11.11.1975
Sameinað þing: 13. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í B-deild Alþingistíðinda. (317)

300. mál, samstarf við erlenda aðila um virkjanir og stóriðju á Austurlandi

Fyrirspyrjandi (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur sú þróun orðið í efnahagskerfi íslendinga að æ stærri hluti gjaldeyristekna þjóðarinnar er sprottinn af efnahagslegri starfsemi erlendra aðila á Íslandi. Á fyrri hluta áratugsins 1950–1960, fyrstu árin eftir að bandarískur her kom til landsins, skipuðust mál þannig að mjög stór hluti gjaldeyristekna þjóðarinnar varð beinlínis vegna framkvæmda bandaríska hersins á Íslandi. Fljótlega kom í ljós að þorri þjóðarinnar var andsnúinn þeirri stefnu að svo hátt hlutfall gjaldeyristekna stafaði af starfsemi erlendra aðila í landinu, og á síðari hluta þessa áratugs og fram eftir áratugnum 1960–1970 lækkaði þetta hlutfall. Með tilkomu atvinnurekstrar Swiss Aluminium á Íslandi og Johns Manville og með auknum framkvæmdum bandaríska hersins á Íslandi, sem nú þegar eru hafnar og utanrrh. upplýsti hér fyrir nokkru, hafa bæst í hóp þeirra manna, íslendinga, sem stunda störf á vegum hersins, nokkur hundruð manna, og það hlutfall mun halda áfram að aukast á næstunni, og hafnar eru framkvæmdir við járnblendiverksmiðju sem að verulegu leyti er grundvölluð á samböndum og aðild erlends stórfyrirtækis, Union Carbide, og þá er ljóst að nú þegar blasir það við að enn á ný sé hátt hlutfall gjaldeyristekna íslendinga, eða m. ö. o. grundvöllurinn undir efnahagslegu sjálfstæði landsins, okkar gjaldeyristekjur, að verða háður atvinnurekstri útlendinga á Íslandi.

Ég er þeirrar skoðunar, að það sé eitt af grundvallarverkum í sjálfstæðisstarfsemi þjóðarinnar á þessum árum og í framtíðinni að sporna hér við fótum, að vara við því þegar í upphafi að þetta hlutfall verði aukið og þjóðin fái að fylgjast mjög náið og nákvæmlega með öllum þeim áformum sem uppi eru um að auka enn frekar hlutdeild útlendinga í atvinnurekstri á Íslandi. Ef svo heldur fram sem nú hefur verið um nokkurra ára skeið, þá blasir það við að jafnvel innan áratugs verði yfir fjórðungur af gjaldeyristekjum íslendinga vegna atvinnurekstrar útlendinga í landinu. Ef skýrslur fiskifræðinga eru réttar og aflamagn okkar hér við strendur landsins mun minnka, þá getur þetta hlutfall jafnvel orðið enn hærra.

Ég tel það þess vegna nauðsynlegan þátt í viðnámi gegn ásælni erlendra stórfyrirtækja í íslensku atvinnulífi að þjóðin fái að fylgjast mjög nákvæmlega með öllum áformum í þessum efnum og tilraunum þessara fyrirtækja til samskipta við íslenskar stjórnstofnanir á þessu sviði.

Eins og þm. muna frá umr. hér fyrir skömmu, þegar rætt var um orkumál á Austurlandi, átti ég von á því að hæstv. iðnrh. mundi ekki skýra eins nákvæmlega og ég óskaði og taldi nauðsynlegt frá samskiptum íslenskra aðila við þessi stórfyrirtæki — eða réttara sagt frá ásælni erlendra stórfyrirtækja og fyrirspurnum þeirra og athugunum á möguleikum á nánari atvinnurekstri á Íslandi. Ég bar því fram fyrir fram þá fsp. sem hér er til umr. til þess að gefa hæstv. ráðh. aftur tækifæri til þess að gefa Alþ. nákvæma, ítarlega og tæmandi skrá yfir allar tilraunir, formlegar eða óformlegar, í formi kynnisferða, viðræðna eða samstarfsnefnda eða á annan hátt, sem átt hefðu sér stað milli íslenskra aðila og þessara fyrirtækja. Ég ber því fram, herra forseti, þá fsp. sem hér er í tveim liðum:

„Við hvaða erlenda aðila hafa íslenskar stofnanir haft sambandi vegna nýrra virkjana og/eða hugsanlegrar stóriðju á Austurlandi og hverjir hafa haft frumkvæði að slíkum samböndum?“

Og í öðru lagi: „Hvers eðlis hafa þessi samskipti verið, t. d. kynnisferðir, viðræður, stofnun formlegra eða óformlegra samstarfsnefnda eða annað?“