09.12.1975
Efri deild: 20. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1022 í B-deild Alþingistíðinda. (688)

97. mál, kaupstaðarréttindi til handa Njarðvíkurhreppi

Flm. (Oddur Ólafsson) :

Herra forseti. Ásamt þeim þm. Geir Gunnarssyni, Jóni Árm. Héðinssyni og Axel Jónssyni hef ég leyft mér að flytja hér frv. til l. um kaupstaðarréttindi til handa Njarðvíkurhreppi.

1. gr. frv. hljóðar svo:

„Njarðvíkurhreppur skal vera kaupstaður og sérstakt lögsagnarumdæmi. Nær umdæmið yfir allan núverandi Njarðvíkurhrepp og heitir Njarðvíkurkaupstaður. Umdæmi þetta er í Reykjaneskjördæmi.“

2. gr. „Sýslumaður Gullbringusýslu og bæjarfógeti Keflavíkur skal jafnframt vera bæjarfógeti kaupstaðarins.“

3. gr. fjallar um viðskipti Gullbringusýslu við væntanlegan kaupstað, og í 4. gr. segir að um málefni kaupstaðarins fari skv. sveitarstjórnarlögum.

Í ákvæði til brb. er sagt:

„Þar til bæjarstjórnarkosningar hafa farið fram síðasta sunnudag í maí 1978 skal núv. hreppsnefnd fara með stjórn kaupstaðarins.“

Undanfari þessa er að á fundi sínum 2. des. samþ. hreppsnefnd Njarðvíkurhrepps svo hljóðandi:

„Hreppsnefnd Njarðvíkurhrepps samþ. að fara þess á leit við alþm. Reykjaneskjördæmis að þeir flytji á Alþ. frv. að l. um kaupstaðarréttindi til handa Njarðvíkurhreppi. Kaupstaðurinn nái yfir allan núv. Njarðvíkurhrepp og verði sýslumaður Gullbringusýslu bæjarfógeti kaupstaðarins.“

Sveitarstjóri Njarðvíkurhrepps hefur athugað hver sé hagkvæmnin fyrir sveitarfélag að öðlast kaupstaðarréttindi. Það, sem hann telur færast í betra horf, er m. a. þetta:

Í fyrsta lagi um stjórnsýsluna. Bæjarstjórn heyrir beint undir félmrn., en hreppsnefnd undir sýslunefnd eða sýslumann. Hreppsnefnd hefur takmarkað valdsvið og þarf í ýmsum málum lagalega séð að leita samþykkis sýslumanns eða sýslunefndar, t. d. við ýmsar skuldbindingar. Reikningsskil hreppa eru önnur en kaupstaða o. s. frv. Af framansögðu má það vera ljóst, að sjálfstæði kaupstaða er meira en hreppanna og öll stjórnsýsla er einfaldari.

Í öðru lagi eru það fjármál. Hreppur greiðir sýslusjóðsgjald og sýsluvegagjald. Árið 1975 greiddi Njarðvíkurhreppur 697 262 kr. í sýslusjóð og 563 822 kr. í sýsluvegasjóð, en eins og staðsetning hreppsins er og aðstaða öll, þá telur hann sig heldur lítið fá í staðinn.

Það er gert ráð fyrir því, að bæjarfógetinn í Keflavík, sem jafnframt er sýslumaður Gullbringusýslu, verði bæjarfógeti Njarðvíkurkaupstaðar. Þess vegna ætti ekki að verða um neinn kostnaðarauka fyrir hið opinbera að ræða. Til greina kæmi einnig að lögreglustjórinn á Keflavíkurflugvelli yrði bæjarfógeti Njarðvíkurkaupstaðar þar eð hluti af Njarðvíkurhreppi er innan flugvallarsvæðisins, en þar sem fógetaembættið á Keflavíkurflugvelli heyrir undir utanrrn. þykir eðlilegra að hin leiðin sé farin.

Njarðvíkurhreppur hefur nú 1708 íbúa og er vaxandi staður. Atvinnulíf er blómlegt, byggist á fiskveiðum, fiskiðnaði, skipasmíðum og skipaviðgerðum, enn fremur nokkrum léttum iðnaði. Þar er einnig landshöfn í byggingu. Það er því fyrirsjáanlegt að þetta sveitarfélag mun vaxa í náinni framtíð og því þykir okkur eðlilegt að því sé breytt í kaupstað.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til félmn.