18.05.1976
Sameinað þing: 93. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4582 í B-deild Alþingistíðinda. (4188)

Skýrsla samgönguráðherra um hafnamál

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Tímans vegna ætla ég ekki að fara langt út í þessa skýrslu, enda er aðaltilgangur með henni að hv. þm. fái hana í sínar hendur og geti séð hvernig með hefur verið farið og hvað hefur verið gert. En í stórum dráttum er það að segja, að það var unnið fyrir um rúma 2 milljarða kr. í höfnum á s.l. ári og var það hið mesta sem gert hefur verið. Í almennar hafnir fóru 1150 millj. kr., í landshafnir 829 millj. kr. og er Þorlákshöfn fyrirferðarmest af þeim svo sem kunnugt er. Hafnabótasjóður lánaði um 280 millj. kr. til hafnarframkvæmda á s.l. ári því að það fór svo sem fyrr að það skorti á að heimamenn hefðu það framlag sem þeir áttu í hafnirnar að leggja, nema með lánum frá Hafnabótasjóði.

Að öðru leyti vitna ég til skýrslunnar sjálfrar sem skýrir það fyrir hv. þm. er um hafnamál er að segja.