10.05.1976
Efri deild: 100. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3810 í B-deild Alþingistíðinda. (3140)

254. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Jón Árnason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Við hv. 3. þm. Vesturl. fluttum frv. á síðasta þingi sem gengur mjög í svipaða átt og þetta frv. gerir varðandi stjórn Fiskveiðasjóðs, og ég ætla aðeins að þakka hæstv. sjútvrh. fyrir að hann flytur nú þetta frv. sem er, eins og ég sagði, mjög í þá átt sem frv., sem við fluttum í fyrra, stefndi að. Það, sem skiptir hér mestu máli, er að þeir, sem eiga undir þennan sjóð að setja, fái að vera aðilar að og fylgjast með afgreiðslu Fiskveiðasjóðs á málefnum útvegs og sjómanna. Mér finnst að eins og frv. ákveður, þ.e. að útvegsmenn og sjómenn séu aðilar að stjórn sjóðsins, það sé einmitt rétt stefna sem farin er í þessum málum. En ég er einnig sammála hæstv. sjútvrh. um að þessi tala stjórnarmanna er alveg nægilega mikil og það komast að sjónarmið sem nauðsynlegt er í sambandi við starfrækslu Fiskveiðasjóðsins með ákvæðum þessa lagafrv.

Ég er í þeirri n., sem ég geri ráð fyrir að fái þetta mál til meðferðar, og sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta, en ég vil þó strax við 1. umr. taka það fram að ég þakka hæstv. ráðh. fyrir að hafa flutt þetta frv.