03.12.1975
Neðri deild: 20. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í B-deild Alþingistíðinda. (620)

26. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. (Gunnlaugur Finnsson) :

Herra forseti. N. hefur athugað þetta frv. sem lagt var fram í Ed. Það er tiltölulega einfalt í sniðum. Það fjallar annars vegar um það að sveitarfélögin fái greitt úr Jöfnunarsjóði mánaðarlega framlag sitt í stað þess að fá það greitt þrisvar sinnum á ári, þ. e. a. s. í apríl, sept. og des. Og í öðru lagi er um að ræða samræmingaratriði miðað við þá breyt. á lögum um Lánasjóð sveitarfélaga sem gerð var hér í des. í fyrra.

Við athugun á frv. kom í ljós að rétt var ábending hv. 1. þm. Vestf. (JóhÁ) í umr. um þetta frv. þegar það var til 1. umr., þannig að formgallar hafa orðið á 1. gr. frv., og að höfðu sambandi við ráðuneytisstjórann í félmrn. kom í ljós að raunar hafði fallið þarna niður ein setning við prentun. Fyrir því er nauðsynlegt að flytja brtt. við frv., þannig að það verði samþ. hér efnislega alveg eins og ætlast er til. N. leggur sem sagt til að breytingin verði samþ. þannig að upphaf 1. gr. hljóði svo: „1. málsgr. 14. gr. laganna orðist svo.“ Það vantaði sem sagt að gera grein fyrir því að formi til, hvaða grein laganna um Jöfnunarsjóðinn þyrfti að breyta.