26.11.1975
Sameinað þing: 23. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í B-deild Alþingistíðinda. (484)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Ég harma það að hv. 9. þm. Reykv., forseti Alþýðusambands Íslands, skyldi flytja hér sem lokaorð í sinni ræðu þann boðskap að hann sæi ekkert annað fram undan heldur en atvinnuleysi, og yfirleitt fannst mér í niðurlagi ræðu hans vera fólgin mikil bölsýni á framtíðarmöguleika fólksins. Ég vil segja það fyrir mitt leyti, að mér finnst það ekki æskilegt né rétt af forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar, hvar sem þeir eru í flokki, þá finnst mér það ekki rétt gagnvart fólkinu í landinu að draga stöðugt kjarkinn úr því með úrtölum og ótímabærri svartsýni þótt erfiðleikar séu fram undan í efnahagsmálum. Þar að auki finnst mér það óviðeigandi. En maður þarf nú ýmsu að venjast hér á hv. Alþ. sem er því miður ekki allt of gott.

Mér finnst það mjög óviðeigandi að hóta Alþ. að ef þróunin verði ekki öll að skapi okkar í verkalýðshreyfingunni, þá skuli verkalýðshreyfingunni stefnt á þessa ágætu samkundu með einhverjum hætti sem mér er ekki alveg ljóst hvernig á að gerast. Það er stefna núv. ríkisstj. og hefur verið stefna ríkisstj. að forða verkalýðnum frá atvinnuleysi. Þetta hefur tekist enn sem komið er — og ég vil segja: með ágætu samstarfi við Alþýðusamband Íslands og þá alveg sérstaklega við forseta Alþýðusambandsins. Og ég hef þá trú að ef forsetinn og miðstjórn Alþýðusambandsins halda tryggð við þá stefnu, þá mundi takast að forða fólkinu í landinu frá atvinnuleysi. En ef hins vegar á að taka upp gömlu vinnubrögðin, að tengja verkalýðshreyfinguna um of við pólitíska baráttu þeirra flokka sem hafa slegið hefð sinni á verkalýðshreyfinguna, þá er ég hræddur um að því miður geti sú ógæfa dunið yfir þessa þjóð að hér skapist styrjaldarástand, e. t. v. það portúgalska ástand sem sumir vilja framkalla, en ég veit að forseti ASÍ vill ekki.

Ég held að við ættum að starfa þannig áfram í verkalýðshreyfingunni — og það er töluvert stór hluti verkalýðshreyfingarinnar sem vill vinna þannig að sínum málum — að öll ráð séu ekki sótt til ákveðinna flokka og að ákveðnir flokkar slái ekki eign sinni á fólkið í verkalýðshreyfingunni. En það er kannske sumum framandi að slíkt geti gerst árið 1975 á Íslandi, því að það átti aldrei svo að verða samkv. gömlu kenningunum. Ég held að það væri verðugra og betra verkefni, að við héldum áfram, eins og við höfum gert hingað til innan verkalýðshreyfingarinnar, að berjast gegn verðbólgudraugnum, berjast saman án þess að alltaf sé gripið til pólitískra vopna eftir flokkum, og þá er ég sannfærður um að sú mikla svartsýni og ég vil segja þreyta, sem er komin í forseta Alþýðusambands Íslands, þarf ekki að verða að veruleika í nánustu framtíð.

En það var athyglisvert í ræðu hv. 9. þm. Reykv. að hann sagði áðan að samningar við vestur-þjóðverja væru ekki útilokaðir í stuttan tíma, ef ég skildi hann rétt. Þetta er nú ekki alveg í samræmi við stefnu samstarfsnefndar Alþýðusambandsins og fleiri samtaka í þessu máli, sem mér skilst að sé sú að vera afdráttarlaust á móti öllum samningum. Og mér skilst að m. a. sé það eitt af hlutverkum þess fundar, sem á að halda á Lækjartorgi á morgun, að ítreka þessa yfirlýsingu um samstöðu á þessum grundvelli. En ég veit af fyrri reynslu að Björn Jónsson stendur við sínar skoðanir, hann gerði það hér áðan, og ég fagna því. Hins vegar finnst mér mikil stefnubreytilag hjá honum frá þeirri stefnu sem hann hafði 1973, þegar hann sagði að magnið í þeim samningi, sem við erum hér að ræða um, sé fráleitt, þ. e. a. s. 60 þús. tonn. Honum fannst það ekki fráleitt að semja við breta um 130 þús. tonn árið 1973 eða 200 þús. tonn af þorski á tveimur árum.

