06.05.1976
Neðri deild: 99. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3768 í B-deild Alþingistíðinda. (3053)

212. mál, upptaka ólöglegs sjávarafla

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég taldi mig hafa í dag lagt fram allmikil rök fyrir því að það frv., sem hér er til umr., væri til lítils gagns í því skyni sem á að beita því. Og ég benti einnig á að í þessu frv. væru vissir annmarkar sem varla væri hægt að bjóða mönnum. Þeir, sem hafa komið hér upp og andmælt mínum skoðunum, hæstv. sjútvrh. og hv. þm. Sverrir Hermannsson, gerðu sér mjög lítið far um að hrekja það, sem ég hafði sagt í þessum efnum, að öðru leyti en því að hæstv. sjútvrh. bar á móti því að skipstjóri á skipi hefði það mikið vald að hann réði yfir skipshöfn sinni, þannig að hann gæti sagt henni að vera á veiðum á ólöglegum svæðum eða þess háttar, þar hlytu skipverjarnir að geta gripið inn í, og jafnaði slíkum ráðum skipstjóra við það að þeir ættu að hlýða honum í því að smygla brennivíni eða spíritus eða einhverju slíku á ólöglegan hátt. Ja, lágt geta nú hv. þm. fallið, en ég hélt að ráðh. kæmust aldrei í slíkan samjöfnuð sem þennan.

Það, sem ég var að segja í sambandi við þetta, var að ég lít svo á að það sé útilokað að ætla að venjulegir skipverjar geti í neinu komið í veg fyrir að skipstjóri þeirra veiði á ólöglegum svæðum. Það er enginn möguleiki fyrir háseta, jafnvel stýrimann, hvað þá vélstjóra, að vita um það þegar skipstjóri segir: Hér skulum við leggja trossuna — á hvaða stað er trossað. Það er útilokað fyrir annan en þann sem hefur fylgst með ferð skipsins og hefur staðsetningargræjurnar Í sinni hendi. Það er ekki nokkur leið að það eigi að fara að dæma skipverja fyrir slíkan verknað skipstjóra. Það er útilokað. algjörlega útilokað. Það má koma með ýmiss konar önnur dæmi í sambandi við að það er útilokað að ætla sér að hafa skipshöfn í einum hóp sakfellda fyrir slíkt.

Til viðbótar við þennan góða samanburð, sem hæstv. ráðh. kom með um spíritusinn og vald skipstjóra við veiðar, þá lýsti hann því yfir að þegar afli væri gerður upptækur á togurum sem veiddu Í fiskveiðilandhelgi, þá væri það á mjög svipaðan hátt gert og Í þessu frv. sem hér liggur fyrir. Ég hef ekki fimm lögfræðinga til ráðuneytis, eins og hæstv. ráðh. sagði að hann hefði í sinni góðu ríkisstj., sem er víst alveg satt, þeir eru fimm þar saman komnir, ég ætli kannske að segja sem betur fer. Ég held að það sé enginn lögfræðingur Í þingflokki Alþb. sem ég hefði getað leitað til til að fá upplýsingar um þetta og ekki heldur í Alþfl. (Gripið fram í.) Jú, formaðurinn, það er rétt. Hann hefur ekki verið hér, og þar af leiðandi hef ég ekki getað leitað til hans í þessu máli. En í sambandi við það að skipverjar séu ábyrgir fyrir gerðum skipstjóra síns í sambandi við landhelgisbrot ætla ég að lesa hér upp úr þeim lögum, sem vísað er til Í athugasemdum með þessu frv., og vita hvort sú yfirlýsing hæstv. ráðh. og hv. þm. Sverris Hermannssonar stenst að þetta sé eins. (Gripið fram í: Fá þeir aflahlut?) Þeir fá aflahlut, já. Það getur verið kannske að einhverjir aðilar séu að reyna að stinga honum undan, en ég veit ekki til þess og það er ekki sagt í lögunum. „Hver sá maður, sem leiðbeinir skipi við ólöglegar botnvörpu- eða flotvörpuveiðar í íslenskri fiskveiðilandhelgi eða liðsinnir því við slíkar veiðar eða hjálpar hinum brotlegu til að komast undan hegningu fyrir þær, skal sæta sektum 1000 til 15000 gullkrónum, sbr. lög nr. 4 11. apríl 1924. Sömu hegningu skal hver sá sæta sem er í botnvörpuskipi eða á bát við skipshliðina þegar það er að ólöglegum veiðum í landhelgi, nema hann geti gert þá grein fyrir dvöl sinni þar að líklegt þyki að hann eigi enga hlutdeild í hinum ólöglega veiðiskap þess. Ákvæði þessarar gr. gilda ekki um þá menn sem eru lögskráðir skipverjar á botnvörpuskipinu.“ Það er tekið fram að um sektir í þessum málum snerti ekki skipverja.

