10.05.1976
Neðri deild: 103. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3921 í B-deild Alþingistíðinda. (3223)

274. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af því að það hefur ekki fengist endanlega úr því skorið í svörum hæstv. forsrh, hvort það sé tilgangur Sjálfstfl. eftir tveggja ára umþóttun sem forustuflokkur ríkisstj, að snúa þá baki við þeirri stefnu sem talsmenn flokksins mörkuðu hér á Alþ. á sínum tíma þegar sett voru lög um Framkvæmdastofnun ríkisins. Á þeim tíma, þegar þessi lög voru sett, vana ég við að skrifa þingfréttir héðan frá Alþ., og ég man ekki eftir annarri eins sprengingu hjá einum stjórnmálaflokki eins og þeirri sem varð hjá Sjálfstfl. af því tilefni, vegna þess að það eitt að setja þessa stofnun á laggirnar var að áliti talsmanna flokksins hér á Alþ. með meiri háttar hneykslum í íslenskri pólitík, og kórónaði þó allt saman hvernig að stjórn þeirrar stofnunar var staðið með því að taka upp hið margumrædda kommissarakerfi þar.

Þegar núv. ríkisstj. tók til starfa voru sett í málefnasamning hennar ákvæði um að þessi mál, lög um Framkvæmdastofnun ríkisins, skyldu þegar tekin til endurskoðunar, og höfðu talsmenn Sjálfstfl. og málgögn hans það mjög á orði að þetta væri eitt af merkjunum um það að nú ætlaði forustuflokkur ríkisstj., Sjálfstfl., að sjá til þess að snúið yrði við á þeirri óheillabraut sem fyrrv. ríkisstj. hefði gengið. Og eitt af því, sem átti að nota í þessum viðsnúningi undir forustu Sjálfstfl., var að gera umfangsmiklar breytingar á lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins, og fóru menn þá ekkert í grafgötur með það hvaða breytingar ætti að gera á. Að sjálfsögðu áttu þær breytingar að vera í anda þeirra till, sem talsmenn flokksins fluttu hér á Alþ. þegar þessi mál voru til umr. á sínum tíma.

Nú hefur það gerst að Sjálfstfl. hefur haft þessa endurskoðun með höndum ásamt samstarfsflokki sínum í tvö ár, og niðurstaðan virðist vera sú að ákveðið er af hálfu talsmanna ríkisstj. og Sjálfstfl. að ganga jafnvel enn þá hreinna til verks heldur en áður var gert um það að lögbinda fyrri starfshætti, ekki aðeins stofnunina og tilvist stofnunarinnar, heldur einnig þá stjórn sem yfir þá stofnun var sett, þannig að ekki verður sjálfstæðismönnum kennt um það að vera mjög miklir endurskoðunarsinnar í þessu tilviki. Sú endurskoðun, sem þar hefur verið unnin, hefur frekar verið maóistísk heldur en krúsíefsk.

En það eru fleiri en hv. þm. Ellert B. Schram sem eru uggandi um óljóst orðalagi þessu frv. og óljóst orðalag hæstv. forsrh, hér áðan þegar hann var beðinn um að skýra nokkru nánar fyrir þingheimi hvað átt væri við þegar rætt er um forstjóra þessarar stofnunar, hvort átt væri við einn eða fleiri. Ellert B. Schram, hv. þm., er ekki einn um að búast við því að þarna búi það raunverulega undir að eftir að endurskoðunin hefur farið fram, þá verði staðfest sú skipun sem verið hefur á stjórn stofnunarinnar allar götur frá því að þessi stofnun var sett á fót. Og til þess að fylgja e.t.v. eftir þeim grunsemdum, sem hv. þm. Ellert B. Schram hafði uppi í ræðu sinni áðan, þá vil ég vitna í eitt af málgögnum ríkisstj., dagblaðið Vísi frá fimmtudeginum 6. maí s.l. Í þetta blað skrifar frétt um Framkvæmdastofnunina ritstjóri blaðsins, Þorsteinn Pálsson, sem mun eins og aðrir ritstjórar málgagna ríkisstj. fylgjast talsvert með því hvað er að gerast í stjórnarherbúðunum, a.m.k. hvað menn eru að hugsa í þeim flokki sem þessi ágæti ritstjóri styður. En svo vildi til að fimmtudaginn 6, maí s.l., áður en frv. um Framkvæmdastofnun ríkisins var lagt fram á Alþ., en væntanlega eftir að það frv. hafði verið kynnt í þingflokki sjálfstæðismanna, þá skrifar ritstjóri Vísis frétt í blað sitt um að væntanlegt sé nú frv. frá ríkisstj., nýtt lagafrv. um Framkvæmdastofnun ríkisins. Og hvaða fyrirsögn velur ritstjóri Vísis á frétt sína? Fyrirsögnin er svo hljóðandi, með leyfi forseta: „Tómas og Sverrir áfram í Framkvæmdastofnun.“ Þetta er fyrirsögn sem ritstjóri Vísis, eins af stjórnarmálgögnunum, velur á frétt sína um það frv. sem hér er til umr. í dag. Síðan segir ritstjórinn orðrétt í þessari frétt sinni, með leyfi forseta:

