12.11.1975
Neðri deild: 16. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í B-deild Alþingistíðinda. (339)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Virðulegi forseti. Hæstv. dómsmrh. hefur svarað þeim beinu spurningum sem hv. 2. þm. Austurl. beindi hér til hans og ríkisstj., svo að ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þær spurningar, enda vil ég undirstrika þau svör sem hæstv. dómsmrh. gaf, að þessu leyti. Hv. 2. þm. Austurl. beindi reyndar í þriðja lagi þeirri spurningu almennt til mín og áskorun þar með hvenær upplýst yrði um viðræðurnar sem fram hafa farið um landhelgismálið við breta og vestur-þjóðverja og áskorun um að það yrði gert hið fyrsta.

Skýrsla um þessar viðræður hefur verið lögð fram í landhelgisnefnd, og fundur er boðaður í landhelgisnefnd á morgun til þess að ræða þar skýrslur frekar. Opinbert hefur verið gert að skv. samkomulagi samningamanna í víðræðunum við breta hefði verið ákveðinn fundur íslenskra og breskra fiskifræðinga. Sá fundur var síðla seinustu viku, og opinbert hefur gert í höfuðatriðum um niðurstöður þess fundar, en skýrsla um þau fundarhöld verður lögð fram á fundi landhelgisnefndar kl. 9 í fyrramálið.

Auðvitað hefði verið æskilegt að þessar viðræður, sem fram hafa farið, hefðu leitt til niðurstöðu og þá að mínu viti helst til samkomulags sem fullnægjandi væri fyrir okkur íslendinga og raunar báða aðila, áður en núgildandi samningar féllu úr gildi á miðnætti annað kvöld. En ein ástæðan og meginástæðan til þess að þessar viðræður hafa dregist á langinn er að íslenska ríkisstj. taldi nauðsynlegt að Hafrannsóknastofnunin gerði nákvæmari skýrslu um nýtingu fiskstofnanna við landið en fyrir lá skv. fyrri skýrslum Hafrannsóknastofnunarinnar fyrr á þessu ári. Sú skýrsla var ekki tilbúin nægilega snemma og við gátum ekki neitað því að fiskifræðingar annarra þjóða og viðræðuaðilar okkar hefðu tækifæri og tök á því að kynna sér innihald skýrslunnar. Ég tel að það sé eðlileg ósk af þeirra hálfu og eðlilegt af okkar hálfu að hafa orðið við því. Þessi skýrsla á að vera nýtt af okkar hálfu sem vopn í okkar viðræðum, sem rök fyrir okkar málstað, og þannig hefur verið á málunum haldið.

Ég vil ekki á þessu stigi gefa neina yfirlýsingu um það hvenær skýrslur þær, sem fyrir liggja um viðræður við aðrar þjóðir, verða gerðar opinberar. Ég tel að það verði að fara í fyrsta lagi eftir mati á því hvað er í samræmi við hagsmuni okkar íslendinga, og ennfremur þurfum við að taka tillit til þess, að þegar við erum í viðræðum við aðrar þjóðir, þá er það venja í samskiptum þjóða á milli að þjóðirnar geri samkomulag sín á milli um hvað opinbert er gert á hverju stigi málsins um slíkar viðræður.

Ég held að það fari ekki á milli mála og hefur reyndar verið upplýst áður þegar þetta mál hefur verið á dagskrá að Alþ. fjallar auðvitað um samninga um fiskveiðiréttindi. Ef þessar viðræður leiða til samkomulags er vitaskuld vettvangur hér á Alþ. til að ræða innihald þeirra samninga, og þá er auðvitað þm. að gera upp við sig hvort slíkt samkomulag er í samræmi við þjóðarhagsmuni, hagsmuni íslendinga, eða ekki. Þá reynir á það að alþm. fari eftir sannfæringu sinni og greiði eingöngu atkv. í samræmi við hana.

Ég er sammála hv. 2. þm. Austurl. um að það hafi verið gefnar ósmekklegar yfirlýsingar af hálfu sumra viðræðuaðila okkar í sambandi við landhelgismálið, og sumar þeirra fela í sér ögranir ef ekki hótanir. Þetta ber að harma og sýnir því miður lítinn samkomulagsvilja. En við íslendingar stöndum sterkar að vígi ef við látum reyna á samkomulagsvilja viðræðuaðila okkar, og þá felst í þeim orðum mínum að um samkomulag verði að ræða sem sé í samræmi við hagsmuni okkar í bráð og lengd. Og eins og hv. 2. þm. Austurl. þótti lítt sæmandi að vera með hótanir eða ögranir af hálfu annarra þjóða, þá verð ég líka að segja að það sé ósæmilegt af hv. 2. þm. Austurl. að vera með hótanir og ögranir gagnvart ekki eingöngu ríkisstj., heldur og öllum þm. Ég dreg ekki í efa að þm. munu haga atkv. sínu í þessu máli sem öðrum skv. sannfæringu sinni, skv. því sem þeir telja hagsmunum þjóðarinnar best borgið.