Hv. þm. Helgi Seljan sagði áðan: Til hvers var verið að færa út í 50 mílur á sínum tíma ef átti ekki að skila sér nú? Hv. 2. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, sagði hér fyrr í dag að rúmlega 1/3 af veiðum vestur-þjóðverja væri fyrir utan 50 mílurnar. Það þýðir að innan við 40 þús. tonn af þeim samningi, sem við erum að ræða um nú, eru veidd innan við 50 mílurnar, og það er mest karfi og ufsi. Ég tel að þetta sé veigamikill árangur í því að hreinsa 50 mílurnar, ef 130 þús. tonna samningurinn frá 1913 er hafður í huga.

Einn veigamesti þátturinn í sjálfstæðisbaráttu íslendinga á umliðnum árum hefur verið fólginn í útfærslu íslenskrar fiskveiðilögsögu. Hafa margir góðir forustumenn þjóðarinnar komið þar við sögu og þjóðin öll jafnan stutt þá í þessu lífshagsmunamáli. Í fiskveiðilögsögumálum hafa íslendingar haft forustuna meðal þjóða heims, bæði með einhliða aðgerðum í þessum efnum og í baráttunni fyrir viðurkenningu á nýjum reglum strandríkjum í hag.

Enn einu sinni höfum við riðið á vaðið með einhliða útfærslu undir forustu núv. stjórnarflokka, Sjálfstfl. og Framsfl. Er þetta tvímælalaust stærsta og mesta átak í þessum efnum lokaátak. Það er yfirlýst stefna og vilji Alþingis að íslendingar skuli einir sitja að 200 mílna fiskveiðilögsögunni. Sömu afstöðu höfðum við gagnvart 50 mílna útfærslunni, en þrátt fyrir það urðu íslendingar að semja við breta um veiðiheimildir innan við 50 mílurnar, og var það gert í ríkisstjórnartíð Alþb-manna, svo sem frægt er orðið. Þar með viðurkenndu þeir, eins og aðrir alþm. hafa orðið að gera fyrr og síðar, því miður, að þrátt fyrir einlægan vilja og góðan ásetning hefur hin einhliða útfærsla okkar ekki nægt til að tryggja sigur í fyrstu atrennu. Einhliða yfirlýsing okkar um stækkun fiskveiðilögsögunnar, sem við lítum á sem okkar eign, hefur ekki enn sem komið er öðlast lagalega viðurkenningu á alþjóðavettvangi.

Við slíkar kringumstæður eigum við íslendingar um þrjár leiðir að velja: sjálftökuleiðina, dómstólaleiðina eða samningsleiðina. Sjálftökuleiðinni eru ákveðin takmörk sett. Jafnvel hv. 2. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, og Alþb.-menn gátu ekki tryggt framgang þeirrar leiðar í vinstri stjórninni. Þess vegna gerðu þeir samninginn við breta í nóv. 1973. Dómstólaleiðin, allir eru sammála um að sú leið komi ekki til greina í þessu lífshagsmunamáli þjóðarinnar. Þá er aðeins eftir ein leið, samningaleiðin. Það er sú leið sem við fórum hér nú í fyrsta og vonandi síðasta skiptið gagnvart vestur-þjóðverjum. En aðrir hafa farið þessa leið áður, og þá voru það ekki kölluð landráð eða óþjóðhollusta, enda voru það Alþb.- menn sem tóku þátt í samningunum.

