10.05.1976
Efri deild: 100. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3853 í B-deild Alþingistíðinda. (3168)

257. mál, jarðalög

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls lýsti ég yfir fullkomnum stuðningi við megintilgang þessa frv., þ.e.a.s. að hindra óeðlilegt jarðabrask. Ég hlýt því, þó að ég sjái ýmsa annmarka á frv. og einkum að mér hefur ekki gefist tími til þess að bera það nægilega saman við eldra frv., — því hlýt ég að styðja þetta frv. í meginatriðum.

Ég vil hins vegar segja það, að tíminn hefur verið býsna stuttur til þess að fjalla um þetta mál og bera saman eldri gerð frv., sem var hér til meðferðar fyrir tveim árum, og það frv. sem nú liggur fyrir og er sameiginleg niðurstaða þeirra stjórnarflokka sem nú ráða ríkjum.

Ég skil vel að sumir þeir menn, sem voru í landbn. Ed., hafi ekki þurft langan tíma, því það eru sömu mennirnir sem voru við það að bræða saman sjónarmið Sjálfstfl. og Frams.fl. í málinu, og þeir þurftu eðlilega ekki langan tíma til þess að fara yfir þetta frv. Engu að síður hef ég skrifað undir þetta frv., samþ. það, með ákveðnum fyrirvara. Ég hef áður lýst því hvers vegna ég skrifa undir frv., vegna þess að að meginstofni til er það til bóta. En fyrirvari minn byggist auðvitað á rétti til þess að flytja og fylgja brtt.

Varðandi brtt. minni hl., þá vildi ég fyrst gera þær stuttlega að umræðuefni, þ.e.a.s. þær þeirra sem mér finnst máli skipta.

Ég sé ekkert athugavert við það þó að i. gr. orðist þannig að eignarráð á landi og búseta á jörðum sé í samræmi við hagsmuni þjóðarheildarinnar. Ég álít nefnilega að hagsmunir landbúnaðarins og hagsmunir þjóðarheildarinnar hljóti á hverjum tíma að fara saman ef rétt er að staðið. Þess vegna sé ég ekkert athugavert við þessa brtt. og mun fylgja henni.

3. brtt. minni hl. er að vísu örlítið ákveðnar orðuð, en ég sé þó ekki það mikið tilefni til hennar að ástæða sé til að fylgja henni sérstaklega. Hún er að vísu nokkur árétting á 6. gr., en ekki nægilega mikil að mínum dómi til þess að ástæða sé til að gera þar á breytingu.

Varðandi 9. brtt., þá síðustu, þar lenti ég í örlitlum vanda í sambandi við þetta mál. Ég hef ekki verið allt of hrifinn af þessum kafla um óðalsjarðirnar og alltaf fundist í því nokkur fordild. En þegar þetta frv. var hér til umr. á sínum tíma, þá féllst ég á að láta þennan kafla gilda. Tveir ágætir bændur austan af landi komu mér í annan og æðri skilning um þessar óðalsjarðir sem einmitt eitt tæki til þess að hindra jarðabrask, og ég kann þeim bestu þakkir fyrir, því að ég hygg að það sé töluvert til í þessu. En fordildin heldur nú áfram engu að síður. En ég kann ekki við að endurskoða afstöðu mína í þessu máli eða áskilja mér rétt til skoðanaskipta, eins og nú er mjög í tísku.

En varðandi eigin brtt. er það að segja, að í gamla frv. var það tekið sérstaklega fram að ef um óeðlilega ráðstöfun væri að ræða miðað við almennar viðskiptavenjur, þá skyldi byggðaráð, nú jarðanefnd, ekki veita leyfi sitt til ráðstöfunar fasteigna, sbr. 1. mgr. 7. gr. þá, eða ef ætla má að ráðstöfunin sé gerð til að hafa af henni sérstakan fjárhagslegan ávinning eða til að ráðstafa eigninni eða hluta af henni fljótlega aftur í hagnaðarskyni. Ég sé það að í frv. nú er komið inn á þetta að nokkru í 25, gr. Þar er talað um ósanngjarna skilmála miðað við almennar viðskiptavenjur, þ.e.a.s. þar er aðeins möguleikinn á mati, en ekkert um það að jarðanefnd hafi heimild til þess að neita um leyfi til ráðstöfunar fasteignarinnar. Því hef ég leyft mér að endurvekja þessa gr. sem mér þótti um margt ágæt, og var einmitt rakið hér á sínum tíma átakanlegt dæmi um misnotkun á þessu atriði, þannig að nú komi ný gr. á eftir 8. gr., svo hljóðandi: „Ekki skal veita leyfi til ráðstöfunar fasteignar, sbr. 1. mgr. 7. gr., ef ætla má að ráðstöfunin sé gerð til að hafa af henni sérstakan fjárhagslegan ávinning eða til að ráðstafa eigninni eða hluta af henni fljótlega aftur í hagnaðarskyni.“