„Eftir því sem Vísir kemst næst er ekki gert ráð fyrir að núv. framkvæmdaráðsmenn hætti störfum við stofnunina þó að nýju lögin nái fram að ganga. Stefnt mun vera að því að afgreiða þetta frv. sem lög frá Alþ. fyrir þinglok.“

Yfir þessari vitneskju bjó einn af helstu og fremstu talsmönnum Sjálfstfl. þegar 6. maí s.l., áður en þetta frv., sem nú er til umr., hafði verið lagt fram. Og hvað er þessi trúnaðarmaður Sjálfstfl. að segja í þessari frétt sinni? Hann er að segja í fyrsta lagi að á þessum tveimur árum á valdastólum í ríkisstj. sé Sjálfstfl. alveg horfinn frá þeirri stefnu í málefnum Framkvæmdastofnunar ríkisins sem talsmenn hans mörkuðu í tillöguflutningi og í löngum og harðyrtum ræðum hér á Alþ. þegar Framkvæmdastofnunin var þar til umr. í fyrsta sinn. Hann er að segja frá því að Sjálfstfl, hafi snúið bakinu við þeirri stefnu sem hann markaði, og ég legg áherslu á að ekki aðeins allir þm. hans, þáverandi, heldur allar stofnanir flokksins sem um þetta mál hafa fjallað, allt frá félögum ungra sjálfstæðismanna hér í Reykjavík og upp í æðstu trúnaðarstofnanir flokksins, hafa margítrekað á þeim árum sem liðin eru síðan. Þessi trúnaðarmaður Sjálfstfl. er að skýra frá því í þessari frétt að flokkurinn sé horfinn frá þessari stefnu, búinn að snúa bakinu við öllum sínum fyrri samþykktum og allri sinni fyrri afstöðu í sambandi við þetta mál.

En Þorsteinn ritstjóri Pálsson er einnig að skýra frá öðru. Og hvað er það? Hann er að skýra frá því að stjórnarflokkarnir tveir hafi samið um það hvaða kommissarar skuli halda störfum við stofnunina að samþykktum þeim breytingum á lögum hennar sem hér liggja fyrir Það ætti e.t.v. heldur að kalla þá zar-kommissara eftir að búið er að löggilda þá Sjálfstfl.-löggildingu eins og hér er um að ræða. Og hverjir eru svo þessir zar-kommissarar sem Þorsteinn Pálsson er að segja okkur frá í frétt sinni frá 6. maí að eigi að stjórna Framkvæmdastofnun ríkisins? Það eru sömu kommissarar, sömu ágætir alþm. og hafa stjórnað henni á þessu kjörtímabili.

Ég tek það sérstaklega fram að ég er með þessu síður en svo að finna að störfum þessara ágætu manna. Ég er aðeins að benda á það að einn af helstu trúnaðarmönnum Sjálfstfl. skýrði frá því í blaðafrétt heilum sólarhring áður en frv. það, sem hér er verið að ræða, var lagt fram, og byggði þá frásögn á vitneskju sem honum hlýtur að vera handhægt að afla sér í sínum flokki, að það sé búið að ganga frá því í samkomulagi stjórnarflokkanna, ekki aðeins að snúa Sjálfstfl. algerlega frá sinni fyrri stefnu í þessu mikilvæga máli, heldur sé einnig búið að ganga frá því í samkomulagi stjórnarflokkanna hverjir eigi að vera þeir tveir menn, sem væntanlega muni stjórna Framkvæmdastofnuninni sem forstjórar eftir samþykkt þessara lagabreytinga.

Ég trúi því vart að hv. þm. Ellert B. Schram geti öllu lengur verið í vafa um hvernig mál þessi standa, eftir að búið er m.a. að benda honum á þetta atriði. Og mig uggir að af þeim, sem reynt hafa að gerast spámenn í þessum málum, verði Þorsteinn Pálsson ritstjóri sá sem sannast mun hafa spáð.