En ekki nóg með það, í umr. áðan var upplýst að aðalforustumaður Alþb., hv. 2. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, sem þekkir manna best til sjávarútvegs og fiskiðnaðar innan þess flokks, hefði í mars 1914 verið reiðubúinn til að semja við vestur-þjóðverja um 80 þús. tonna afla á ári og að 48 vestur-þýsk skip mættu stunda veiðar hér við land á 54 þús. ferkm veiðisvæði. Enn hefur þessu ekki verið mótmælt af neinum ræðumönnum Alþb. hér í kvöld. Þess vegna hlýtur þetta að vera rétt.

Sá samningur, sem hér er til umr., felur í sér 60 þús. tonna veiðiheimild til þjóðverja, 40 skip og 25 þús. ferkm svæði. Enginn gerir slíkan samning með ánægju, en ólíkt er hann betri en sá samningur sem Alþb.-menn voru greinilega reiðubúnir til að gera við vestur-þjóðverja í mars 1974.

Hv. 2. þm. Austurl. sagði í sinni framsöguræðu að við stæðum nú frammi fyrir samningum upp á 150–160 þús. tonn sem væru jafnvirði 15–20 milljarða kr. Þetta er rangt. Hér og nú er verið að ræða um samning upp á 60 þús. tonn, og þar af er um að ræða mest fisktegundir sem eru ekki í hættu vegna ofveiði. Vísa ég þar til skýrslu fiskifræðinga frá 13. okt. máli mínu til staðfestingar.

Þá vil ég víkja nokkuð að bretum og 65 þús. tonnunum. Það var vitað að bretar mundu hafna 65 þús. tonnum. Þessi hugmynd til sátta er svo fjarri því sem bretar geta hugsað sér, að með því að leggja hana fram var raunverulega verið að útiloka nokkra samninga við breta í nánustu framtíð eða yfirleitt ef hafréttarráðstefnan skilar þeirri niðurstöðu sem við öll vonumst eftir. Þess vegna er það blekking að halda því að fólki að nú sé verið að semja um 150–160 þús. tonn eða leggja drög að slíkri stefnu með þeim samningi sem hér er til umr. Það veldur mér miklum vonbrigðum að hv. 2. þm. Austurl. skuli vera með svona málflutning. Við erum að ræða 60 þús. tonna samning. En hvað skyldi vera raunverulegt verðmæti þess samnings? Sennileg skipting þessara 60 þús. tonna í afla þjóðverja gæti verið sem hér segir, miðað við fyrri reynslu og hlutföll: 35 þús. tonn væru karfi, 20 þús. tonn ufsi og 5 þús. tonn þorskur. Ég ómakaði mig við að reikna út hvað þetta mundi skila miklu verðmæti miðað við verðmætustu vinnslu. Þeir útreikningar hafa ekki legið fyrir þm., því miður, frá gagnrýnendum þessa samnings. Ef við miðum við að allur þessi afli fari í frystingu, sem gefur mest verðmæti, mundi útkoman verða í stuttu máli sem hér segir:

35 þús. tonn af karfa mundu skila við þá nýtingu, sem við íslendingar þekkjum í okkar frystihúsum, um 10 l50 tonnum af frystum flökum. Útflutningsverðmæti, cif-verðmæti, á tonn af karfa í 7 punda umbúðum til Sovétríkjanna, en þar er nú talinn besti markaðurinn fyrir karfaflök frá Íslandi sem stendur, — útflutningsverðmæti pr. tonn til Sovétríkjanna er nú í dag 990 dollarar tonnið, en það þýðir á því gengi, sem nú er á dollaranum, að þessi 10 150 tonn mundu skila sem svarar 1 678 millj. kr.

Þá skulum við líta á ufsann, 20 þús. tonn. Með þeirri nýtingu, sem við þekkjum hér, og framleiðslu í 7 punda flakapakkningu mundu 20 þús. tonn gera ca. 7 200 tonn af frystum ufsaflökum. Cif-útflutningsverð á tonn til Sovétríkjanna af ufsaflökum er nú 895 dollarar tonnið eða þessi 7 200 tonn mundu gefa ca. 1077 millj. kr.