Í öðru lagi nefndi ég í ræðu minni í dag að í sambandi við ákvörðun um upptöku afla væri í þeim lögum, sem varða töku botnvörpuskipa, ákveðið atriði um að gagnvart upptöku félli veðréttur niður. Það er þannig í þessum lögum: „Við upptöku og aðför fellur niður veðréttur eða aðrar kvaðir sem hvíla kunna á uppteknum verðmætum.“ Og ég vil halda því fram að samkvæmt því frv., sem hér er, sé gagnslaus sú upptaka sem framkvæmd er, hún er algjörlega gagnslaus og þar af leiðandi er frv., eins og það liggur fyrir, algjörlega ómark.

Það er óþarfi fyrir hæstv, sjútvrh. og hv. þm. Sverri Hermannsson að vera að tala um að það þurfi að friða og við verðum að standa allir saman í því. Við erum ekkert ósammála um það. Við erum allir sammála um að það þurfi að gera. En það á ekki að gera það með þeim aðferðum sem hér er beitt. Það er útilokað að gera það.

Ég held ég þurfi ekki að lesa meira upp úr þessu lagasafni. Ég ætla aðeins að ítreka enn það sem ég sagði í dag, að í sambandi við upptöku afla og það að hafa skiperja alla samábyrga þá er verið að ýta undir brot í þessu máli. Það er verið að ýta undir brot, það er verið að gera allan hópinn samábyrgan og ekki þann, sem ræður, neitt frekar ábyrgan heldur en hina. Það þýðir það að skipstjóri gerir það miklu frekar að hætta á að veiða á ólöglegan máta, þegar hann veit að hans útgerð né hann sjálfur ber ekki neina umframsekt umfram skipverja hans. Það er verið að hvetja til þess. Ég held að þarna snúist hlutirnir við og séu á þann hátt sem hæstv. sjútvrh. talaði um eða á öfugan veg. Hann var að tala um að þeir væru að reyna að koma á stjórnun með þessum lögum, en ekki ofstjórn. Hér er um að ræða ofstjórn eða öfuga stjórn.

Hv. þm. Sverrir Hermannsson talaði um að það þyrfti að auka agann, auka aðhald, taka í taumana og þyrfti að vernda. Ég held að við séum allir sammála um að þetta þurfi að gera. En ég ætla að undirstrika það, að það er ekki gert með þessu lagafrv. sem hér liggur frammi, ef að lögum verður. Þegar á að fara að beita þessum lögum, þá líður ekki á löngu þar til allir verða varir við það að þessi lög eru ekkert annað en pappírsplagg og við höfum gert frekar leiðinlegt verk hér á hv. Alþ. ef við samþ. frv. án þess að breyta því. En ég held að það sé vilji fyrir því að þessu frv. verði breytt, og ég veit það að a.m.k. í mínum flokki er vilji fyrir því að það verði komið á einhverri stjórnun í þessum málum, en það er útilokað að gera það með þeirri aðferð sem hér á að beita. Það er útilokað. Ég vil því taka undir það sem hv. þm. Garðar Sigurðsson sagði hér áðan og ég sagði reyndar í minni fyrri ræðu, að ég hvet hæstv. ráðh. til þess að fá sjútvn. þessarar hv. d. til að taka þetta mál aftur til athugunar og að þessu máli verði komið í farsæla höfn, — ekki í þá höfn sem það stefnir núna með þeirri skoðun sem hér hefur verið uppi frá hendi hæstv. ráðh. og hv. þm. Sverris Hermannssonar.