13.05.1976
Efri deild: 106. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4151 í B-deild Alþingistíðinda. (3483)

75. mál, gatnagerðargjald á Akureyri

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Það kom mér nokkuð á óvart hjá hv. síðasta ræðumanni, 3. þm. Vestf., forseta þessarar d., að hann skyldi grípa til hreinna ósanninda til að verja þann auma málflutning og aumu samþykkt félmn., að bera það á borð að við, þessir sem höfum mótmælt eða erum á annarri skoðun, séum einhverjir sérstakir boðberar stefnu sem er andstæð fólkinu í landinu um áframhaldandi skattpíningar. Virðingu þessarar d. er sannarlega misboðið með svona málflutningi, og ég reikna fastlega með því, þegar hv. þm. er bent á mistök sín, að hann biðji þá afsökunar.

Það hefur komið hér fram frá hv. 2. þm. Norðurl. e., sem er fulltrúi þess fólks sem sækir nú á hinu háa Alþ. um leyfi til þess að búa þrifalega um bústaði sína, að það sé yfirlýstur vilji allra kjörinna fulltrúa í heimabyggðarlaginu, Akureyri, að það fái heimild til þess að gera það. Ég hef enga ástæðu til þess að ætla að kjörinn fulltrúi þessa fólks á Alþ. fari þar með rangt mál þegar hann segir að bæjarbúar á Akureyri séu yfirleitt sammála um að hreinsa til í kringum sig og gera það á þann hátt að það skilji ekki eftir sig skuldareikning sem lagður er í lófa hvers mannsbarns sem fæðist, að það standi undir kostnaði á þeim tíma sem framkvæmdir eru gerðar. Við höfum gert allt of mikið að því að koma reikningum í lófa barna í fæðingardeildum þjóðarinnar hingað til. Ég tel þetta mjög mikilsvert atriði, að hver kynslóð fyrir sig standi undir þeim framkvæmdum sem hún ákveður að fram skuli fara á hverjum tíma. Ég vil því ítreka það að ég mun styðja þetta frv., eins og það kemur hér fram, eða þær óskir, sem koma fram í frv. eins og það liggur hér fyrir frá flm., þeim Jóni G. Sólnes, Inga Tryggvasyni og Stefáni Jónssyni, og tel það til mikilla bóta, ekki bara með framkvæmdirnar í huga, heldur hugarfarið sjálft sem liggur þar að baki, að fólkið, sem er aflögufært, sem vill greiða, vill búa vel í kringum sig, það fái að gera það í stað þess að taka dýr erlend lán eða enn þá dýrari verðtryggð lán frá þjóðinni, en það er það sem ég kalla reikninginn sem lagður er í lófa hvers mannsbarns sem fæðist.