Þá skulum við líta á þorskinn og gefa þorskinum það mesta verðmæti sem hann getur fengið, sem er að frysta og framleiða flök í 5 punda pakkningu fyrir Ameríkumarkað, en það er dýrmætasta þorskflakapakkningin sem stendur. Þessi 5 000 tonn mundu skila 1 560 tonnum af frystum flökum í slíkri pakkningu fyrir Ameríkumarkað. Miðað við það verð, sem við þar höfum, mundu það verða að jafngildi 583 millj. kr.

Samtals í þessari nýtingu mundu 60 þús. tonn gera 3 338 millj. kr. cif brúttó.

Af þessu má sjá, að ef hv. þm. leggja sig einu sinni niður við það að reikna út sínar fullyrðingar í millj. kr., þá fá þeir allt aðrar tölur en þeir eru að gaspra með hér í þingsölum. Þess vegna segi ég það, að fullyrðingar stjórnarandstæðinga um þetta samkomulag, sem hér er til umr., þ. e. samkomulag við vesturþjóðverja, en ekki aðrar þjóðir, þær fullyrðingar, að þetta samkomulag muni leiða yfir þjóðina kreppu, atvinnuleysi og lífskjaraskerðingu upp á 16–20 milljarða kr., eru helber og órökstuddur þvættingur og ekki frambærilegt að halda slíku að þjóðinni, auk þess sem það er vísvitandi blekking og alveg ótrúleg forherðing að halda því fram að óútkljáð deilumál við aðrar þjóðir séu orðin staðreyndir, samningar, og þeim gefin ákveðin fjármálaleg stærð. Ég leyfi mér að segja, að ég efast um að svona málflutningur eins og hv. stjórnarandstæðingar hafa verið með gagnvart þessum tölum þekkist lengur í málfundafélögum gagnfræðaskólanna. Þess vegna veit ég að þjóðin lætur ekki blekkja sig með þessum hætti. Þeir tímar eru liðnir, að sjónhverfingamenn eða æsingamenn villi fyrir þjóðinni í málum sem þessu og vefi þann blekkingavef sem nú er verið að vefa af stjórnarandstæðingum.

En vel á minnst, hvert skyldi núgildi breska samningsins frá 1973 vera ef hliðstæðar reikningsaðferðir, sem ég mæli ekki með, eru viðhafðar eins og hv. 2. þm. Austurl. hefur notað hér í dag? Hvað skyldu 200 þús. tonn af þorski, sem bretar hafa veitt á árunum 1974–1975, vera á núgildi? Vildu hv. stjórnarandstæðingar ekki reikna það út? Það er ekkert smáræði. Það eru 70 þús. tonn af frystum fiskflökum, svo að dæmi sé nefnt. Það yrði örugglega með þeim útreikningum, sem þeir nota, 30–40 milljarðar kr., en réttar reikningsaðferðir mundu sýna rúmlega 20 milljarða útkomu. En ég vil segja það, að það væri jafnrangt að segja nú að vegna samninganna við breta 1973 sé afkoma þjóðarinnar 30–40 millj. kr. lakari en ella, eins og nú er fullyrt af stjórnarandstæðingum að nú sé verið að semja við útlendinga um veiðiheimildir er feli í sér 15–20 milljarða kjaraskerðingu, auk þess sem það er reikningslega rangt, svo sem fyrr er frá greint.

Á grundvelli ályktunar Alþ. frá því 15. febr. 1972, sem gerð var í tíð vinstri stjórnar, hefur verið unnið að því að ná samkomulagi við Sambandslýðveldið Þýskaland. Er þetta ekki fyrsta tilraun í þessum efnum því að viðræður hafa farið fram við Sambandslýðveldið undanfarin 3 ár án árangurs. Það skýtur því skökku við að nú allt í einu skuli sumir þm. lýsa því yfir að samningsgerð í þessu máli sé tilræði við íslensku þjóðina. Ég held að þeir, sem nú tala hvað harðast gegn framlögðu samningsuppkasti, geri sér jafnvel grein fyrir því nú eins og þeir hafa gert áður að með samningum séu meiri líkur fyrir að útlendingar veiði minna magn á íslenskum fiskimiðum en ella.

