í B-deild Alþingistíðinda. (2920)

194. mál, íslensk stafsetning

Gylfi Þ. Gíslason:

Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja umr. um þetta mál á þessum miklu annadögum hins háa Alþ. Ég tel þó rétt að minna á að fyrr á þessu þingi fluttu 6 þm. úr fjórum stærstu stjórnmálaflokkunum, auk mín Sverrir Hermannsson, Þórarinn Þórarinsson, Jónas Árnason, Gunnlaugur Finnsson og Ellert B. Schram, frv. til 1. um íslenska stafsetningu þar sem gert er ráð fyrir því að horfið verði frá þeirri breytingu sem fyrrv. menntmrh. gerði á stafsetningunni með reglugerð fyrir tveimur árum.

Forsaga málsins er sú, að rétt áður en Alþ. lauk störfum á s.l. vori fluttu 5 þm. till. til þál. um löggjöf um íslenska stafsetningu, en þar var ríkisstj. falið að undirbúa löggjöf um það efni, en þangað til slík lög yrðu sett skyldi fylgja þeirri stafsetningu sem í gildi var áður en menntmrn. gaf út auglýsingu um breytta stafsetningu 1973 og 1974. Geri ég ráð fyrir að hæstv. ráðh. hafi flutt það frv., sem hann nú mælti fyrir, í framhaldi af þessari áskorun 5 þm. á s.l. Alþ.

En þáltill. var samþ. í því formi að ríkisstj. var falíð að undirbúa löggjöf um íslenska stafsetningu, en hins vegar samkomulag um að fella niður það ákvæði að þangað til slík lög yrðu sett skyldi fylgja hinni gömlu stafsetningu. Við umr. um till. lýsti menntmrh. því yfir að hann teldi skynsamlegt að sett yrði löggjöf um íslenska stafsetningu. Það hefur hann endurtekið nú í framsöguræðu sinni hér og fagna ég þeirri endurteknu yfirlýsingu hans. En eftir að hann gaf þessa yfirlýsingu undirritaði meiri hl. alþm., eða 33 þm., áskorun á ráðh. í þá átt að hann gerði ráðstafanir til, eins og segir orðrétt í áskoruninni, með leyfi hæstv. forseta, „að stafsetning sú, sem gildi tók 1929, verði notuð við prentun þeirra skólabóka sem nú er verið að undirbúa og nota á næsta vetur.“ Í þessari áskorun kom fram ótvíræður vilji meiri hl. alþm. og er raunar vitað að hann var stærri heldur en þeir 33 þm., sem undir ályktunina skrifuðu um að halda fast við þá stafsetningu sem gilt hafði áður en fyrrnefndar auglýsingar voru gefnar út 1973 og 1974.

Í framhaldi af þessum málalokum á s.l. þingi fluttum við sexmenningarnir það frv. sem ég áður vitnaði til og hefur verið til meðferðar í hv. menntmn. Samkv. þeim uppl.ýsingum, sem ég hef fengið úr n., mun vera von á nál. frá n. nú á allra næstu dögum, og hefur mér skilist að meiri hl. n. muni mæla með samþykkt frv., e.t.v. þó með nokkurri breytingu sem ég geri ráð fyrir að við flm. frv. séum reiðubúnir til að fallast á. Ég vil að það komi fram hér, að það er eindregin ósk okkar sexmenninganna, sem fluttum frv. sem ég nefndi áðan, á þskj. 140, að það frv. hljóti afgreiðslu hv. menntmn. og afgreiðslu Alþ. nú áður en störfum þess lýkur.