13.05.1976
Sameinað þing: 91. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4283 í B-deild Alþingistíðinda. (3634)

Almennar stjórnmálaumræður

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Gott kvöld. Fyrrv. ríkisstj. missti þingmeirihl. sinn í raun í upphafi árs 1974 fyrir tilstilli nokkurra krata sem þá töldu sig frjálslynda vinstri menn, en voru hvorugt, auk hinna, sem verið höfðu rekkjunautar íhaldsins í meira en áratug í viðreisnarstjórninni með skelfilegum afleiðingum fyrir atvinnuvegi þjóðarinnar og almenning í þessu landi. Hægri öfl Framsóknar voru líka orðin óróleg. Afleiðing þessara pólitísku mistaka urðu þau að enn einu sinni þurftu íslendingar að þola að ganga undir það jarðarmen að fá yfir sig samstjórn íhalds og Framsóknar sem ævinlega hefur einkennst af því að þar ná aðeins saman verstu eigindir hvors stjórnmálaflokksins um sig.

Í upphafi stjórnarsamvinnunnar skorti ekki fögur fyrirheit og væri fróðlegt að virða fyrir sér nokkrar þeirra heitstrenginga, sem þá hrutu af vörum hinna nýju foringja, og litast síðan um í leit að efndum. Þær eru hins vegar hvergi að finna. Í stað þess blasir við afskræmd spegilmynd þeirra hvert sem lítið er. Þetta eru þung orð og stór, en því miður er allt of auðvelt að finna þeim stað þótt aðeins sé vitnað til opinberra heimilda og augljósra staðreynda. Fyrirheitin voru m.a. fólgin í því að rétta átti við hag ríkissjóðs, bæta gjaldeyrisstöðu þjóðarbúsins, efla fjárfestingarsjóði; kveða niður verðbólgudrauginn og bæta lífskjör almennings, svo að eitthvað sé nefnt, auk þess sem landhelgin yrði stækkuð strax í 200 mílur. Nú skulum við huga að nokkrum þessara þátta.

Í nýútkominni ársskýrslu Seðlabankans kemur fram að í upphafi ára 1974 var skuld ríkissjóðs og ríkisstofnana í Seðlabankanum 1.8 milljarðar kr. En hvernig var svo ástatt um síðustu áramót þegar allt átti nú að vera orðið gott í ríkisfjármálum samkv. fyrirheitum ríkisstj.? Þá var skuldin næstum 7 sinnum hærri eða 12 þús. millj., ekki lítur gjaldeyrisstaðan betur út þrátt fyrir loforðin. í ársbyrjun 1974 voru nettóeignir bankakerfisins erlendis að vísu mjög litlar, en þó yfir núllinu, og talsverðar birgðir útflutningsvara í landinu, en nú um síðustu áramót var staðan sú að við skulduðum á sama reikningi 22 þús. millj. Erlendar skuldir hafa vaxið með meiri hraða en nokkru sinni fyrr, og nú er svo komið að hver nýr einstaklingur sem fæðist fær í sinn hlut hátt á 4. hundrað þús. kr. í erlendri skuld.

Á stjórnartíma núv. ríkisstj, hefur erlendur gjaldeyrir meira en tvöfaldast í verði og glíma stjórnarinnar við verðbólguna hefur farið á þann veg að hún hefur sett margfalt Evrópumet í þeim efnum með meira en 54% verðbólgu á s.l. ári og fátt bendir til þess að stjórnin hafi nokkurn vilja né getu til að ráða niðurlögum hennar á kjörtímabilinu. Sannleikurinn er sá, að alls ekki er hægt að tala um stjórn á fjármálum, heldur er um að ræða hreina óstjórn og slíkt fyrirhyggjuleysi að áætlanir standast ekki nema nokkrar vikur og í mesta lagi í nokkra mánuði í senn.

En hvernig er svo komið fyrirhyggju ríkisstj. sem að kjörum almennings snýr? Á s.l. ári rýrnaði kaupmáttur launa um hvorki meira né minna en 17% og nálgast kaupmáttarrýrnunin í stjórnartíð núv, stjórnar nú 30%. Á liðnum vetri reyndi verkalýðshreyfingin að ná aftur nokkrum hluta þeirrar rýrnunar í allsherjarverkfalli. Niðurstaðan varð sú að kaup var hækkað um 6%. Strax að loknum samningum dundu yfir verðhækkanir sem voru í öllum tilfellum langtum hærri en reiknað hafði verið með. Þá var ekki talað um hækkanir um 6% eða 10% þegar óskað var eftir hækkunum á nauðþurftum almennings eða á þjónustuliðum opinberra fyrirtækja og annarra. Þá stóð ekki heldur á ákvörðun. Þá dundu yfir hækkanir sem námu 25, 30, 40 og allt upp í 60–70%. Reiknað var út hver áhrif þessara hækkana yrðu og var niðurstaðan 7.5% meðaltalshækkun á öllu því sem vísitölufjölskyldan þyrfti að kaupa og síðan hefur verið bætt við 18% vörugjaldi. Endalaust skal höggvið í sama knérunn. En hvað þýða þessar hækkanir fyrir þá sem svo lítið hafa handa á milli að aðeins eru keyptar brýnustu nauðsynjar. Þar er hækkunin ekki nein 7–8%, heldur er þar um að ræða a.m.k. 25% viðbótarkauprýrnun. Og hverjir eru þeir sem þessi ósköp bitna harðast á? Það eru þeir sem hafa lægst launin. Það eru þeir sem hafa þyngstu fjölskyldurnar, þeir sem ekki hafa möguleika á aukavinnu. En síðast en ekki síst bitnar þetta á gamla fólkinu. Það eru þessir aðilar sem ríkisstj. sendir fyrst og fremst þessar kveðjur sínar, og það er illa gert.