Allir þm. hafa viðurkennt samningsleiðina sem slíka. Það þýðir ekkert nú að afneita þessari staðreynd né reyna að telja þjóðinni trú um að aðrar leiðir séu færari. Hins vegar er það annað mál, að við getum staðið frammi fyrir þeirri staðreynd að gagnaðilar séu óviðræðuhæfir, eins og nú á sér stað í sambandi við breta. Þá verðum við að bregðast við því samkv. því sem við okkur blasir, og ég er þess fullviss að íslenska þjóðin mun standa saman sem órofa heild í þeirri baráttu og axla þær byrðar sem slíku stríði fylgja.

Vil ég þá víkja nokkuð að samningunum við vestur-þjóðverja. Ég tel mikils vert að við stöndum ekki í stríði við bæði breta og vesturþjóðverja samtímis. Með því að semja við vesturþjóðverja getum við einbeitt okkur að bretum og varið það sem verðmætast er, sem er að mínu mati þorskstofninn. Auk þess vil ég tíunda eftirfarandi sem áunnist hefur frá fyrri stöðu í þessu máli gagnvart vestur-þjóðverjum:

Samningur þýðir að við höfum vald yfir veiðum þjóðverja á Íslandsmiðum. Það er tvímælalaust íslendingum hagstæðara en enginn samningur. Reynslan hefur sannað það.

Í öðru lagi: Viðurkenning vestur-þjóðverja á rétti íslendinga til samninga um veiðar erlendra aðila innan 200 mílna fiskveiðilögsögu er mikils virði. Ég vísa til þeirra efnisatriða í samningum sem fela í sér þessa viðurkenningu og tel óþarft að lesa það upp fyrir þingheimi því að það er svo ótvírætt.

Í þriðja lagi fara vestur-þjóðverjar í burtu með frysti- og verksmiðjutogara út fyrir 200 mílur.

Í fjórða lagi: Veiðimagn er 60 þús. smál., í stað þess að þjóðverjar voru með 91 700 smál. árið 1973 þegar þeir höfðu frið til veiða á þeim fiskimiðum sem um er að ræða.

Í fimmta lagi: Fjöldi vestur-þýskra togara verður 40 í stað þess að þeir hefðu hugsanlega getað orðið 47 eða 48, eins og fyrrv. sjútvrh. var reiðubúinn til þess að taka jákvæða afstöðu til.

Í sjötta lagi vil ég vekja athygli á því, að meðalaldur þeirra skipa, sem eru á listanum, er mjög hár. Af þessum 40 skipum eru 26 skip byggð fyrir 1961. Það þýðir að þessi skip eru að komast á þann aldur að það þarf að fara að klassa þau upp með miklum tilkostnaði, og ég tel öruggt að það muni vestur-þjóðverjar ekki gera.

Í sjöunda lagi getum við beint allri orku landhelgisgæslunnar í að verjast ágegni annarra þjóða og þá sérstaklega breta gagnvart þorskstofninum.

Í áttunda lagi tel ég að stað:a Íslands á hafréttarráðstefnunni verði betri með því að íslendingar sýni samningsvilja og semji með þeim hætti sem hér um ræðir við vestur-þjóðverja.

