15.10.1975
Neðri deild: 6. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í B-deild Alþingistíðinda. (60)

7. mál, almenningsbókasöfn

Ellert B. Schram:

Hæstv. forseti. Það orkar ekki tvímælis að þetta frv. til l. um almenningsbókasöfn fjallar um gott málefni og þarft, enda hafa nokkrir þm. nú þegar lýst fylgi sínu með þessu máli og hvatt til þess að afgreiðslu þess verði hraðað.

Bókasöfn gegna mikilvægu hlutverki, bókasöfn af þessu tagi. En þetta frv. fjallar og um samskipti ríkis og sveitarfélaga á þessum vettvangi, og ég vil ekki leyna því að margt er í þessu frv. sem fjallar um samskipti ríkis og sveitarfélaga, sem fer í bága við þær hugmyndir sem ég hef gert mér um þau efni. Því hef ég allan fyrirvara á um að lýsa stuðningi við þetta frv., a. m. k. um einstök atriði þess, þó að ég styðji það málefni sem hér er á dagskrá.

Hv. 9. þm. Reykv. hefur gert það að umtalsefni að ósamræmi sé milli kostnaðaráætlunar, sem fylgir þessu frv., og fjárlagafrv., sem lagt hefur verið fram hér á hinu háa Alþ. Honum finnst, að hér sé um fáránleg vinnubrögð að ræða og beina móðgun við hv. Alþ. Ég hefði hins vegar haldið að það væri móðgun við hv. d. ef ríkisstj. hefði gert ráð fyrir í fjárlagafrv. þeirri upphæð sem þetta frv. á að kosta, vegna þess að þá er hún að sýna Alþ. nokkra lítilsvirðingu með því að gera ekki ráð fyrir því að það sjálft taki ákvörðun um það hvort slíkt frv. sé samþ. eða ekki. Og mér finnst það líka stangast mjög á við orð þessa þm. og ýmissa annarra, þegar þeir gagnrýna að ríkisstj. boði ekki og stefni ekki að samdrætti og vissum sparnaði í ríkisútgjöldum, á sama tíma sem það er fordæmt að ekki sé gert ráð fyrir fjárveitingum í fjárlagafrv. sem eigi að renna til mála sem ekki eru nú þegar samþykkt.

Þessar orðræður hafa hins vegar gefið mér tilefni til þess að vekja athygli á því nýmæli sem fylgir þessu frv. og ég tel vera mjög til fyrirmyndar, en það er að birta með slíku frv. kostnaðaráætlun um hvað það hafi í för með sér að frv. sé samþ. Þessi vinnubrögð eru til mikillar fyrirmyndar og gefa okkur þm. betri möguleika á því að átta okkur á hvað málefnið kosti ef það sé samþ. Síðan er það okkar að ákveða hvort við teljum að málefnið sé það þarft og sé það brýnt að rétt sé að samþykkja það, þótt það hafi í för með sér svo og svo miklar kostnaðarhækkanir.

Ég hef ekki geð í mér til þess að taka þátt í þeim kór, sem hér hefur verið að hvetja til þess að samþykkja þetta frv. helst fyrir áramót, vegna þeirrar staðreyndar að það kostar mjög mikið fé. Það kostar tugi millj. kr. að samþykkja þetta frv., og ég get ekki, á sama tíma sem ég hvel til sparnaðar og að halda niðri ríkisútgjöldum og fjárlagafrv., verið á sama tíma, sama degi nánast, að standa hér upp og hvetja til þess að frv. séu samþ., helst strax daginn eftir, sem hafi slíkar kostnaðarhækkanir í för með sér.

Ég tel því rétt að þetta frv. verði skoðað af hv. menntmn. með hliðsjón af samskiptum ríkis og sveitarfélaga og með hliðsjón af þeim kostnaðarhækkunum, sem það hefur í för með sér og að n. geri sér fulla grein fyrir því hvaða afleiðingar samþykkt frv. hefur og að það sé þá í takt við almenna fjármálastefnu stjórnvalda í dag.