18.05.1976
Efri deild: 123. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4530 í B-deild Alþingistíðinda. (4121)

192. mál, jafnrétti kvenna og karla

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég hlýt að vísu að lýsa yfir þeirri skoðun minni að frv. það, sem hér liggur nú fyrir til afgreiðslu, rísi ekki að öllu leyti undir nafni. Ég hygg að ætlunin hafi verið að gera betur en þetta til þess að tryggja raunverulegt jafnrétti kynjanna. Að ýmsu leyti er ég ekki ánægður með þetta frv., en ég tel að úr því sem komið er sé eigi að síður spor í rétta átt að samþ. þetta frv.

Ég hef grun um að hv. þm. Jón G. Sólnes og Albert Guðmundsson séu í raun og veru sammála mér um það að hér sé stigið þrátt fyrir allt, þegar á heildina er lítið, spor í rétta átt, því kynjunum er vissulega mismunað í störfum og launum og félagslegri stöðu á landi hér. Ég er alveg víss um, að þeir hv. þm. vilja gjarnan að úr þessu verði bætt, þó að þeir telji að hér sé að því unnið að einhverju leyti á rangan hátt. En ég tek ekki gild rök hv. þm. Alberts Guðmundssonar sem hann tíundaði í ræðu sinni áðan. Ég held að hann hafi látið blindast af hugsjónalegri afstöðu sinni til annarra mála og þess vegna ekki lítið þetta frv. að öllu leyti réttum augum. Sú afstaða, sem kom fram hjá hv. þm. áðan, er, eins og þeir segja leikritahöfundarnir, ekki að öllu leyti í karakter, því honum er eiginlegt að vilja gera rétt og hann hefur ekki gerst sekur um annað og meira í þessu en mistök sem má líkja við það að maður snýtir sér fyrst í vasaklútinn sinn og fægir svo með honum gleraugun sín á eftir.