Í níunda lagi vil ég vekja athygli á því, að með því að gera þennan samning verða íslendingar ekki eins háðir Bandaríkjunum og Sovétríkjunum í sölu ufsa og karfa og ella væri. Nú kann einhver að spyrja: Skiptir það nokkru máli? Og ég vil svara þessu til um það: Það er mjög nauðsynlegt fyrir íslendinga að gera sér grein fyrir því, að það er ekki nóg að veiða fisk, það þarf einnig að selja fisk Ef það er haft í huga að fiskveiðiflotinn hefur tekið miklum stakkaskiptum, m. a. í stjórnartíð fyrrv. sjútvrh., Lúðvíks Jósepssonar, þannig að í stað þess að treysta á smærri fiskiskip, þá verðum við í nánustu framtíð að treysta fyrst og fremst á 70–80 togara. Togarar stunda allt aðrar veiðislóðir heldur en minni fiskiskip, það vita allir sem hafa stundað sjómennsku og þekkja til útgerðar. Togarar geta ekki veitt og veiða ekki annað en karfa og ufsa ákveðinn tíma árs, þ. e. einkum frá því í júlí og fram í sept. Við höfum átt í miklum erfiðleikum með að selja það sem þegar hefur aflast af karfa og ufsa, og þær sölur hafa einkum átt sér stað til Sovétríkjanna og þar hefur verið ágætur markaður, sérstaklega fyrir karfa, og til Bandaríkjanna. Þrátt fyrir það að veiðiflotinn var ekki samsettur með þeim hætti sem ég gat um áðan, höfum við átt í erfiðleikum með að selja þann litla afla tiltölulega vil ég segja, af karfa og ufsa til þessara tveggja meginmarkaðsríkja. Þessir fáu togarar, sem við áttum fyrir nokkrum árum, sigldu oft til Þýskalands, þannig að það létti dálítið á pressunni í sölumálum á karfa og ufsa til Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. En nú stöndum við frammi fyrir því, að ofan á þetta ástand, sem verið hefur, að það hefur verið erfitt að selja þessar afurðir í þessum bestu markaðslöndum okkar, þá erum við með togaraflota sem krefst þess að þriðji möguleikinn sé opinn í sambandi við sölu karfa og ufsa og það einmitt á þeim mánuðum sem ég gat um áðan. Þess vegna segi ég og ég er sannfærður um að íslenskir sjómenn munu skilja það, að það er þeim og þjóðinni í hag að íslenskir togarar geti — ég vil segja: selt þann umframafla sem við getum ekki selt á okkar bestu mörkuðum til þessa, — að þeir geti selt þennan afla, karfa og ufsa, í Þýskalandi, auk þess sem ég vil leyfa mér að halda því fram að ef þessi markaðsmöguleiki verður ekki fyrir hendi, þá getum við horft upp á það að ákveðnum hluta togaraflotans verði lagt tiltekinn tíma á ári, í 2–3 mánuði. Slíkt mundi auðvitað hafa í för með sér lífskjaraskerðingu og atvinnuleysi hjá því fólki sem treystir á afkomu sína í sambandi við þá nýju togaraútgerð sem m. a. fyrrv. sjútvrh. Lúðvík Jósepsson átti ríkan þátt í að byggja upp. Þess vegna er það ekki rétt þegar því er haldið fram — ja, ég segi: af sumum félögum mínum í verkalýðshreyfingunni, að þessi samningur leiði tortímingu og atvinnuleysi og erfiðleika yfir íslenskan verkalýð. Ég vil segja, að þessi samningur geti frekar tryggt það, að það komi ekki atvinnuleysi, einmitt vegna þess að togaraflotinn krefst þess, hann útheimtir það að fá þennan möguleika ákveðinn tíma á ári í okkar fisksölumálum.

