14.05.1976
Efri deild: 112. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4373 í B-deild Alþingistíðinda. (3722)

115. mál, íslensk stafsetning

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Þar sem herra forseti hafði í hyggju að leita eftir leyfi d. til afbrigða vegna 1. og 4. og væntanlega 5. málsins sem á dagskrá eru hér, þá vil ég fara þess á leit við hann að hann leitaði ekki afbrigða um þessi mál öll í einu lagi, heldur hvert um sig, því að það er skemmst frá því að segja, að eins og við þm, erum allir af vilja gerðir til að greiða fyrir nauðsynjamálum sem eru býsna mörg á ferðinni þessa stundina, þá erum við ýmsir sem teljum að þetta mál, nr. 4, íslensk stafsetning, sé ekki í þeim hópi, enda þurfi það sæmilegrar skoðunar við, og þar sem málið var nú rétt að afgreiðast frá Nd. og menn vilja kannske kynna sér hvað þar hefur gerst í málinu, og með hliðsjón af því að ekki verður séð að þetta sé slík þjóðarnauðsyn að ekki sé hægt að taka málið til meðferðar á mánudaginn að réttum þingsköpum, þannig að a.m.k. ein nótt líði áður en málið sé tekið fyrir, þá viljum við greiða atkv. gegn því að afbrigði verði leyfð um 4. málið. Af þeim sökum óska ég eftir að það verði sérstaklega borið undir atkv. hér.