27.11.1975
Sameinað þing: 25. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 861 í B-deild Alþingistíðinda. (513)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti, góðir hlustendur. Eftir að haldnar hafa verið í þessum umr. í gær og í dag 40 ræður þm., sumar mjög ítarlegar og málefnalegar, er mér sá vandi á höndum að velja hvaða málsatriði ég ætti helst að taka hér til meðferðar.

Þegar reynt er að virða fyrir sér landhelgismálið allt í heild og hagsmuni Íslands í bráð og lengd, þá munu mörgum finnast í fyrsta lagi áleitin þessi spurning: Hefur verið reynt til þrautar að ná hinum hagkvæmustu samningum við þjóðverja? Er hugsanlegt að þoka þjóðverjum lengra í átt til okkar, að ná betra boði? Ef þess væri einhver kostur eða einhver von, einhverjar líkur, þá væri einsætt að reyna enn.

Í löngu samningaþófi verður alltaf meira og minna af óskum og kröfum sem aðilar ná ekki fram. Svo er einnig hér. En á einhverju stigi finna menn hvenær komið er á leiðarenda og hvenær taka verður ákvörðun. Þegar við, sem tókum þátt í þessum viðræðum við vesturþjóðverja í okt. og nóv. í Reykjavík og í Bonn, bárum saman ráð okkar um þessa spurningu undir lok samningaviðræðna í Bonn fyrir réttri viku, 20 nóv., þá vorum við allir á einu máli um það, að þau drög, sem þá lágu fyrir, væru það ýtrasta, sem unnt væri að ná. Þessi skoðun var og er studd af mörgum rökum. Ég skal telja fram nokkur þeirra.

Lítum fyrst á aflamagnið, 60 þús. tonn. Það er helmingur þess sem þjóðverjar veiddu hér við land að meðaltali undanfarinn áratug, áður en deilur hófust. Í marsmánuði 1974 stakk þáv. sjútvrh. upp á 80 þús. tonnum til handa þjóðverjum í samningsdrögum. Um það náðist ekki samkomulag. Þegar okkur hefur nú tekist að fá þjóðverja til að ganga inn á 60 þús. lestir sem hámark, þá hefur að sjálfsögðu, miðað við þessar staðreyndir sem ég nefndi, mikið áunnist. Við vitum að að mati þjóðverja er þetta aflamagn komið á það stig að sumir þeirra telja vafasamt að það borgi sig að semja, og þess urðum við varir að sumir þeirra töldu jafnvel betra að hafa ósamið, eins og verið hefði, heldur en að fallast á þetta aflahámark.

Við skulum líta í öðru lagi á frystitogarana sem í rauninni hafa verið ásteytingarsteininn og þjóðverjar stóðu lengi vel fast á að heimta veiðiheimildir fyrir. Nú er fallist á það að enginn frystitogari verði innan 200 mílna lögsögunnar.

Ef við lítum í þriðja lagi á fjölda skipa, þá var það í fyrra í okt., þegar viðræður fóru fram úti í Þýskalandi, að þá hafði samninganefnd sú, sem að málinu vann af hálfu íslendinga, gert drög að samkomulagi sem ekki náði samþykki, eins og kunnugt er, þar sem gert var ráð fyrir 57 skipum samtals. Nú er gert ráð fyrir 40 skipum sem hámark.

Ef við lítum á fiskstofnana og fisktegundirnar, þá er það öllum kunnugt að þorskstofninn er viðkvæmastur, hann er í mestri hættu fyrir ofveiði og um leið er hann mikilvægastur fyrir okkur íslendinga, bæði að magni og verðmæti. Áður, þ. e. a. s. í fyrri umr. við þjóðverja, voru engar takmarkanir settar um hversu mikið mætti veiða af þorski. T. d. var ekkert slíkt í þeirri uppástungu sem fyrrv. sjútvrh. gerði í marsmánuði 1974. Í þessum samningsdrögum frá í fyrra var hins vegar farið inn á þá leið að setja hámark á þorskafla, 10 þús. tonn. Nú í þessum samningsdrögum er svo ákveðið, að þjóðverjar hætti að stunda þorskveiðar. Hins vegar er öllum ljóst að þegar veiddar eru aðrar tegundir, sem nú verða ufsi og karfi, þá hlýtur eitthvað að slæðast með af þorski og er sett algert hámark í samninginn 5000 tonn. Hér hefur vissulega í ákaflega mikilvægu og viðkvæmu máli náðst mikill árangur.