Þetta hefur haft mikil áhrif á mig í afstöðu minni til þeirrar samningsgerðar sem hér um ræðir. Ég tel það mikinn ábyrgðarhluta gagnvart íslenskri verkalýðshreyfingu að útiloka sem sagt íslenska togaraútgerð frá þeim möguleikum sem hér er um að ræða, auk þess sem ég er þeirrar skoðunar að með því að gera þennan samning, sem ég vil segja að frá sjónarmiði þjóðverja sé undansláttarsamningur frá þeirra sjónarmiði séð, — það er mín skoðun að með því séu þeir raunverulega að taka fyrsta skrefið í þá átt að ljúka sinni útgerð og sínum útgerðarrekstri á Íslandsmiðum. Ég gæti best trúað því að þeir séu búnir að ákveða að þessu sé raunverulega lokið og það sé tímaspursmál hvenær þeir fari alveg og þá vilji þeir gjarnan hafa gert samning við íslenska aðila með tilliti til framtíðarinnar. Og ég segi það hér, að ég trúi því ekki að það sé nokkur þm. hér inni sem vilji útiloka það, að það komi til greina í nánustu framtíð að íslendingar hafi góða markaðsmöguleika í Vestur-Þýskalandi og á meginlandi Evrópu yfirleitt. Auk þessa hlýtur það að vera einhvers virði, það hefur stundum þótt góð latína í samningum að kljúfa gagnaðila. Ég tel að með því að semja við vestur-þjóðverja með þeim hætti sem það er gert, þá höfum við rekið ákveðinn fleyg inn í Efnahagsbandalagslöndin, og ég er sannfærður um að sá fleygur er bretum ekki þóknanlegur, nema síður sé.

Að endingu mætti svo auðvitað ræða um það, sem er ekki rétt á þessu stigi, en hlýtur að verða umræðuefni hér á þingi síðar, það er að reynist skýrsla Rannsóknaráðs rétt varðandi þorskstofninn, sem er ekki aðalumræðuefni hér í sambandi við þennan samning því að hér er fyrst og fremst verið að ræða um karfa og ufsa, en reynist það rétt að þorskstofninn sé jafnilla farinn og sú skýrsla kveður upp úr um, þá held ég að það sé nú orðið tímabært fyrir :alþm. alla, hvar í flokki sem leir eru, að gera það upp við sig hvernig þeir ætla að tryggja framtíð íslensku þjóðarinnar, hvernig þeir ætla að tryggja framtíð þúsunda ungmenna, hvaða atvinnugreinar ætlum við að byggja upp, ef þetta skyldi reynast rétt. Ef þetta skyldi reynast rétt, segi ég, því að ég vil ekki trúa því. Ég ætla ekki að gera lítið úr fiskifræðingum, en ég hef heyrt marga góða útgerðarmenn segja gegnum árin að fiskifræðingar hafi ekki alltaf rétt fyrir sér, og ég segi hér og nú: Ég vona að þeir hafi ekki rétt fyrir sér í sambandi við þorskstofninn,ekki vegna þess að það standi til að semja við breta, heldur vegna stöðu íslensku þjóðarinnar almennt.

Við munum auðvitað ræða það hér síðar hvernig við ætlum að treysta framtíð og atvinnuuppbyggingu þjóðarinnar, hvort sem þetta verður eða verður ekki. En við skulum þá gefa okkur verstu forsendur og sjá til hvort alþm. axli það hlutverk að leggja þjóðinni til rétta stefnu og framkvæmd sem tryggi fólki hér lífvænlega framtíð við góðan atvinnurekstur, Þá reynir á hvort þeir menn, sem hafa talað harðast gegn þessum samningi, séu menn til að taka afstöðu til þess sem gera þarf, en einangri ekki þjóðina þannig að hér búum við við vesæld og aumingjaskap í framtíðinni. Ég mun ekki taka þátt í því að einangra þjóðina frá öðrum þjóðum, með sérstöku tilliti til þessa.

Ég hef trú á íslendingum, getu þeirra og hæfileikum. Samskipti mín við alþýðu manna hefur sannað fyrir mér að góðir Íslendingar horfa á málalok, en láta ekki augnabliksæsing villa um fyrir sér. Það að ætla að stefna að því að einangra þjóðina algerlega frá Vestur-Evrópu er tilræði við framtíð lýðræðis og þingræðis í landinu og tilræði við unga fólkið í landinu. Framtíð og tilvera íslensku þjóðarinnar krefst þess að rétt sé staðið á því að íslendingum verði tryggð yfirráð yfir 200 sjómílna fiskveiðilögsögli á viðurkenndan hátt í reynd.