10.05.1976
Efri deild: 100. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3836 í B-deild Alþingistíðinda. (3156)

182. mál, saltverksmiðja á Reykjanesi

Jón Árnason:

Herra forseti. Ég held að það fari ekki á milli mála að við séum allir sammála um að hér er um merkilegt mál að ræða sem æskilegt væri að hægt væri að koma í framkvæmd. Ég kveð mér hljóðs í sambandi við eitt atriði sem tengt er þessu máli og ég vildi gjarnan fá betur upplýst en fyrir liggur. Í 1. gr. segir: „Með saltverksmiðju er í lögum þessum átt við iðjuver til vinnslu á salti fyrir innlendan og erlendan markað og hagnýtingar á efnum sem til falla við þá vinnslu.“ Í sambandi við þetta frv. og þetta ákvæði Í 1. gr. vildi ég vekja sérstaka athygli varðandi framleiðslu á þeim aukaefnum sem gert er ráð fyrir að framleiða jafnhliða saltframleiðslunni. Mér er sagt að til framleiðslu á þeim viðbótarefnum, sem gert er ráð fyrir að hagnýta og talið er að sé nauðsynlegt til að fá fjárhagslegan grundvöll undir fyrirtækið og til falla við vinnsluna, þurfi mikið magn af kalksandi eða skeljasandi.

Nú er það svo sem kunnugt er að hér er fyrir hendi önnur verksmiðja á Faxaflóasvæðinu sem byggir sína framleiðslu á þessu sama hráefni. Það liggja hins vegar ekki fyrir upplýsingar um það hve mikil skeljasandsnáman er í Faxaflóa eða um hvað langa framtíð hún mundi endast Sementsverksmiðjunni til sinnar framleiðslu. Ef þetta er rétt sem ég hef hér vikið að varðandi skeljasandsþörfina, þá tel ég að ekki verði hjá því komist að ítarleg rannsókn fari fram á því hve mikið magn af skeljasandi sé hér fyrir hendi, þannig að það liggi fyrir að grundvellinum undir rekstri annarrar verksmiðju, þ.e. Sementsverksmiðjunnar, sé ekki kippt undan með stofnsetningu þessarar nýju verksmiðju sem við hljótum þó, eins og ég sagði í upphafi máls míns, að viðurkenna að sé mjög æskileg framkvæmd. Það kann að vera að það sé um einhverjar ýkjur að ræða í sambandi við þetta og að magnið af skeljasandi sem þessi verksmiðja þarf til sinnar framleiðslu, sé ekki ýkjamikið. Ef þetta er rétt, en það hefur ekki komið neitt fram hér í upplýsingum varðandi þetta mál hvað skeljasandurinn er stór liður, tel ég óhjákvæmilegt að það sé gengið úr skugga um og rannsakað ítarlega hvað náman í Faxaflóa er stór. Við vitum að Sementsverksmiðjan notar geysilega mikið magn af þessu hráefni til sinnar framleiðslu og hér er um fjárfestingu að ræða sem kostar mörg hundruð millj. kr. Það segir sig sjálft að það er útilokað að stefna rekstri þeirrar verksmiðju í nokkra óvissu.

Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu við þessa umr. Ég veit að hv. 2. þm. Vestf. ræður yfir upplýsingum um þetta mál, og vildi ég gjarnan að hann léti okkur þær í té, hvort það er nokkur ástæða til þess að athuga þetta mál nánar eða hvað mikil slík hráefnisþörf er fyrir þessa nýju verksmiðju sem ég hef vikið sérstaklega að.