18.11.1975
Sameinað þing: 17. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í B-deild Alþingistíðinda. (389)

293. mál, kvikmyndasjóður

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. svörin. Það mætti vissulega margt um þau ræða. Ég fann ekki í þessum svörum rn. neina þá ástæðu sem viðhlítandi mætti teljast til þess að þessi dráttur hefur orðið á. Það var bent á önnur verkefni samhliða þessu. Það má auðvitað alltaf deila um hvað eigi að hafa forgang og spurning um það. En ég harma það sem sagt að það er ekki sjáanlegt á þessum svörum að neinu verulegu hafi um ráðið nema hrein smáatriði, svo sem varðandi það að tafist hafi að leggja símakerfi í stofnunina. Það er óneitanlega svo að það fer svolítill óhugur um mann þegar upplýst er í svari rn., sem segir kannske mest af sögunni eða alla söguna, að framkvæmdadeild Innkaupastofnunarinnar hafi tekið við byggingunni í að ég held maílok. Og þá læðist sá grunur að manni að sú sama framkvæmdadeild, sem hefur verið býsna drjúg við það stundum að tefja fyrir ýmsum framkvæmdum, hún hafi einmitt þarna gripið inn í, þó að það sé kannske rangt að ætla mönnum svo ljótt varðandi eins brýna stofnun og hér er um að ræða og þarf vissulega að koma sem allra fyrst í gagnið.

Það er sagt að þarna blandist margt fleira inn í. Það kann vel að vera. Ekki skal ég neita því að þarna þurfi um margt á endurbótum að halda. Við vitum auðvitað að málefni drykkjusjúkra í landinu í heild eru í dag í ólestri að miklu leyti. Þetta átti að vera einn liðurinn í því að lagfæra það ástand. Sá liður mun enn dragast, eins og hæstv. forsrh. sagði, um nokkrar vikur eða jafnvel, eins og mátti skilja af svari rn., um ófyrirsjáanlegan tíma enn þá. Og við t. d., sem höfum verið að vinna í áfengismálanefnd Alþ. og höfum einmitt litið alveg sérstaklega á þennan þátt mála, við sjáum ekki miklar vonir til þess að þær till., sem við erum með ýmsar í þessu efni, nái fram að ganga þegar svo fer um starfsemi og stofnun sem var eins vel undirbúin og ég tel að þessi stofnun hafi verið í tíð fyrrv. hæstv. heilbrrh.

Það kann að vera að þarna hafi eitthvað á vantað, en ég bendi á það enn og ítreka það, að ég vænti þess að smáatriði, ýmis framkvæmdaatriði, spurning um síma og annað því um líkt, verði ekki látið draga þetta mál úr hömlu enn um sinn, þessu verði komið sem fyrst í gagnið. Og ég treysti því að þau boð verði flutt rækilega upp í viðkomandi rn. og þá til framkvæmdadeildar Innkaupastofnunarinnar, ef hún er þar einnig í vegi, að þetta komist sem fyrst í gagnið því að á því er vissulega rík þörf.