18.11.1975
Sameinað þing: 17. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í B-deild Alþingistíðinda. (394)

301. mál, áætlanagerð Framkvæmdastofnunar ríkisins

Tómas Árnason:

Herra forseti. Í sambandi við áætlunargerðarstarf Framkvæmdastofnunarinnar vil ég aðeins geta þess, að ég hef frá upphafi verið fylgjandi þeirri stefnu að taka fyrir færri áætlanir heldur en fleiri og reyna þá heldur að vinna meira í þeim og hraða þeim. En sannleikurinn er sá, að þrýstingur í þessum efnum hefur verið geysilega mikill, bæði hér frá hv. Alþ., sem hefur afgr. allmargar þál. í þessum efnum, og einnig annars staðar frá, sem komið hefur gegnum stjórn stofnunarinnar. Það hefur verið sá háttur á hafður að það er gerð sérstök starfsáætlun fyrir hvert ár um sig og samþ. í stjórninni og reynt að vinna eftir henni. En það verður að segja það eins og það er, þó að það sé búið að vinna mikið starf á þessum árum að áætlunarverkefnum, þá vantar í raun og veru mannafla til þess að hraða þeim verkefnum sem óskir hafa verið um að framkvæma á tiltölulega stuttum tíma, og til þess að þetta verk geti gengið í þá veru að áætlanir séu fullkomlega tilbúnar og hægt að vinna eftir þeim, þarf geysilega mikinn mannafla og áreiðanlega meiri mannafla en tök eru á að afla með litlum fyrirvara. Þess ber að geta í þessu sambandi, og það hefur raunar komið fram hér í sambandi við umr. um Framkvæmdastofnunina, að Framkvæmdastofnunin gerir ekki áætlanir um þróun þjóðarbúskaparins í heild. Hún gerir ekki áætlanir fyrir opinberar stofnanir nema hún sé beinlínis um það beðin. Ég er þeirrar skoðunar, að þegar að því kemur að lög um Framkvæmdastofnunina verða til umr. hér á Alþ., þegar hæstv. ríkisstj. .leggur fram frv. í því efni, þurfi einmitt að ræða nauðsynina á því að koma upp vinnuaðstöðu til þess að gera heildaráætlanir sem nái raunverulega yfir þjóðarbúskapinn, þannig að menn fái heildaryfirsýn eða heildstæða mynd af því hvers þjóðin er raunverulega megnug á hverjum tíma eða hverju ári í sambandi við fjárfestingu og fjáröflun til framkvæmda.