10.05.1976
Efri deild: 101. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3887 í B-deild Alþingistíðinda. (3192)

257. mál, jarðalög

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Þrátt fyrir tilmæli hæstv. landbrh. get ég alls ekki fallist á að það sé eðlileg eða sanngjörn málsmeðferð að þessu mikla vafamáli, sem hér er verið að ræða, skuli sleppt fram hjá d. og málið sent til Nd., þannig að þessi d. hafi engin tök á því að koma í veg fyrir að þessi ákvörðun sé tekin. Ég met orð hæstv. landbrh. mikils oftast nær, en það er ekki þar með sagt að ég geti fallist á að hann sé nokkur einvaldur hér í þinginu, og ég tel ekki að með orðum hans sé fengin nein trygging fyrir því að Nd. renni ekki málinu í gegn óbreyttu án þess að hafa skoðað málið sérstaklega. Ég hef mikið álit á prófessor Gauk Jörundssyni, en ég tel ekki að einhver setning, sem hann hefur látið falla í hv. landbn. Ed., taki af allan vafa um þetta efni. Ég veit það vel að hæstv. landbrh. hefur líka álit á fleiri fræðimönnum. Einn þeirra er form. Framsfl. fyrrv. prófessor í stjórnskipunarrétti, Ólafur Jóhannesson. Ég vil láta hæstv. ráðh. heyra hvað Ólafur Jóhannesson segir um þetta efni í bók sinni: „Stjórnskipun Íslands“. Ég hef því miður ekki haft tíma til þess að fletta bókinni þannig að ég finni þau atriði þar sem að þessu er vikið, en ég finn hér strax eina eða tvær setningar þar sem einmitt þetta, sem hæstv. landbrh. er nú að gera, er dregið mjög stórlega í efa, og skal ég nú láta hann heyra. Á bls. 290 er einmitt fjallað um málefni af þessu tagi og þó aðeins rétt vikið nákvæmlega að þessu atriði, en þar segir hæstv. núv. dómsmrh., Ólafur Jóhannesson: „Og þegar stjórnarskráin sjálf býður að eitthvað skuli gert með lögum er almenna löggjafanum, eins og áður er sagt, almennt óheimilt að fela framkvæmdavaldshöfum ákvörðun um þau efni.“ Það er nákvæmlega þetta sem verið er að gera. Og hann bætir við: „Er spurning hvort þessa hefur ætíð verið nægilega gætt.“

Ég tel að þetta taki af allan vafa um það að þetta mál beri að skoða og það strax, áður en þessi d. afgr. málið, og vil því eindregið fara þess á leit við forseta að hann verði við þeim tilmælum, sem hér hafa komið fram, og fresti málinu.