Það er óþarfi að tíunda þennan þátt frekar. Enginn mælir ríkisstj. lengur bót í þessum efnum. Hver og einn, sem þarf að kaupa til heimilis, finnur þetta skýringalaust og greinilega á sinni eigin pyngju. Þrautalending Morgunblaðsins hingað til — húsmóðirin í Vesturbænum — hefur líka misst trúna á ríkisstj.

Byggðamálin voru heldur en ekki ofarlega á lista stjórnarinnar. Þau ætla ég ekki að ræða hér, En ég vil þó nefna þá ógnarbyrði sem olíukyndingarkostnaður er orðinn fólki á landsbyggðinni. Það er ekki einu sinni svo gott að þeir stjórnarliðar geti séð af þeim fjármunum sem koma inn af söluskattsstigi því sem ætlað er til niðurgreiðslu olíu, heldur er stór hluti tekinn til annarra þarfa, og ofan á það tekur stjórnin fast aukagjald til sín af hverjum lítra af olíu sem nota þarf til kyndingar. Þessi byrði er nú orðin svo þung að fólk stynur og jafnvel kiknar undan, svo að strax er farið að bera á flótta þessa fólks til hitaveitusvæðanna, í þessu efni verður að snúa við blaðinu ef ekki á illa að fara.

Herra forseti. Tíminn rennur hratt, en enn er samt eftir að geta frammistöðu ríkisstj. í landhelgismálinu. Hrakfallabálkurinn er eftir. Nú hefur Hafréttarráðstefna þegar skilað þeim árangri að 200 mílna reglan er af flestum talin alþjóðaregla. Samt var samið við þjóðverja til tveggja ára og um jafnmikinn afla og þeir höfðu áður tekið. Ákveðið var hve mikið þeir máttu taka árlega af hverri fisktegund, en raunin hefur orðið sú að þeir geta tekið það sem þeim sýnist því að eftirlitið er ekkert. Áður en gengið var til þeirra samninga var ákveðið og yfirlýst af ráðh, að ekki kæmu samningar til greina nema bókun 6 um tolla kæmi strax til framkvæmda. Frá þeim yfirlýsingum var fallið, en þeim gefinn frestur til 5 mánaða. Sá frestur er nú liðinn og þrátt fyrir heitstrengingar ráðh. hefur samningnum enn ekki verið frestað. Í stað 200 mílna landhelgi höfum við aðeins 23 mílna landhelgi gagnvart þjóðverjum, auk annarra samninga sem jafnvel ná allt upp að grunnlínum.

Ekki þarf að tíunda hér ofbeldisárásir breta. Það er nú svo komið að þeir hafa reynt hvað eftir annað að sökkva varðskipum okkar og nú siðast hótað loftárásum á íslensk skip. Við könnumst öll við viðbrögð ríkisstj. Þau hafa verið fólgin í því að forsrh. hefur litið málin alvarlegum augum, sem frægt er orðið. Ráðh. hafa lýst yfir því að við gætum ekki varið landhelgina. Fyrir fram hafa verið gefnar yfirlýsingar um það að við mundum ekki beita ákveðnum pólitískum gagnráðstöfunum. Send hafa verið skrifleg mótmæli, kært til Öryggisráðsins og Atlantshafsráðsins, en ekkert af þessu hefur borið neinn árangur. Síðan var fenginn Luns til landsins sem kom að lokum með tilboð sem var meira að segja lakara en breta. Sendimenn ríkisstj. hafa flaðrað upp um svokallaða vini sína í NATO, en þeir hafa hver um annan þveran sparkað þeim frá sér og lítilsvirt vegna þess að þeir vissu að ríkisstj. mundi aldrei sýna af sér manndóm, jafnvel þótt morðárásir væru gerðar á íslenska sjómenn og loftárásum hótað.

Sannleikurinn er sá, að bretar hafa alltaf haft frumkvæðið í landhelgisstríðinu. Allir leikir ríkisstj. hafa verið biðleikir. Baráttuaðferðirnar eru sleikjuháttur við NATO-herrana og skipulagt undanhald. Að mínum dómi væri lágmarkið að loka algerlega fyrir starfsemi NATO og varnarliðsins á Íslandi á meðan NATO-herskip ógna sjómönnum okkar og lífsafkomu. En allt þetta höfum við forsómað og svikið gegn ákveðnum vilja þjóðarinnar því að þjóðin kallar ofbeldismenn ekki bandamenn.

Ég sagði í upphafi, að ríkisstj. hefði ekki staðið við sín fyrirheit, og sýndi síðan fram á það. Í landhelgismálinu hefur hún lagst enn lægra. Ríkisstj. hefur svikið meira en hún hefur lofað. — Góða nótt.