Ef við lítum á veiðisvæðin, þá getum við einnig rakið þá sögu að ef við tökum stærð veiðisvæðanna, þá var í þeirri uppástungu, sem fyrrv. sjútvrh. Lúðvík Jósepsson gerði í mars 1974, þ. e. a. s. fyrir rösku hálfu öðru ári, gert ráð fyrir veiðisvæðum til handa þjóðverjum að stærð 54 þús. ferkm innan 50 mílna. í okt. í fyrra, í drögunum þá, var stærðin komin niður í 42 þús. ferkm. Nú í þessum samningsdrögum er stærð þessara veiðisvæða samtals ekki 54 þús., ekki 42 þús., heldur 25 þús. ferkm innan 50 mílna. En það er auðvitað rétt, að það er ekki stærð veiðisvæðanna eða tala ferkm sem hér skiptir öllu máli, heldur hvaða mið, hvaða veiðisvæði er um að ræða. Í fyrri viðræðum hefur jafnan verið krafa þjóðverja að komast að einhverjum svæðum upp að 12 mílum, og í þeim uppástungum, sem voru fyrirliggjandi bæði í mars 1974 og í okt. sama ár, var farið miklu nær landi heldur en nú er, 19–20 mílur, auk þess að snerta 12 mílurnar einnig. Nú er þó hvergi farið nær landi en 23 mílur. Ef við minnumst á einstök veiðisvæði, þá er kannske rétt að nefna það svæðið sem kannske mest hefur verið rætt í þessum samningsviðræðum, og það er Víkurállinn fyrir Vestfjörðum.

Í fyrri till., bæði till. Lúðvíks Jósepssonar frá því í mars 1974 og í samningsdrögunum frá því í okt. sama ár, var gert ráð fyrir því að þjóðverjar fengju að veiða á verulegum hluta Víkurálsins eða upp að 36–37 sjómílum frá landi. Nú er Víkurállinn hins vegar lokaður þjóðverjum samkv. þessum drögum, þannig að það er 50 mílna lína sem dregin er við mynni hans eða utan við hann. Þannig hefur þessu viðkvæma veiðisvæði verið bjargað undan veiðiskap þjóðverja með þessum samningsdrögum.

Það er rangt, sem kom fram í þessum umr. áðan, að þjóðverjar tryggi sér með þessum samningsdrögum næstum öll veiðisvæði sem þeir hafa notað og óskað eftir. Þetta eru algerlega staðlausir stafir. En um leið og nefnd eru veiðisvæði er nauðsynlegt að nefna einnig verndarsvæði og friðunar, því að eitt mikilvægasta verkefni okkar er nú að vernda hrygningarstöðvar og uppeldi og kosta kapps um að koma í veg fyrir ofveiði og rányrkju. Þetta snýr að okkur sjálfum fyrst og fremst. Við íslendingar verðum að gera strangar kröfur til okkar sjálfra í þessum efnum. En um leið og við gerum það, sem ég vona að verði, þá kemur það ekki að fullu gagni ef erlend skip leika lausum hala. Í samningaumræðunum við þjóðverja var lögð á það áhersla að þeir skyldu virða friðunar- og verndunaraðgerðir okkar, og þetta er tryggt í þessum samningsdrögum, bæði varðandi þau friðunarsvæði, sem nú eru, og þau, sem við síðar ákveðum að taka upp. Ef hins vegar ekki er samið, þá er ljóst að hinir erlendu aðilar munu fara sinna ferða. Að því er þjóðverja snertir má gera ráð fyrir því að þeir kæmu hingað með frystitogara á Íslandsmið. Við ráðum þá engu um tölu þeirra skipa, þeir mundu veiða eins og þeim sjálfum sýndist, ekki víst að þeir mundu taka tillit til okkar verndar- og friðunaraðgerða, auk þess sem þeir væru ekki bundnir af neinum samningum um hámarksafla. Og væntanlega mundi þá ekki vera sinnt um þau samningsákvæði, sem eru í þessum drögum, að þorskaflinn skyldi aldrei vera meiri en 5000 lestir, heldur mundu þeir þá vafalaust veiða margfalt meira af þorski, eins og þeir hafa gert um ýmis undanfarin ár.

