04.12.1975
Neðri deild: 21. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 991 í B-deild Alþingistíðinda. (622)

88. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Þetta frv. til l. um viðauka við lög nr. 102 27. des. 1973, um veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni, sbr. lög nr. 14 26. mars 1974 og lög nr. 72 14. okt. 1975, er afleiðing af því bráðabirgðasamkomulagi um fiskveiðar sem gert hefur verið við þjóðverja.

Það er nauðsynlegt að taka upp í íslensk lög þau viðurlög sem ákveðin eru í bráðabirgðasamkomulaginu við brotum á því, þ. e. a. s. um útstrikun þeirra skipa af lista sem leyfi hafa. Í öðru lagi er nauðsynlegt að taka upp í íslensk lög ákvæði um það hvaða íslensk yfirvöld það séu sem taka ákvörðun um þessi viðurlög, og það eru þau ákvæði sem er að finna í þessu frv., sem er ákvæði til bráðabirgða við þessi lög sem ég hef áður nefnt.

Þetta frv. er alveg sams konar og þau lög sem á sínum tíma voru afgr. eftir breska samkomulagið. Frv. fór í gegnum þrjár umr. í Ed. í gær. Það var enginn ágreiningur um það. Það er æskilegt að þessu máli verði hraðað sem mest má verða, þannig að skipan þessara mála komist í lögformlegt horf. Þess vegna vildi ég nú fara fram á það að sami háttur gæti verið hafður á í þessari hv. d. ef þess er nokkur kostur og hæstv. forseti og sú þn., sem fær málið til meðferðar, telja það fært.

Ég tel að frv. þetta þurfi ekki skýringa við og leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. allshn.