12.12.1975
Efri deild: 25. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1162 í B-deild Alþingistíðinda. (833)

100. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Helgason:

Herra forseti. Mig langar aðeins að undirstrika það að rökstuðningur hv. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. fyrir brtt. hans er, að ég tel, ekki á rökum reistur. Samkv. skýrslu Þjóðhagsstofnunar var heildarbrúttóeign hér á landi metin á 113 milljarða við skattframtal árið 1976 og þar af voru fasteignir metnar á 50–55 milljarða.

Ef við margföldum matsverð fasteignanna með 2.7, þá hækkar heildarverðmætið ekki nema um 93 milljarða, þannig að brúttóeign til skatts tvöfaldast ekki, hún hækkar ekki nema um 93 milljarða, sem bætast við heildarverðmætið 113 milljarða. Þess vegna virðist vera fyllilega fyrir þessari hækkun séð með því að tvöfalda frádráttinn til eignarskatts, þ. e. a. s. úr 1 millj. í 2 millj.

Það er auðvitað, eins og hér hefur komið fram, erfitt að segja hvernig þetta kemur út fyrir hvern einstakling. Það munu ekki verða allir sömu einstaklingar sem lenda í skatti eftir þessa breytingu. En vegna ummæla hv. 12. þm. Reykv. hér áðan vil ég benda á það að eignir reiknast ekki til skatts eftir söluverði sem talið er nú t. d. á lítilli íbúð hér 2–4 millj. Fasteignamat slíkrar íbúðar er langtum lægra, og það er auðvitað það sem hefur áhrif en ekki verðið á almennum sölumarkaði.