Þegar þetta er rakið, hvernig samningsstaðan er, og að það er mat okkar, sem að þessu stóðum, stutt af þessum rökum, sem ég nefndi, og mörgum öðrum, að ekki verði náð lengra, þá liggur það fyrir að ekki þýðir að ætla sér að halda áfram samningum að sinni, heldur liggur það nú fyrir Alþ. íslendinga að taka ákvörðun um það, sem fyrir liggur, velja eða hafna. Ein meginástæða í mínum huga fyrir því að samþykkja þennan samning er að það sé hagkvæmara fyrir íslendinga að semja vegna þess að með þeim hætti munu þjóðverjar veiða minna á Íslandsmiðum heldur en án samnings og við höfum betri möguleika til þess að stjórna veiðunum, skipuleggja þær og beita friðunar- og verndaraðgerðum.

Andstæðingar þessa máls byggja fyrst og fremst á einni aðalástæðu. Hún er þessi: Það er verið að gefa þjóðverjum 60 þús. tonn. Ef ekki er samið, þá höfum við 200 mílurnar algerlega fyrir okkur. — Þetta er sú stóra villa, hin alranga forsenda sem í rauninni öll þessi andstaða við samninginn byggist fyrst og fremst á: Lúðvík Jósepsson segir: Við getum varið landhelgina gegn öllum erlendum veiðiþjófum bara með því að beita t. d. klippingum, eins og hefur verið gert nú að undanförnu. — Ég hélt að klippur hefðu verið til í tíð Lúðvíks og þeim hefði verið beitt þá stundum. En þetta var ekkert nýr boðskapur. Við heyrðum meðan hann var sjútvrh. oft og einatt frá honum að við gætum varið landhelgina og jafnvel að bretar væru í þann veginn að flýja af miðunum. En um sömu mundir og hann lýsti þessu yfir, þá greiddi hann hér á Alþ. atkv. með því að semja við breta til tveggja ára og veita þeim heimild til þess að veiða 130 þús. tonn á ári, sem var aðallega þorskur, eins og allir vita. Þessar fullyrðingar hv. þm. fyrr og síðar um, að það sé enginn vandi fyrir okkur að verja landhelgina, hafa bara ekki staðist reynsluna, því að um leið og við berum hið fyllsta traust til landhelgisgæslunnar og vottum þakkir og aðdáun þeim duglegu starfsmönnum þar, sem nú sýna hyggindi, einurð og snarræði, þá verðum við auðvitað að minnast þess að landhelgisgæslunni eru takmörk sett vegna skipakosts og flugvéla m. a. Og reynslan sýnir að jafnvel á þeim tímum þegar landhelgisgæslan gat einbeitt sér að þýsku togurunum, þá veiddu þeir samt sem áður 68 þús. tonn hér við land. Þær tölur, sem hér hafa verið fluttar í þessum umr. um að á þessu ári veiði þjóðverjar ekki meira en 40 þús. tonn, eru óstaðfestar og enginn hefur fengist til að upplýsa þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir hvaðan þær eru fengnar. Við höfum, eins og hæstv. utanrrh. minntist á, gert ítrekaðar tilraunir til þess að fá upplýsingar um þetta frá opinberum aðilum, en ekki fengið. Sennilegast þykir mönnum nú að Lúðvík Jósepsson hafi búið þessar tölur til.

