27.11.1975
Sameinað þing: 25. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í B-deild Alþingistíðinda. (519)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Án efa er nú allt sagt sem segja þarf og ekki miklar nýjungar sem ég kem til með að segja hér. En það furðar mig í raun og veru hvað menn eru öruggir um það að vopnlaus þjóð geti farið þær hinar sömu leiðir að sínu marki eins og kjarnorkuveldin eða stórþjóðir. Við vitum þó að útfærsla landhelgi er viðkvæmt alþjóðadeilumál. Og við vitum að hægt er að ná sínu marki, það hefur okkur lukkast, en við höfum orðið að fara að eins og lagt er til að farið sé að nú. Þrátt fyrir öll þau stóru orð sem hér hafa verið sögð, þá sýnir okkar saga í þessum efnum þegar við færðum út í 12 mílurnar, þegar við færðum út í 50 mílurnar og nú, þá eru í raun og veru allir flokkar og allir aðilar sammála um að semja beri við útlendinga, hvaða stjórn sem við völd er. Fyrstu mánuði eftir 12 mílna útfærsluna var vinstri stjórn við völd. Án efa hefur landhelgisgæslan fengið að njóta sín þá, en þá veiddu útlendingar í okkar landhelgi. Síðan tók við önnur stjórn, útlendingar veiddu í okkar 12 mílna landhelgi áfram, og það var fyrst þriðja stjórnin sem náði samningum og friðaði endanlega 12 mílurnar. Hið sama hefur skeð með 50 mílurnar, þær eru ekki friðaðar enn þá, og þess vegna er það nokkuð langt sótt að núna, rúmum mánuði eftir útfærslu í 200 mílur, sé því haldið fram af hv. þm. að það sé vafasamt hvort það hafi verið nokkur meining á bak við það að færa út, úr því að það sé ekki búið að friða 200 mílurnar.

Það er nefnilega ansi mikill munur á því að gefa út reglugerð uppi í stjórnarráði eða að framkvæma efni hennar. Þetta á ekki bara við um landhelgismál, þetta á við um fjölda annarra mála. Og ég verð að segja það, að það ber öllum saman um að okkur hafi farnast vel, við höfum farið rétt að, við höfum gert okkur ljóst að við komumst ekki á leiðarenda nema taka tillit til annarra.

Bretar og þjóðverjar munu veiða um 80% af þeim afla við Ísland sem útlendingar taka. Og með því móti að semja nú við þjóðverja friðum við meira en helminginn af öllu því hafsvæði, sem er innan 200 mílnanna, algjörlega fyrir þjóðverjum. Og þetta skyldi maður nú halda að væri metið og vegið og væri metið mikils. En það virðist ekki aldeilis um það að ræða eftir þeim ræðum sem hér hafa komið fram nú þessa dagana. Þjóðverjar, eins og margoft hefur verið tekið fram, veiða ufsa og karfa fyrst og fremst. Og það er skoðun mín að þó að þessir 40 togarar sem þýðir að hér verða um 20 þýskir, gamlir togarar á miðunum á hverjum tíma, þó að þeir veiði ufsa og karfa að mestu leyti hér, þá muni það ekki þurfa að trufla veiðar íslendinga.

Ég lít þannig á að ef þessi samningur, sem nú stendur til að gera verður meira en 5 mánaða gamall, ef það verður 2 ára samningur, þá muni hann skapa atvinnuöryggi og betri afkomu fyrir a. m. k. sum byggðarlög í þessu landi, og til þess vil ég færa fram tvær ástæður. Í fyrsta lagi gagnvart Suðvesturlandinu mun hann skapa markaðsöryggi og hækkað verð á ufsa og karfa. Og í öðru lagi mun hann tryggja afkomu rækjuvinnslunnar sem er stórt atvinnuspursmál fyrir Vestur- og Norðurland, og þetta álít ég að séu mjög stór atriði svo framarlega sem þessi samningur verður meira en 5 mánaða gamall. Það er ég aftur á móti ekki svo viss um.

Að sjálfsögðu verður mönnum tíðrætt um skýrsluna svörtu. En hins vegar hefði engum okkar átt að koma á óvart að fá svona skýrslu í hendur. Það er þó vitað mál að það er fyrst og fremst þorskurinn sem er í stórhættu, og það liggur stórt verkefni fyrir hv. alþm. og það er að gera sér grein fyrir því hvernig á að tryggja viðkomu íslenska þorskstofnsins. En það er mál sem þessi samningur hefur að mínu viti ekki mikil áhrif á.

Ef þessi samningur verður gerður náum við stórkostlegri friðun á okkar 200 mílna svæði fyrir annarri af tveimur aðalfiskveiðiþjóðum sem hér veiða, og þetta tel ég vera mjög mikils virði. Hins vegar er jafnaugljóst að við verðum að tryggja það að þorskstofninn fái að vaxa upp, að hrygning fái að vera eðlileg, og þar með að hindra að ekki verði tekið tillit til skýrslunnar í þessu efni. En þótt þjóðverjar fái að veiða hér svipað veiðimagn og þeir hafa gert og þó minna næstu 2 ár, þá er ekki ástæða að mínu viti til að ætla að það hafi stórbagaleg áhrif á ufsa- og þorskstofninn.

Sú blekking er hér viðhöfð að hér sé um að ræða veiði eða ekki veiði. Slíkt er náttúrlega algjör fásinna. Við höfum margra ára reynslu af því að útlendingar veiða hér í óleyfi ef þeir hafa ekki leyfi. Þegar þessi samningur svo rennur út, verði hann tveggja ára samningur, þá eru allar ástæður til að ætla að alþjóðamálum um fiskveiðilögsögu hafi miðað það áfram að ekki verði um frekari veiðar útlendinga að ræða á Íslandsmiðum.

Ég greiði því með góðri samvisku þessum samningi atkvæði og lít svo á að hann sé stórt spor í þá átt að friða okkar 200 mílna lögsögu.