10.12.1975
Efri deild: 21. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1032 í B-deild Alþingistíðinda. (707)

94. mál, bátaábyrgðarfélög

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Það voru aðeins tvö atriði sem mig langaði til að spyrjast fyrir um hjá hæstv. ráðh. varðandi frv. til l. um bátaábyrgðarfélög.

Bátaábyrgðarfélögin hafa nú allmikla starfsreynslu að baki og þeim hefur vaxið fiskur um hrygg mörgum hverjum. Í 1. gr. þessa frv. til l. er lagt til að sú stærð báta, sem þau skuli taka í tryggingu, vaxi úr 100 rúmlestum í 100,49. Nú er vitað mál að síðan þessi lög voru endurskoðuð, síðan 1967, hefur orðið allmikil breyting á okkar bátaflota og m. a. til stækkunar. Það, sem mig langaði til að spyrjast fyrir um hjá hæstv. ráðh., er hvort ekki hefði komið til greina að breyta þessu 100,49 í 200,49 eða 300, þannig að bátaábyrgðarfélögin tækju bátaflotann að mestu til sín í tryggingu.

Í öðru lagi spyr ég um það, hvað líði því, sem margir hafa áhuga á þ. e. a. s. varðandi sjálfsábyrgð, hvort það væri ekki nauðsynlegt að það kæmu inn í þessi lög einhver ákvæði. um sjálfsábyrgð.