14.05.1976
Efri deild: 112. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4372 í B-deild Alþingistíðinda. (3717)

282. mál, löggiltir endurskoðendur

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég vil í fyrsta lagi fagna því að þetta frv. er loks komið fram. Það hefur verið unnið að því í mörg ár og allt of lengi, og þar sem ég þekki þessi mál allmikið, hef gengið í gegnum það nám, sem hér um ræðir, og annast einnig kennslu á því sviði, þá vil ég aðeins leggja á það áherslu að þetta frv. geti gengið fram vegna þess að í þessum málum ríkir hálfgert vandræðaástand. Þessari kennslu hefur verið þannig fyrir komið að efnt hefur verið til sérstakra námskeiða sem hafa staðið í 4 ár, og þessa kennslu hafa einkum annast kennarar frá lagadeild og viðskiptadeild. En þar sem gífurlegur fjöldi nemenda sækir í þessi námskeið, þá reynist það mjög illa að halda þau. Það vantar einhverja stofnun til að taka við þessu fólki, og þetta nám hefur þegar verið skipulagt við viðskiptadeild Háskóla Íslands, það hefur þegar verið ráðinn þangað kennari til að annast það og það er mjög mikilvægt að það geti hafist strax nú í haust. Þess vegna vildi ég aðeins leggja á það áherslu, ef þess væri nokkur kostur, að þetta mál fengi að ganga fram á þessu þingi.