17.05.1976
Neðri deild: 111. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4413 í B-deild Alþingistíðinda. (3805)

237. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. (Gunnlaugur Finnsson):

Hæstv. forseti. N. fjallaði um þetta frv. á fundi sinum og varð sammála um að mæla með frv. óbreyttu eins og það kom frá Ed., en þar voru gerðar lítils háttar breytingar á 2. gr. frv. í þá veru að gert er ráð fyrir að fólksfækkunarframlagið miðist við meðalútsvar í landinu. Á 1. gr. voru engar breytingar gerðar. Hún fjallar um Jöfnunarsjóðinn og nýjar reglur varðandi úthlutun úr Jöfnunarsjóði.

Ég vil þó aðeins geta þess lauslega að í grg., sem fylgir frv., er á það minnst að það sé nauðsynlegt að hafa þá heimild í lögum að geta úthlutað jöfnunarsjóðsframlagi fyrirvaralaust eða fyrirvaralítið til þess að Jöfnunarsjóðurinn geti úthlutað vegna áfalla eins og urðu í Neskaupstað. Ég vil aðeins í sambandi við þetta benda á það að hér hafa veríð til umræðu í vetur lög frá í fyrra um Viðlagasjóð, og ég vil láta það hér í ljós að ég tel að þetta sé fyrst og fremst viðfangsefni þess sjóðs, enda þótt Jöfnunarsjóður sveitarfélaga til bráðabirgða kunni að veita einhverja fyrirgreiðslu. En ég hygg að hv. þm. séu mér sammála um að þessi ákvæði viðlagasjóðslaganna þurfi nauðsynlega að endurskoða.