12.12.1975
Efri deild: 25. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1143 í B-deild Alþingistíðinda. (813)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Geir Hallgrímsson) :

Herra forseti. Það hefur skapast sú venja hér á þingi, að ég hygg, að þeir menn, sem óska þess að kveðja sér hljóðs utan dagskrár og bera fram fsp., sýni þá lágmarksháttvísi að gera þeim aðilum aðvart sem þeir ætla að beina máli sínu til. Hv. 5. þm. Norðurl. e. þótti það nú ekki við eiga að hlíta slíkri lágmarks kurteisisskyldu og kemur engum á óvart, sem hefur hlýtt á mál hans hér nú eða fyrr á hv. þingi. Hins vegar gerði flokksbróðir hans, hv. þm. Gils Guðmundsson, okkur hæstv. dómsmrh. grein fyrir því að hann óskaði eftir að bera fram fsp. í Nd. Alþ. Þótt við værum báðir bundnir á fundi kom hann þessum skilaboðum til okkar og bar fram fsp. sína með eðlilegum og málefnalegum hætti.

Þótt ég hefði raunar nokkuð við hans aðferð að athuga, þá hef ég þó miklu meira að athuga við aðferð hv. 5. þm. Norðurl. e. og það ekki eingöngu vegna þess að hann brást þessari sjálfsögðu kurteisisskyldu og þingvenju sem ég gat um áðan. Ég áfellist þá báða fyrir að gera hæstv. utanrrh. upp meiningar og skoðanir samkv. lauslegum fréttum langan veg að og túlka þær þannig sem þeir telja sér henta best. Ég tel hæstv. utanrrh. vel færan um bæði að standa fyrir máli sínu og gera grein fyrir því hvað hann hefur sagt og í hvaða tengslum það er við aðra. þætti landhelgismálsins. En í þessum umr. hefur það komið skýrt og ótvírætt fram að á Alþ. hefur því verið lýst yfir bæði af hæstv. utanrrh., mér og öðrum ráðh., að tilboði til breta um 65 þú s. tonna ársafla var synjað, og tilboð, sem er synjað, er fallið úr gildi. Enn fremur hefur það komið fram að við herskipaíhlutun breta á Íslandsmiðum eru að sjálfsögðu samningaviðræður niður fallnar og öll samningstilboð úr sögunni. Við höfum lýst því yfir að samningaviðræður fari ekki fram fyrr en bretar hafa dregið herskip sín út úr 200 mílna lögsögunni. Þetta liggur allt fyrir. Síðan liggur það fyrir til viðbótar í fréttum sem fram hafa komið og frá hefur verið skýrt opinberlega að utanrrh. hefur á ráðstefnufundi Atlantshafsbandalagsins lýst aðdraganda þess, að slitnaði upp úr samningaviðræðum við breta, og getið um hugmynd okkar til lausnar þessari deilu, 65 þús. tonna ársafla bretum til handa. Það er í tengslum við sögu málsins og skýrslu um gang þess sem utanrrh. nefnir 65 þús. tonna ársafla, og það er þessi skýrslugjörð sem er afbökuð hér á Alþ. í fjarveru hæstv. utanrrh. til að kasta skugga á hann og reyna að koma á tortryggni og úlfúð þegar okkur íslendingum er mest í húfi að standa saman. Þetta eru geðsleg vinnubrögð eða hitt þó heldur. Það liggur fyrir sömuleiðis að í ræðu sinni á fundi Atlantshafsbandalagsins í gær lýsti hæstv. utanrrh. því yfir að þessi hugmynd og þetta tilboð um 65 þús. tonna ársafla væri niður fallið. Hann lýsti þessu yfir skýrum stöfum og berum orðum. Útdrætti úr þessari ræðu, m. a. með þessum yfirlýsingum, var útbýtt á blaðamannafundinum í gær sem vitnað er til. Þannig er svo ljóst sem frekast má vera að hæstv. utanrrh. hefur ekki gert eitt eða neitt tilboð um eitthvert ákveðið magn öðrum þjóðum til handa til veiða hér á Íslandsmiðum. Það er því furðulegt að kveðja sér hljóðs hér utan dagskrár með fsp. af þessu tagi sem raun ber vitni um í dag. Mér finnst þetta lýsa málefnafátækt. Mér finnst þetta lýsa tilraunum til þess að koma á úlfúð þegar við þurfum á samheldni að halda. Ég fagna aftur á móti afstöðu utanrmn., fulltrúa allra flokka þar, sem eru sammála ríkisstj. um hvernig bregðast skuli við þeim aðgerðum sem bretar höfðu í frammi innan íslenskrar lögsögu — innan íslenskrar landhelgi í gær. Það er samheldni sem sýnir umheiminum að okkur íslendingum er alvara. En að vera með hártoganir og afbakanir vegna ræðu hæstv. utanrrh. að honum fjarstöddum sýnir slíka framkomu að það er ástæða til þess að víta hana alveg sérstaklega og lýsa hryggð sinni yfir að menn skuli beita slíkum vinnubrögðum.

Ég vil svo aðeins að lokum láta það koma hér fram að eftir atburðinn í gær náðum við hæstv. utanrrh. ekki saman fyrr en eftir að hann hafði flutt ræðu sína á ráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins og því hafði hann ekki aðstöðu til þess í þeirri ræðu að fara inn á þessa atburði, en hefur nú gert það með því í morgun að kveðja sér sérstaklega hljóðs til að bera fram kæru á hendur bretum vegna þessa atferlis þeirra. Ég hef síðan haft samband við hæstv. utanrrh. og hann hefur tjáð mér að hann hafi fengið vinsamlegar undirtektir, og vitaskuld verður áfram að málinu unnið og réttur okkar sóttur.