Það kom fram í ræðu hv. 3. þm. Reykn., Gils Guðmundssonar, að Sjálfstfl. hefði ekki af miklu að státa í landhelgismálum, dragbítur hefði hann verið í þeim málum og hann notaði fleiri falleg orð, heybrækur o. s. frv., sem er harla ólíklegt þeim orðprúða manni. Hann vildi halda því fram, að vinstri stjórnin væri upphafsaðill að 200 mílunum, vegna þess að á landhelgisráðstefnunni hefði það mál verið flutt. Ég rengi það ekki að fulltrúar þáv. stjórnar hafi orðað það á landhelgisráðstefnunni að við mundum gjarnan vilja fá 200 mílur. En hins vegar tala bara staðreyndirnar hér heima að þátt þeir hafi orðað þetta einhvers staðar úti í heimi, þá stóðu þeir gegn því hér heima fyrir að Alþ. ákvæði að færa út í 200 mílur á ákveðnum tíma. Sjálfstfl. flutti um það þáltill. fyrir réttum tveimur árum, í okt. 1973, að færa fiskveiðilandhelgina út í 200 mílur eigi síðar en 31. des. 1974. Sú till. fékkst ekki samþ. vegna þess að þáv. stjórnarflokkar voru henni andvígir. En það er ekki aðeins það, heldur lýsti um þessar mundir Lúðvík Jósepsson því yfir í blaði sínu Þjóðviljanum, með leyfi hæstv. forseta, að „í dag stöndum við í baráttu um 50 mílna landhelgi, þessi barátta skiptir nú öllu máli. Hitt er allt annað mál, hvort við íslendingar tökum okkur 200 mílna landhelgi einhvern tíma í framtíðinni, þegar slíkt er heimilt samkv. breyttum alþjóðalögum eða að lokinni hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.“ Áhuginn var nú ekki meiri þá, í sept. 1973: Við getum fært út í 200 mílur einhvern tíma í framtíðinni.

Herra forseti. Ég skal nú ljúka þessu máli þar sem ræðutíminn er á enda. En ég vil aðeins minnast á það að lokum að hver ræðumaður stjórnarandstöðunnar eftir annan kemur hér upp í ræðustól og talar í nafni allrar þjóðarinnar. Ræðumenn Alþb., Alþfl. og jafnvel SF, allir tala þeir í nafni allrar þjóðarinnar: Öll þjóðin er á móti þessum samningi. Og m. a. vitna þeir í hinn glæsilega og fjölmenna útifund í Reykjavík í dag. Nú vitum við það allir, sem hér sitjum á Alþ., að aðstandendur þess fundar urðu fyrir sárum vonbrigðum vegna þess hve fámennur hann var eða miklu fámennari en þeir höfðu látið sig dreyma um. Og í sannleika sagt er það næsta furðulegt að þegar jafnfjölmenn launþegasamtök boða til fundar eins og hér var, Alþýðusamband Íslands, Verkamannasamband Íslands, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Sjómannasambandið og öll stjórnarandstaðan, m. a. Alþb. með allt sitt skipulag, þá skyldu þeir ekki fá fjölmennari fund. Þar hafa verið í mesta lagi 4000 manns Það þykir nú ekki mikið hér. Eftir hinum nákvæmustu heimildum, sem unnt hefur verið að afla hér, er það algert hámark að það hafi verið 4000 manns á þeim fundi.

Það er hins vegar ákaflega mikil smekkleysa hjá þeim, sem að þeim fundi stóðu, að boða hann til þess samtímis að mótmæla herskipainnrás breta og þeim samningi sem liggur hér fyrir Alþ., samningsdrögum við vestur-þjóðverja. Það er vitanlegt að allir landsmenn vilja mótmæla ofbeldi og innrás breta. Hitt er annað mál, að þegar þessir menn þykjast tala hér í nafni þjóðarinnar, þá er alveg ljóst mál að það gera þeir ekki.

Hér á Alþ. stendur mikill meiri hl. þings með þessum samningum. Það verða yfir 40 þm. af 60, sem greiða væntanlega atkv. á morgun með þessum samningi. Þessir menn, sem hér tala, hafa ekkert umboð til að tala í nafni íslenskrar þjóðar allrar.