12.12.1975
Neðri deild: 29. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1174 í B-deild Alþingistíðinda. (871)

105. mál, söluskattur

Frsm. meiri hl. (Ólafur G. Einarsson):

Hæstv. forseti. Fjh.- og viðskn. hefur haft þetta frv. til meðferðar, en ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Meiri hlutinn, fulltrúar stjórnarflokkanna, leggur til á þskj. 151 að frv. verði samþ., en minni hlutinn, hv. þm. Lúðvík Jósepsson og Gylfi Þ. Gíslason, skilar séráliti.

Frv. þetta hefur við 1. umr. hér í hv. þd. verið útskýrt af hæstv. fjmrh. þannig að ég þarf ekki að hafa um það mörg orð. Annars vegar felur frv. í sér að þau 2 söluskattsstig, sem runnið hafa til Viðlagasjóðs, skuli frá 1. janúar 1976 renna til ríkissjóðs, enda er talið að núgildandi tekjustofnar Viðlagasjóðs dugi til þess að ljúka verkefnum sjóðsins í Vestmannaeyjum og Neskaupstað, en síðan tekur Viðlagatrygging Íslands við hliðstæðum verkefnum eftir þörfum, eins og kunnugt er. Hins vegar er um þá breytingu að ræða að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga fái 8% hlutdeild í hinum 19 söluskattsstigum í stað hlutdeildar hans í 13 söluskattsstigum til þess, og eykur það tekjur Jöfnunarsjóðsins um u. þ. b. 600 millj. kr. Á móti er svo ráðgert að yfirfæra verkefni til sveitarfélaganna sem nemur sömu eða svipaðri upphæð.

Það er ekki ástæða fyrir mig til að ræða þetta frv. frekar, en meiri hl. n. leggur sem sagt til að frv. verði samþykkt.