10.05.1976
Efri deild: 101. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3891 í B-deild Alþingistíðinda. (3204)

238. mál, ferðamál

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. þm. Ragnar Arnalds sagði, að fyrir 2–3 árum var allmikið um þetta rætt og ekki að ástæðulausu, því á það hefur iðulega verið bent að heimavistarskólar hafa verið þannig úr garði gerðir að þeir hafa ekki verið vel nýtanlegir sem sumargistihús, miðað við þær kröfur sem nú eru almennt gerðar, ekki aðeins af erlendum ferðamönnum, sem gjarnan hefur verið bent til, heldur einnig af íslenskum ferðamönnum. Ég var þeirrar skoðunar að þetta væri mikill galli og sjálfsagt að reyna að lagfæra þetta. Hins vegar var þá vakin athygli á því að þessu fylgir mikill kostnaðarauki og þetta er alls ekki sjálfgert. Þá var samin till., ég man ekki hvort hún er orðrétt eins og þessi, en ég trúi hv. flm., og satt að segja finnst mér þessi till. ákaflega saklaus. Ferðamálaráð getur farið fram á að teikningum sé hagað svo að húsnæði fullnægi þeim kröfum o.s.frv. Menntmrn. getur neitað því, það er engin skylda. Ferðamálaráð getur farið fram á þetta. Ég verð nú að segja fyrir mitt leyti að varla þarf lög til þess að heimila Ferðamálaráði að fara fram á þetta, satt að segja. (Gripið fram í: Það þarf peninga.) Já, en það stendur: „Jafnframt er heimilt í þessu skyni að veita Ferðamálaráði eða viðkomandi byggingaraðila lán úr ríkissjóði fyrir milligöngu Ferðamálasjóðs.“ Það er heimilt, en fjmrh. þarf alls ekki að nota þá heimild. Í raun og veru er með þessari till. bara verið að vekja athygli á þessum framkvæmdarmáta (Gripið fram í.) Já, það er verið að stuðla að því að Ferðamálaráð hafi þarna frumkvæði og fari gjarnan fram á þetta, en framkvæmdin er eftir sem áður háð samþykki ráðuneyta og ríkisstjórnar. Ég vil lýsa því yfir að ég mun, eins og ég greiddi þessu atkvæði á sínum tíma, greiða því atkvæði nú.