Á það var deilt á sínum tíma af þáverandi stjórnarandstöðu að þetta væri teygjanlegt hlutverk, „ef ætla mál“, og erfitt að átta sig á því hvað um væri að ræða. En þeim samstarfsmönnum mínum þáv. í Framsfl. þótti þetta fullnægjandi þá og ég vona að þeim þyki þetta fullnægjandi enn og geti þess vegna fallist á að taka þetta gamla afkvæmi sitt aftur inn í núv. frv.

2. brtt. er sú hin sama og samþ. var hér við 3. umr. úr Ed., þá fram borin af Ragnari Arnalds, verður nú varðandi 25. gr. í þessu frv. á eftir ákvæðunum um forkaupsréttarhafa og mat á eign komi svo hljóðandi grein:

„Við matið skal ekki taka tillit til verðhækkunar sem stafar af því að skipulagt þéttbýlissvæði, sbr. 4. gr. þessara laga, er að byggjast upp í næsta nágrenni og veldur óvenjulegri eftirspurn eftir landi, heldur ber að miða við verðmæti hliðstæðra eigna þar sem þessar ástæður hafa ekki veruleg áhrif til verðhækkunar.“

Þessi grein var alveg sérstaklega til komin vegna ákveðins máls sem þá var mjög á döfinni, Votmúlamálsins svokallaða. Og þessi till. var samþ. hér í d. af okkur alþb.-mönnum, alþfl.- mönnum og einnig öllum viðstöddum framsóknarmönnum í deildinni.

Ég vil því reyna á það enn á ný hvort ekki er hægt að fá þessa um margt eðlilegu till. inn, og ég vil aðeins skjóta því að, að mér finnst fara afar vel á því að ég sjálfur flytji þessa till. nú í staðinn fyrir hv. þm. Ragnar Arnalds, þar sem ekki er eins ástatt fyrir okkur varðandi eignarráð á landi. Það vill nefnilega svo til að ég á jörð sem nákvæmlega eins er ástatt um og væri hægt að sprengja upp úr öllu valdi ef mönnum sýndist svo, og ég vil koma í veg fyrir það einmitt að ég verði nokkurn tíma svo slæmur maður að verða braskari, hv. þm. Albert Guðmundsson. Það er einmitt það sem ég er að koma í veg fyrir með þessari tillögu.

En í 3. brtt. kem ég inn á mál sem var nokkuð umdeilt á sinum tíma. Það er í sambandi við Jarðasjóð. Þar var ákveðið að lágmark framlags í Jarðasjóð yrði 12 millj. ár hvert. Með tilliti til aukinna verkefna Jarðasjóðs var það gagnrýnt að upphæðin væri óbreytt frá fyrri lögum eða ekki nógu mikið breytt frá fyrri lögum og væri of lág. Nú hefur verðlag auðvitað allt rokið upp úr öllu valdi síðan frv. var hér síðast til meðferðar, og þess vegna þykir mér eðlilegt, að þessi upphæð verði a. m. k. tvöfölduð, og legg því til að í staðinn fyrir 12 millj. komi 25 millj. kr., lágmarkið, og ég geri það ekki siður með tilliti til þess að ég veit að Jarðeignadeild ríkisins og Jarðasjóður eiga í allmiklum erfiðleikum með að greiða bændum það sem þeir eiga rétt á í sambandi við það þegar þeir hverfa af ríkisjörð.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Ég mun styðja frv. í meginatriðum. Ég lýsi fylgi við 1. brtt. minni hl., sé ekki ástæðu til þess að fylgja öðrum till. af hálfu minni hl. og vonast til þess að þær till., sem ég ber hér fram og eru mjög í samræmi við það sem áður hafði gerst hér í hv. d., þær muni fást samþykktar.