10.12.1975
Neðri deild: 26. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1091 í B-deild Alþingistíðinda. (746)

53. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Þetta frv. var lagt fyrir Ed. og afgreitt þaðan með breytingu, er það nú svo breytt á þskj. 125.

Skyldusparnaður var fyrst lögleiddur hér með lögum frá 1957, en í núgildandi lögum frá 1970 um Húsnæðismálastofnun eru nánari ákvæði um hann. Þar eru ákveðnar heimildir til þess að menn geti fengið sparifé endurgreitt. Þau skilyrði eru allströng. Maður getur fengið fé sitt endurgreitt þegar hann verður 26 ára gamall, ef hann stofnar til hjúskapar eða hann ætlar að kaupa sér íbúð. Frekari undanþáguheimildir eru ekki.

Það hefur komið fyrir að aðilar hafa óskað undanþágu og legið til þess ýmsar brýnar félagslegar ástæður, þannig að félmrn. hafa virst fullgild rök liggja til þess, en það hefur ekki haft til þess heimild í lögum. Það, sem hér hefur verið um að ræða, er sumpart þegar öryrkjar hafa átt í hlut, einstæðir foreldrar eða námsmenn eða þeir sem hafa ætlað að hefja nám. Frv. felur í sér að félmrh. sé veitt heimild til að veita leyfi til endurgreiðslu ef högum umsækjanda er þannig háttað að brýna nauðsyn beri til að leyfa endurgreiðsluna. Í þeirri viðbót, sem Ed. gerði, var nefnt sem dæmi ef um væri að ræða öryrkja, einstæða foreldra eða námsmenn, en þessi þrjú atriði voru einnig nefnd ýmist í grg. eða framsöguræðu minni þegar málið var lagt fyrir Ed.

Um afgreiðslu frv. varð fullkomin samstaða í Ed. og ég vænti þess að svo verði einnig hér. Ég legg til, að málinu verði vísað til 2. umr. og félmn.